21.12.1935
Sameinað þing: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

1. mál, fjárlög 1936

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég hefi flutt hér skrifl. brtt. og hefir hæstv. forseti fengið afbrigði fyrir henni. Í því sambandi vil ég minnast á, að styrkurinn til Eimskipafélags Íslands hefir enn verið lækkaður um 50 þús. kr., niður í 150 þús. En á síðasta þingi var hann einnig lækkaður um 50 þús. kr., úr 250 þús. kr., og hefir því samtals á tveim þingum verið lækkaður um 100 þús. kr.

Ég mæli ekki gegn því, eins og hagur félagsins er samkv. skýrslum þess, að telja megi líklegt, þó þessi lækkum verði gerð, að hún muni ekki valda rekstrarörðugleikum fyrir félagið á næsta ári. Hinsvegar er þess að gæta, að starfsemi félagsins er mjög þýðingarmikil fyrir landsmenn, og Eimskipafélagið hefir á síðustu árum verið mjög innanhandar ríkisstj. og landsmönnum, hefir hagað ferðum skipa sinna með tilliti til óska landsmanna. Félagið hefir á þessu ári veitt stórkostlega hjálp með því að flytja allslaust fólk heim úr síldarvinnu frá Norðurlandi. Ég beindi tilmælum til félagsins síðsumars um að hjálpa þessu fólki. Félagið tók drengilega þessari málaleitan og flutti ókeypis 800 —900 manns og sá fyrir aðbúnaði og fæði. Ef borgað hefði verið úr ríkissjóði, þá hefði það verið nálægt 20 þús. kr.

Auk þess vil ég benda á, að við væntum þess að félagið reyni og geti fært út kvíarnar á næstu árum. Í því efni er gagnlegt að styrkja félagið, og er því till. frá mér, að ekki verði skorið meira af tillaginu til félagsins, enda nemur sá niðurskurður svo lítilli upphæð. Ég flyt brtt. mína í því trausti, að ef hún verður samþ., þá sjái félagið sér fært að halda uppi ferðum eins og áður. Vona ég, að hv. þdm. fallist á þessa brtt.