22.11.1935
Neðri deild: 80. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í C-deild Alþingistíðinda. (3486)

62. mál, hafnarlög Siglufjarðar

Gísli Guðmundsson:

Ég vil leyfa mér að fara fram á það við hæstv. forseta og þá, sem brtt. eiga við þetta frv., að meðferð þess verði frestað og það tekið af dagskrá, vegna þess, að ég hefi borið fram annað frv., sem var til meðferðar í þessari hv. d. í gær og var þá vísað til sjútvn, en í því frv. felst miðlunartill. í þessu máli. Frv. var vísað til sjútvn., eins og ég sagði áðan, og ég hefi ástæðu til þess að halda, að í n. verði samkomulag um að leysa málið á þeim grundvelli, sem þar er lagt til. Það er æskilegt, að meðferð þessa máls verði frestað, svo að ekki verði greidd atkv. um það við 2. umr. fyrr en hitt málið er komið úr n.

Ég hefi ekki fleira um þetta að segja, en vil leggja áherzlu á þessa ósk til hæstv. forseta og þeirra, sem borið hafa fram brtt. við frv.