21.12.1935
Sameinað þing: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (345)

1. mál, fjárlög 1936

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Ég vil fyrst leyfa mér að segja nokkur orð um þá till., sem ég ber fram einn. Hún er á þskj. 890, 9. liður 1 —3, um Laxárdalsveg, að framlag til hans verði hækkað úr 1500 kr. upp í 2500 kr. Þessi vegur hefir að ófyrirsynju verið olnbogabarn nú síðustu árin, og er hans þó hin mesta þörf, því að svo hagar til þarna, að það er þegar kominn allgreiður vegur yfir Laxárdalsheiði, en Laxárdalurinn sjálfur innan til er ófær. Er hin mesta nauðsyn að geta lokið við veginn, einkanlega á miðkafla dalsins, þar sem verður að fara yfir eina til þess að komast leiðar sinnar; en í ánni eru sandbleytur, og þegar miklar rigningar eru, getur hún verið ófær. Hreppsbúar hafa lagt mikið á sig til þess að leggja af mörkum á móti því, sem greitt er úr ríkissjóði, og þeir hafa sýnt það í verkinu, hvað mikið áhugamál þessi vegur er þeim. — Annar liður í þessari till. minni er um Suðurdalaveginn, að framlagið til hana hækki úr 6000 kr. upp í 8000 kr. Um þann veg er sama að segja, að hans er hin mesta þörf, en því má bæta við, að hans er ekki aðeins nauðsyn fyrir héraðið sjálft, heldur og fyrir vesturkjálkann. Strandasýsla og Barðastrandarsýsla, eða austurhluti hennar, hafa mjög mikið gagn af þessum vegi. En svo hagar til einmitt í Suðurdölunum, að stór á, Miðá, sem hefir mikið vatnssvið og vex ört á sumrin og getur verið ófær haust og vor, rennur þarna, mg hafa bílar teppzt við hana. Þessi vegabót, sem nú á að gera, er einmitt gerð með það fyrir augum, að komizt verði hjá að fara yfir Miðá sjálfa, heldur verði lagðar smá brýr á nokkrar ár, sem í hana renna. Er þess vegna hin mesta nauðsyn, ekki aðeins fyrir það hérað, sem þessar vegabætur eru verðar í, heldur og fyrir Strandasýslu og austasta hluta Barðastrandarsýslu, að þessi vegur komist á. Ég hefi því lagt til, að upphæð til þessa vegar verði hækkuð lítilsháttar.

Í 3. lið IX. er talað um Saurbæjarveg. Þeirrar vegabótar er eigi aðeins þörf vegna þeirra byggða, sem vegurinn liggur um, heldur og vegna nokkurra héraða, sem verða að flytja eftir þessum vegi. Ég hefi því lagt til, að sú upphæð verði hækkuð um 1500 kr.

þá hefi ég borið fram brtt., sem er merkt XXVIII., við 16. gr. 12, um 800 kr. til Ingólfs Davíðssonar grasafræðings til framhaldsnáms í jurtasjúkdómafræði. Ég bar fram till. um þennan námsstyrk í fyrra, og var hann þá samþ., en því miður hefir þessi maður ekki komizt að í fjárl. fyrir næsta ár. En ég tel hina mestu nauðsyn á að hafa sérfróðum mönnum á að skipa viðvíkjandi jurtasjúkdómum, með því að það skiptir mjög miklu máli fyrir alla þá, sem lifa á jarðrækt. Það er vitanlegt, að fjölmargir hafa orðið fyrir geysimiklum skaða á undanförnum árum af völdum kartöflusýkinnar. Vera má, að ef við hefðum haft sérfræðing í jurtasjúkdómum, þá hefði mönnum þegar tekizt að vinna bug á þessum vágesti, en við höfum ekki haft einn einasta jurtasjúkdómafræðing, en orðið að leita til erlendra manna í því efni, en slíkum mönnum er ekki ávallt að treysta, og verður ekki hjá því komizt að veita nokkurn styrk til þess að þjóðin geti átt kost á því, að hér heima sé jafnan sérfróður maður, þegar um jurtasjúkdóma er að ræða. Ég vænti því, að Alþ. taki vel undir þessa till., eins og henni var vel tekið í fyrra.

