25.03.1935
Neðri deild: 37. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í C-deild Alþingistíðinda. (3452)

77. mál, bæjargjöld á Akureyri

Hannes Jónsson:

Það er nokkur skoðanamunur milli mín og hv. 1. landsk. Hann byggir skoðun sína á því, að það sé óréttmætt að afla bæjarfélaginu tekna með slíku gjaldi. Ég vil nú ekki leggja neinn dóm á það. Ég gæti verið tilleiðanlegur til þess að ganga inn á þá braut, ef eins væri ástatt og er með Vestmannaeyjar, að eingöngu væri miðað við innanbæjarmenn, en ekki lagt gjald á utanbæjarmenn eins og gert er með frv. um bæjargjald í Akureyri og Ísafirði.

Ég vil spyrja hv. 2. þm. Skagf, sem ég sá, að greiddi atkv. með frv. um bæjargjöld á Ísafirði, hvað hann myndi segja, ef farið væri fram í hið sama fyrir Sauðárkrók. Ég sé ekki annað en Sauðárkrókur hafi sama rétt til þess að afla tekna á þennan hátt eins og t. d. Ísafjörður. Ég hygg, að ýmsum í Skagafirði, sem sækja þangað nauðsynjar sínar, myndi þykja nærri sér höggið, ef þeir væru þannig látnir borga til Sauðárkrókshrepps. Svona mætti halda áfram að telja upp fleiri hreppsfélög, sem gætu krafizt hins sama réttar.

Það er sá mikli munur með þessi bæjarfélög, sem hér er um að ræða, og Vestmannaeyjar, að þar er gjaldið ekki lagt á aðra en kaupstaðarbúa, og hið sama má segja um Siglufjörð. Þarna ber að greina milli þess tvenns, hvort gjaldið lendir eingöngu á bæjarmönnum, en ef gjaldið er líka lagt á utanbæjarmenn, þá tel ég, að það sé óréttmætt, því þá kemur það fram á öðrum aðila en þeim, sem það er ætlað að koma fram á. Ég er því á móti þeirri stefnu, sem kemur fram í frv. um bæjargjöld á Akureyri og Ísafirði.