13.03.1935
Neðri deild: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í C-deild Alþingistíðinda. (3444)

77. mál, bæjargjöld á Akureyri

Flm. (Guðbrandur Ísberg):

Þetta frv. er svo að segja alveg eins og frv., sem flutt var á síðasta þingi, en náði ekki þá fram að ganga, þrátt fyrir það, þó að meiri hl. fjhn. væri því samþykkur. Frv. þetta er nú eins og á síðasta þingi flutt eftir beiðni bæjarstj. Akureyrar, vegna þess, að nú er svo komið, að bæjarstj. treystir sér ekki til þess að ná inn því fé til bæjarins þarfa, sem nauðsynlegt er, með útsvörum einum saman. Ég vil geta þess í þessu sambandi, að útsvörin hafa nú hækkað þar um þriðjung á síðustu þremur árum, úr ca. 200 þús. kr. 1932 í ca. 300 þús. kr. í ár, og stafar þessi hækkun aðallega of auknum framfærslukostnaði. Samtímis þessari hækkun hefir gjaldgeta bæjarbúa stórlega minnkað, svo að nú eru ekki lengur nokkur ráð til þess að ná þessari upphæð af borgurunum með útsvörum einum saman, og verður því að taka til annara ráða, og þykir þá helzt reynandi að ná þessu fé inn að nokkru leyti með því að leggja gjald á verzlunarveltu bæjarins, á þann hátt, sem hér er lagt til. Þegar svo er komið, að bærinn getur ekki lengur aflað sér tekna eftir löglegum leiðum, þá er um það tvennt að velja að safna skuldum, eða að finna nýjar leiðir til tekjuöflunar. Og nú vil ég spyrja hv. þm. þessarar d., hvora leiðina þeir vilja ráða Akureyrarbæ til að fara, að jafna árlegan rekstrarhalla með nýjum lánum, eða með því að afla nýrra tekna, - og vilja þeir þá hjálpa til þess að það verði hægt? En ef sú leið verður farin, þá kemur sú spurning, hvar eigi að taka þær tekjur. Bæjarstj. Akureyrar öll sem einn maður, framsóknarmenn og jafnaðarmenn eigi undanskildir, telur helzt fært að fara þá leit, sem lagt er til í frumv. því, sem hér liggur fyrir. Á Akureyri eru sérstaklega lág hafnargjöld, svo að þó þau yrðu hækkuð nokkuð, þá yrðu þau samt lág, miðað við flesta aðra kaupstaði á landinu. Sú leið, sem bæjarstj. hefir lagt til, að farin verði til þess að afla bænum nýrra tekna, er þá þessi, að hækka hafnargjöldin nokkuð. Þeir, sem neita bæjarstjórninni um þessa einu færu leið, án þess að færa fram nokkur rök fyrir neituninni, gera sig að dómurum yfir sér kunnugri mönnum, yfir bæjarstj. Akureyrar.

Ég hirði ekki að fjölyrða frekar um þetta frv. að þessu sinni, nema ný tilefni gefist til. Ég vil aðeins endurtaka það, að þörfin fyrir þessar nýju tekjur er ákaflega brýn. Ég leyfi mér að vænta þess, að frv. fái ekki verri viðtökur hjá hv. fjhn, sem ég óska, að því verði vísað til, heldur en frv. sama efnis fékk á síðasta þingi. Og að óreyndu vil ég ekki trúa því, að hv. þd. sjái sér fært að fella frv. sérstaklega þegar á það er lítið, að ekki verður séð, að hæstv. ríkisstj. ætli neitt að gera í því að afla bæjar- og sveitarsjóðum aukinna tekjumöguleika, eins og þó var látið í veðri vaka á síðasta þingi.