Þá hefi ég ásamt öðrum flutt brtt. við 22. gr. um að á eftir II. lið komi nýr liður um að heimila ríkisstj. að festa kaup á jörðunum Vorsabæ, Yxnalæk og Saurbæ í Ölfusi, ef viðunandi samningar takast um þær, til viðbótar við Reykjatorfueignina, svo að hægt verði að reisa þar nýbýlahverfi. Þegar Reykjatorfan var keypt, munu margir hafa hugsað, að þar væri góður staður til að reisa nýbýlahverfi. En við nánari athugun hefir það komið í ljós, að landrými Reykjatorfunnar sé ekki nægilega stórt til að hægt sé að reisa þar nýbýlahverfi að ráði. Hinsvegar liggja þessar þrjár jarðir að Reykjatorfueigninni, sem er eign ríkissjóðs, og ef hann tryggði sér eignarhald á þessum þrem jörðum, myndi þar vera fenginn einhver allra ákjósanlegasti staður til þess að reisa nýbýlahverfi. Á þessu landsvæði er ekki aðeins sá kostur, að þar er nægur jarðhiti, heldur og allgóð aðstaða til að virkja fallvatn, sem jarðirnar eiga rétt á, og hafa þannig hvorttveggja: jarðhita og aðstöðu til rafvirkjunar. Hygg ég, að slík aðstaða sé allfágæt og þess vegna ekki forsvaranlegt að sleppa slíku tækifæri, þar sem nú mun hægt að komast að allgóðum kjörum um þetta. Um Vorsabæ hefir þannig borizt ágætt tilboð um samninga. Og þar sem ekki hefir verið leitað úr annari átt heimildar Alþ. til að nota það tilboð, þá er þessi till. fram borin. Auk þessa mikla landsvæðis fylgja því 400 ha. af nytjalandi og fjalllendi, sem mun vera um 200 ha.

Þá skal ég víkja að till., sem við hv. þm. V-. Húnv. flytjum á þskj. 890, merkt XXVI, við 16. gr. l. Það eru 2 nýir liðir; annar er um framlag til kjötverðjöfnunarsjóðs 150000 kr. Eins og öllum er kunnugt, þá getur svo farið, að bændur á 1. verðlagssvæði verði jafnvel að lúta að því að fá lægra verð fyrir sínar kjötafurðir en fyrr, og munu þó margir bændur vera svo á vegi staddir, að það verð sé ekki um of. Erlenda salan hefir að vísu, eftir þeim gögnum, sem ennþá eru fram komin, gengið betur en í fyrra, en niðurstaðan verður sú, að bændur, sem hafa aðallega notað innlenda markaðinn, fá jafnvel lægra verð en í fyrra. Það er upplýst, að till., sem gengur í þessa átt, hafi þegar verið búin að ná samþykki fjvn., en sökum andstöðu fulltrúa eins flokks hefir till. af einhverjum óupplýstum ástæðum verið tekin aftur. Nokkrir menn úr fjvn. hafa borið fram till., sem miðar að þessu sama, að varið verði 120 þús. kr. til þess að bæta upp kjöt af framleiðslu ársins 1935, og er það í samræmi við þá till., sem búið var að samþ. í fjvn. En nokkrir, sem upprunalega voru þessu fylgjandi, fellu frá því. fyrir hvaða fríðindi sem það hefir nú verið, sem aths. við þessa till. okkar stendur, að ef ekki verði fé fyrir hendi í ríkissjóði til þess að greiða þetta, megi greiða upphæðina af því fé, sem veitt er til atvinnubóta. Gert er ráð fyrir, að óvenjulega miklar vegabætur verði unnar fyrir opinbert fé hér í námunda við Rvík. samkv. sérstökum l., þar sem atvinnubótaþörfin er jafnan mest. En þessir vegir eru Hafnarfjarðarvegur, vegurinn að Elliðaánum og vegurinn austur yfir Hellisheiði. Litum við svo á, að atvinnubótaféð geti að þessu meðtöldu orðið eins mikið og, venja er til. Auk þess er öllum vitanlegt, að við Sogsvirkjunina verður um meiri atvinnu að ræða á næsta ári heldur en síðastl. sumar, bæði af því að sú atvinna getur byrjað fyrr, því að við væntum þess, að ekki komi fyrir verkfall af sama tægi og í fyrra til þess að hindra atvinnu í landinu, og auk þess mun vinnunni verða hagað þannig, að gert mun ráð fyrir, að atvinna verði alveg sérstaklega mikil við þetta fyrirtæki. Með tilliti til þess, að sérstaklega mikil og stór mannvirki verða unnin í landinu einmitt á næsta sumri, höfum við talið það mjög forsvaranlegt að láta þessa aths. fylgja till. okkar. Við teljum þess fulla þörf, að þessi till. verði samþ. nú, en ef hún nær ekki fram að ganga, þá munum við flm. hennar að sjálfsögðu greiða atkv. með þeirri till., sem einnig hefir komið fram um sama efni, þó að hún sé þrem tugum þúsunda lægri.

