17.10.1935
Neðri deild: 50. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í C-deild Alþingistíðinda. (3472)

62. mál, hafnarlög Siglufjarðar

Páll Þorbjörnsson:

Eins og hv. síðasti ræðumaður gat um, hefir sjútvn. öll orðið sammála um nokkrar breyt. á frv., og hefir hann lýst þeim. Hinsvegar áskildu nm. sér rétt til þess að bera fram sérstakar brtt. við 10. gr. frv. Ég og hv. þm. Ísaf. berum fram brtt., bar sem við leggjum til, að heimildin til að leggja á sérstakt vörugjald á Siglufirði verði felld niður. Aftur á móti bera hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. Vestm. fram till. um að tiltaka nokkru nánar heldur en gert er í frv. nú, hvernig leggja skuli þetta vörugjald á. Og það, sem sérstaklega einkennir till. þessara manna, sem hingað til hafa talið sig hér málsvara útvegsmanna, er það, að þann skatt, sem hér er um að ræða, vilja þeir leggja þyngst í herðar útvegsmönnunum. Þeir vilja láta leggja 100% vörugjald á síldarmjöl, síldarolíu og fiskmjöl, en 50% í aðrar vörur. Það er eftirtektarvert, að þeir undanskilja t. d. saltsíld undan 100% gjaldinu, en taka aftur á móti síldarmjöl, síldarolíu og fiskmjöl undir þann skala. Nú mun þannig háttað allri framleiðslu þessara vörutegunda á Siglufirði, að það eru útgerðarmenn og sjómenn, sem hljóta að fá á sig allan kostnaðinn af hinu hækkaða vörugjaldi til hafnar- og bæjarsjóðs. Hinsvegar er braskaralýðurinn, sem kemur til Siglufjarðar á hverju ári og kaupir síld ákveðnu verði til söltunar, undanskilinn þessari 100% hækkun.

Nú kom fram í ræðu hv. 6. þm. Reykv., að hann hugði, að það væri sérstök ástæða til þess, að Siglufjarðarbær fengi þessa heimild til álagningar vörugjalds, þar sem segja mætti, að innfluttar vörur til Siglufjarðar dreifðust eigi víðar, af því að bærinn væri engin sölumiðstöð. Þetta er í sjálfu sér rétt. En það ber líka að líta á það, að norður til Siglufjarðar safnast í hverju ári fjöldi fólks hvaðanæfa af landinu. Þessi aukni skattur leggst þá einnig á það. Og ef aðgætt er, hvernig ríkisvaldið hefir einmitt sérstaklega búið að þessum bæ, Siglufirði, þá verður því ekki neitað, að hvergi á landinu hefir verið gert eins mikið til þess að auka atvinnu eins og þar. Það er ekki hægt að benda á einn einasta stað á þessu landi, þar sem hið opinbera hefir lagt eins mikið fé í atvinnufyrirtæki eins og þar. Svo milljónum króna skiptir af ríkisfé er bundið í síldarverksmiðjunum á Siglufirði. Þó er þannig um búið, að aðeins 20 aðkomumenn mega vinna í þeim á móti hartnær 200 Siglfirðingum, og útilokað, að það hlutfall breytist. Jafnframt má líta á það, að Siglfirðingar sjálfir eiga næstum engin fiskiskip. Eitt skip af síldveiðiflotanum í sumar var í eigu bæjarbúa og auk þess mjög nákomið bæjarstj., en það treysti sér ekki til að leggja upp síld í ríkisverksmiðjurnar, sem sótzt var eftir að fá þangað, heldur fór með hana vestur á Djúpuvík. Ef ofan á þetta á að heimila Siglfirðingum að leggja sérstakan skatt á útgerðarmenn, sem koma með atvinnutæki sín þangað norður, þá finnst mér farið að mismuna Siglufjarðarbæ nokkuð mikið fram yfir aðra landshluta.

Það mun láta nærri, að þetta vörugjald, ef samþ. verður í þeirri mynd, sem þeir hafa lagt til, hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. Vestm., verði milli 40 og 50 þús. kr. skattur á ríkisverksmiðjunum á komandi árum. Og það má öllum vera ljóst, sem þekkja til, hvernig starfræksla þeirra er byggð upp, að þessi skattur myndi eingöngu koma fram í lækkuðu verði á síldinni til framleiðendanna.

Ég vil vænta þess, að brtt. okkar hv. þm. Ísaf. verði samþ., því hún á fyllsta rétt í sér; því fyllri rétt, þar sem af ríkisvaldinu er sérstaklega þannig búið í haginn fyrir það bæjarfélag, sem hér á hlut að máli, að það megi sjá sér borgið fjárhagslega.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja um þetta að sinni. Ég býst við, að fleiri hafi eitthvað fram að færa með eða móti, og gefst mér þá e. t. v. tilefni til að taka til máls aftur.