21.03.1935
Neðri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í C-deild Alþingistíðinda. (3440)

28. mál, námskeið fyrir atvinnulausa unglinga

Frsm. meiri hl. (Sigurður Einarsson):

Þeir hafa nú talað meðnm. mínir úr menntmn., sem andvígir eru frv. þessu. Um ræðu hv. 2. þm. Árn. þarf ég fátt eitt að segja, en það tel ég með öllu ótækt og ná engri átt, að set ja ráðstafanir þær, sem hér er farið fram á að gerðar verði, í samband við flótta fólksins úr sveitunum til kaupstaðanna. Þessi gömlu klögumál sveitafulltrúanna geta með engu móti átt rétt á sér hér í þessu sambandi, því að þau koma ekki þessu við. Það er alveg óþarfi að gera mikið úr kostnaðarhliðinni; hún getur tæplega orðið mjög tilfinnanleg, þar sem aðeins er um að ræða 1 námskeið í bæjunum utan Rvíkur, og í hæsta lagi 3 hér í Rvík. Vilji fólkið svo ekki sækja námskeið þessi, þá verður kostnaðurinn vitanlega minni. Nei, um það verður ekki með rökum deilt, að þörfin fyrir slík námskeið sem þessi er ótvíræð, enda þótt aðstaðan til verulegra umbóta sé sumstaðar nokkuð erfið.

Ég verð nú að segja, að mér finnst það dálítið einkennilegt, að fyrir þinginu liggur frv. um að koma upp fangelsum með ærnum kostnaði, einmitt á þeim sömu stöðum og gert er ráð fyrir, að námskeið þessi geti komið til mála. Mér finnst þetta vera að byrja á öfugum enda, ef meiri áherzla er lögð á fangelsin en menntun fólksins. En vera má, að sumir telji fangelsin nauðsynlegri en skóla fyrir atvinnulausa unglinga. Þeir um það.

Hv. 2. þm. Árn. sagði, að þetta væri losaraleg hugmynd. En þetta er bara ekki rétt hjá hv. þm. Hér er aðeins um það að ræða, að taka hóp ungra manna og kvenna, sem engin viðfangsefni hafa, og beina huga þeirra að ákveðnum viðfangsefnum.

Um ræðu. 5. þm. Reykv. þarf ég fátt eitt að segja. Ástæðan fyrir því, að frv. þetta er fram komið, er aðeins þörfin ein, hin knýjandi þörf, að bæta úr neyðarástandi. Það eru vitanlega engin rök gegn þessu máli, þó að tossanámskeið hafi verið illa sótt hér í bænum, því að vitanlega er slíkt fólk áhugaminnst allra, fyrir öllu andlegu námi a. m. k. En það dettur mér nfl. ekki í hug, að hv. 4. þm. Reykv. haldi því fram, að atvinnuleysið sé hlutskipti hinna verst gefnu. Dómur skólanefndar sker sannarlega ekkert úr í þessu máli. Hún, sem t. d. hefir lent í deilum við sérfræðinga út af gólfi á einum leikfimisal, hvort það væri nothæft eða ekki, og orðið sér til lítillar frægðar. Upp úr áliti hennar legg ég því ekki mikið. Hvort hún leggur á móti málinu eða ekki, skiptir engu, a. m. k. ekki fyrir þá, sem til þekkja. Ég ætla ekki að fara að gera þeim hv. 5. þm. Reykv. eða hv. 2. þm. Árn. upp neinar hvatir, eins og hv. 5. þm. Reykv. var með í minn garð. Slíkt tel ég ósæmilegt. Annars geri ég ekki ráð fyrir, að þessir hv. þm. vilji verða þessum ungmennum að meini, sem hér eiga mest undir, heldur muni hitt vera, að þeir komi ekki auga á möguleikann, sem í þessu frv. felst.