21.11.1935
Neðri deild: 79. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í C-deild Alþingistíðinda. (3483)

62. mál, hafnarlög Siglufjarðar

Finnur Jónsson:

Ég á hér ásamt hv. 3. landsk. brtt. við frv. þetta, sem gengur út á það, að fella niður úr frv. heimild til handa bæjarstj. Siglufjarðar til að hækka núv. vörugjald um allt að 100% og láta þá hækkun ganga til nauðsynlegra útgjalda bæjarsjóðs Siglufjarðarkaupstaðar. Það má án efa margt gott segja um Siglufjörð, en því mun vart neitað, að það er dýr staður, og því finnst mér ekki rétt að stuðla að því að gera staðinn dýrari en hann þó er nú. En að því er stefnt með frv. því, sem hér liggur fyrir til umr. Og mér virðist beinlínis, að þeir, sem bera hag bæjarfélagsins fyrir brjósti, gæti ekki hófs í till. sínum. Ég er líka hræddur um, að ýmsir hv. þm. geri sér ekki fyllilega ljóst, hverjum geysiskatti hér er verið að ná í bæjarsjóð. Það má vel vera, að kaupstaður þessi sé í vanda með greiðslur sínar og þurfi því að fá einhvern tekjustofn, en ég tel enga ástæðu til þess að láta hann fá svona mikinn tekjuauka. Árið 1934 nam vörugjaldið í hafnarsjóð Siglufjarðar 85 þús. kr., og nú er lagt til að hækka það um 100%, sem á að renna til bæjarsjóðs Siglufjarðarkaupstaðar. Gjald þetta er að langmestu leyti af síld og síldarafurðum. Er því með hækkun þessari á gjaldinu verið að stóríþyngja síldarútveginum. Ég verð því að segja það, að ég veit ekki dæmi þess, að það hafi verið gert öllu frekari tilraun til þess að reyna að skattleggja þá borgara, sem á Siglufjörð koma og eru ekki skattskyldir þar. Hve miklu þessi skatthækkun getur numið á síldveiðiskip, er hægt að gera sér grein fyrir. Setjum svo, að skip veiði til söltunar 2500 tunnur á ári. Núv. vörugjald er 0,10 af hverri tunnu saltsíldar og 0,20 af hverri tunnu kryddsíldar. Auk þess er 0,05 innflutningsgjald af hverri tómri tunnu til hafnarsjóðs. Þegar svo búið er að hækka þetta gjald um helming, er gjaldið af hverri tunnu saltsíldar t. d. orðið 30 aurar og gjald af hverri kryddsíldartunnu 50 aurar. Samtals yrði gjaldið því af síldarskipi, er saltaði 1500 tunnur af saltsíld og 1000 tunnur af kryddsíld, 950 kr. Auk þess kemur svo gjaldið af afurðum þeim, sem skipið leggur upp í síldarverksmiðjurnar. Segjum að þetta sama skip veiði 4000 mál í bræðslu. Með þeirri hækkun, er frv. þetta gerir ráð fyrir, yrði gjald þessa skips af veiði þessari um 900 kr. yfir sumarið. Gjald þetta er að vísu greitt af síldarverksmiðjunni, en lækkar auðvitað andvirði bræðslusíldarinnar. Auk þessa greiðir mótorbátur 40-50 smál. að stærð til hafnarsjóðs Siglufjarðar 80-100 kr. yfir sumarið í hafnar gjöld. Skattar þeir, er Siglufjarðarkaupstaður þannig fengi leyfi til að leggja á lítinn mótorbát með meðalafla yfir sumarið, yrði með samþykkt þessa frv. þannig 1900-2000 kr.

Ég hafði nú talið líklegt, að þeir þm., sem eru frv. fylgjandi, myndu bera fram einhver góð og gild rök fyrir þessari miklu skattaálagningu á síldarútveginn frá hálfu Siglufjarðarkaupstaðar, en svo hefir ekki verið. Ég fyrir mitt leyti fæ ekki skilið, að nokkur skynsamleg ástæða geti verið fyrir því að leyfa Siglufjarðarkaupstað að leggja þetta gjald á, og þá sérstaklega þegar afkoma sjávarútvegsins er eins og hún er nú. Enda hefir sú orðið raunin á, að gjald þetta hefir sætt miklum mótmælum, og er skemmst að minnast, að útgerðarmannafundurinn, sem haldinn var hér í Reykjavík nú fyrir stuttu, sá sami fundur, sem samþ. mótmæli gegn fisksöluskattinum, samþ. og mótmæli gegn þessum skatti til Siglufjarðarkaupstaðar. Sama gerði og fundur útgerðarmanna, sem haldinn var norðanlands nú fyrir skömmu.

Ég fæ vart annað skilið en meðnm. mínir í sjútvn., þeir hv. þm. Vestm. og hv. 6. þm. Reykv., sem kalla sig talsmenn útgerðarmanna og fiskeigenda, falli frá till. sínum, þegar þeir eru búnir að athuga málið betur, eða a. m. k. bíði með þær þar til útséð verður um, að Siglufjarðarbær fái ekki sanngjarnari og réttlátari tekjustofn en þetta.