Þá höfum við sömu þm. borið fram brtt. við 16. gr. um að stj. greiði til sauðfjáreigenda fyrir þann halla, sem þeir hafa orðið fyrir vegna takmörkunar á útflutningsleyfum til Þýzkalands á ull og gærum, 300 þús. kr. Ég skal nú gera nokkra grein fyrir því, hvers vegna við höfum borið þessa till. fram. Það er upplýst, a. m. k. eftir þeim gögnum, sem við hofum átt kost á að fá, að ullarverðið í Þýzkalandi framan af ári hefir verið rúmlega 11/2 mark fyrir kg., en það hefir líka verið hámarksverð í Þýzkalandi og allt niður í 1.40 mark, eða um kr. 2.50. En hinsvegar er vitað, að í Danmörku t. d. hefir markaðsverð á ull naumast verið yfir 2 kr., og jafnvel lægra á sumum sendingum. Það mun því vera um 50 aura verðmunur á kg. miðað við Danmörku. Um það, hve mikið verði flutt út á þessu ári af ull, liggja ekki fyrir fullnægjandi skýrslur, vegna þess að á undanförnum árum hefir ullarútflutningurinn verið nokkuð mismunandi, sökum þess að menn hafa stundum geymt ullina til næsta árs, og er því stundum munur milli ára. Hefir ullarútflutningur stundum komizt upp yfir 1 millj. kg. Við gerum ráð fyrir, að útflutningurinn verði varla minni en 700 þús. kg. Og ef miðað er við það, að ekki hafi fengizt útflutt héðan til Þýzkalands meira en 50% af ullinni, þá mun það vera um 175 þús. kr. verðmunurinn á þýska markaðinum miðað t. d. við Danmerkurmarkað. — Um gæruverðið er það að segja, að í Þýskalandi hefir gærumarkaðurinn verið þannig, að ég hygg. eftir upplýsingum, er ég hefi átt kost á að fá, að verð á gærum pr. kg. hafi verið sem næst 1.44 kr., en í Danmörku 1.19 kr. Er því þarna um 25 au. mun að raða. Og ef miðað er við, að út sé flutt samtals 1 millj. kg. af gærum, sem mun láta nærri, og að ekki sé leyft að flytja til Þýzkalands nema helming af því, þá verður skaðinn á því, sem afgangs er, um 125 þús. kr. hér hefir, með þeim hömlum, sem settar hafa verið að opinberri tilhlutun á þessar afurðir til Þýzkalands, íslenzk bændastétt orðið fyrir halla, sem nemur allt að 300 þús. kr. eftir þessum tölum. En auðvitað geta komið nýjar upplýsingar um það efni og hallinn getur þess vegna orðið meiri eða minni. Hér er því sett aðeins hámark 300 þús. kr. Við lítum svo á, að það séu harðir kostir fyrir íslenzka bændastétt, eins og hennar högum er nú háttað, að verða fyrir því, af því að hömlur eru settar að opinberri tilhlutun, að fá slíkan skaða. Þess vegna teljum við rétt, að hinu opinbera, sem hömlurnar setur, sumpart og að mestu leyti með tilliti til annara atvinnuvega og neytenda, beri að bæta a. m. k. að mestu leyti þeim, sem verða fyrir mestu tjóni.

Það mun vera þingvenja, að stj. og frsm. nefnda rísi ekki gegn till., sem fram eru bornar, fyrri en flm. hafa mælt fyrir þeim, en hæstv. stj. hefir brugðið út af þeirri venju í þessu tilfelli. Hæstv. stj. hefir verið svo brátt, að hún hefir talað á móti þessari till. áður en mælt hafði verið fyrir henni, og svo sem vænta mátti ekki tekið henni vinsamlega, og hæstv. fjmrh. hefir að því er mér er sagt, mælt á móti henni á þeim grundvelli, að mér virðist hann hafi borið það í sjálfan sig, að á árinu 1933 hafi verið frjáls sala á þessum vörum til Þýzkalands, og þá hafi salan þangað verið miklu minni í krónutali en nú þetta ár. Það er náttúrlega sök sér, þótt hæstv. fjmrh. reyni nú að villa mönnum sýn með því að tiltaka krónutölu í stað þess að tiltaka kg. tölu, því að verðmunurinn er allmikill á milli þeirra ára og þess vegna mjög villandi að tala um krónutölu, en ekki kg. tölu. Þá vildi hæstv. ráðh. áfellast fyrrv. ríkisstj. fyrir það að hafa leyft frjálsa sölu á ull og gærum til þeirra landa, sem þessar vörur vildu kaupa. Hann hefir gefið í skyn, að fyrrv. ríkisstj. væri í stórri sök fyrir það, að hafa ekki skipulagt ullarsöluna 1933, en beitt þvingunarráðstöfunum gegn þeim, er seldu til Þýzkalands. En hvaða ástæður voru þá fyrir hendi? Hann gengur út frá, að þá hafi verið eins ástatt og nú, sama hlutfall markaða. En þá var verðið hvað lægst á Þýskalandi. T. d. var ullarverðið 1933 31 eyri hærra í Danmörku en Þýzkalandi, á Englandi var það svipað, en í Bandaríkjunum, þar sem markaðurinn var mestur, 26 aurum hærri. Það er eins og hæstv. fjmrh. gefi fyrrv. ríkisstj. það að sök, að hún hafi ekki beint ullarsölunni þangað, sem markaðurinn var lægstur, og beitt þvingunarráðstöfunum gegn framleiðendum til þess þeir skyldu selja þangað, sem markaðurinn var lakastur.

