25.03.1935
Neðri deild: 37. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í C-deild Alþingistíðinda. (3454)

77. mál, bæjargjöld á Akureyri

Hannes Jónsson:

Það er ekki rétt hjá hv. 2. þm. Skagf., að það sé sama, hvort þetta gjald er lagt á eins og frv. fer fram á, eða að það komi fram í hækkuðu útsvari. Ef gjaldið er lagt á sem hækkað útsvar, þá kemur það ekki eingöngu niður á verzlununum, heldur er því skipt niður á alla gjaldendur í bænum, nema ef svo skyldi vera, að verzlanirnar bæru öll útsvörin, en það mun hvorki vera svo á Akureyri eða annarsstaðar. Þarna er sá stóri munur, og er hann skýrður með því, sem hv. 2. þm. Skagf. sagði, þó að hann hafi flaskað á skýringunni. Munurinn er sá, að útsvörin koma ekki eingöngu niður á verzlununum, heldur dreifast þau á alla og verða því léttbærari á verzlununum en annars.