Sama er að segja um gærurnar, að markaðurinn í Danmörku var 13 aurum betri á hvert kg. 1933 en á Þýzkalandi sama ár.

Það er því svo, að það, sem hæstv. fjmrh. gefur fyrrv. ríkisstj. að sök, að hún hafi ekki gert, hefir verið, ef hún hefði gert það, mörg hundruð þús. króna tap fyrir landbúnaðinn, ef hans ráð hefðu verið tekin. Þá hefði einnig mátt krefjast skaðabóta, ef fyrrv. ríkisstj. hefði neytt nokkra til að selja gærur eða ull til Þýzkalands.

Hann var og, hæstv. fjmrh., að hrista hníflana að fyrrv. stj. fyrir að hafa ekki leitað beztu kjarasamninga við Þýzkaland um sölu á íslenzkum afurðum þangað. En sannleikurinn er, að þessir samningar um sölu til Þýzkalands voru gerðir fyrir atbeina fyrrv. stj. Samningarnir 1933 og framhaldssamningarnir 1934 voru undirbúnir af ráðuneyti Ásgeirs Ásgeirssonar. Þeir samningar voru um almenn vöruskipti, og fengust, eins og ég gat um áður, fyrir atbeina fyrrv. stj. Þar var veitt ótakmarkað leyfi til sölu á afurðum okkar, nema togarafiski, sem sérstakir sölusamningar voru gerðir um 1933. Núv. ríkisstj. hefir ekki gert annað en framlengja þessa samninga, að vísu með nokkrum breyt., sem reynslan hefir leitt í ljós, að væri heppilegra. En þó hafa ekki borizt upplýsingar um. hvort þar hafi ekki böggull fylgt skammrifi. Það má því segja, að sú aðstaða, sem við höfum fengið í Þýskalandi, sé nærri öll að þakka fyrrv. stj. en framkvæmdir á þeim samningum og þeirri aðstöðu, sem hún hafði útvegað í Þýskalandi, hefir verið mjög ábótavant, þar eð ekki hefir verið notaður sá möguleiki, sem til var, til að selja landbúnaðarvörur, ull. og gærur, nema að hálfu leyti til Þýzkalands, þar sem markaður er betri en í öðrum löndum.

Má því segja eins og um afurðasölulögin, að fyrrv. stj. hafi búið góðan hlut í hendur núv. ríkisstj., en framkvæmdirnar hafa orðið svo, að árangur hefir orðið minni en lítill.

Ég veit ekki, hvort núv. ríkisstj. þykist geta látið vera að greiða bændum fyrir það tjón, sem þeir hafa orðið fyrir af aðgerðum hennar. Ég veit ekki, hvort hæstv. ríkisstj. þykist standa betur að vígi til að neita bændum um þessar bætur vegna þess, að hún sendir þeim aðrar nýársgjafir. Hún sendir þeim lækkun á framlagi til ræktunarsjóðs, lækkun á framlagi til verkfærakaupa, lækkun á styrk til búfjárræktar, stórum lækkað framlag til kaupa á erlendum áburði og lækkað framlag til sýsluvegasjóða, lækkaðan styrk til sandgræðslu og Búnaðarfélags Íslands, og svo mætti lengi telja. Þetta eru svörin, sem ríkistj. gefur við þeim beiðnum, sem fram hafa komið fyrir hönd annarar aðalstéttar landsins. Og þau svör eru stj. lík.