22.11.1935
Neðri deild: 80. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í C-deild Alþingistíðinda. (3488)

62. mál, hafnarlög Siglufjarðar

Finnur Jónsson:

Ég skal ekki lengja umr. mikið. Það hefir verið fært fram af hv. 6. þm. Reykv. til gildis fyrir brtt. þeim, sem hann flytur við þetta frv. ásamt hv. þm. Vestm, að á Siglufirði séu eingöngu stundaðar síldveiðar, og meginhluti af þeim atvinnurekstri sé aðkominn og rekinn stuttan tíma, svo að hann sé útsvarsfrír, og þess vegna sé bænum nauðsynlegt að ná tekjum af þessum aðkomumönnum. Ég hefi ekki dregið í efa tekjuþörf kaupstaðarins, þó okkur greini á um aðferðir til tekjuöflunar. En sá siður hefir legið lengi í landi á Siglufirði, að reyna með ýmsu móti að hafa sem mest fé af aðkomumönnum, eða reyna að láta gjöld bæjarins hvíla á þeim. Má í því nefna sem dæmi, að rafmagnsverð á Siglufirði er hærra að sumrinu en að vetrinum, og er það eina rafstöðin á landinu, sem þannig hagar verðlagningu sinni.

Ennfremur má geta þess, að í þessum stað er talsvert mikil þorskveiði, og þó það sé oft ekki arðsamur atvinnurekstur, verður maður að ganga út frá því, að hann beri gjöld til bæjarins að sínum hluta.

Þá er rétt að taka það fram, að ekki hafa neinar útsvarstekjur verið teknar frá Siglufirði við það, að síldarverksmiðjur ríkisins hafa verið reistar þar. Þar hafa ekki verið lagðar niður neinar verksmiðjur vegna byggingar ríkisverksmiðja. Það getur verið, að hægt sé að segja sem svo, að þess vegna hafi einstaklingar e. t. v. ekki ráðizt þar í að reisa verksmiðjur, en þó hefir áður verið á það bent, að einstaklingar hafa falið hentugra að reisa sínar verksmiðjur annarsstaðar. Og þó ríkið hafi byggt sínar síldarverksmiðjur á Siglufirði, þá hafa einstaklingar alls ekki verið útilokaðir frá slíkum rekstri þar, eins og sjá má á því, að 2 einstakir menn reka þar verksmiðjur - þó þær séu að vísu litlar við hlið ríkisverksmiðjanna, Ennfremur má geta þess, að nú liggur fyrir hjá atvmrh. beiðni frá einstökum manni um að mega reisa og reka síldarverksmiðju á Siglufirði. Þá er ekki hægt að ganga framhjá því, að við verksmiðjur þessar vinna 150 manns, og er þar með stórlega aukin atvinna íbúa bæjarins og möguleikar þeirra til að greiða gjöld í bæjarsjóð Siglufjarðar.

Hv. 6. þm. Reykv. var að bera saman vörugjöldin á Siglufirði og í Rvík og vildi með því sanna, að engin ástæða væri til, að Siglufjörður tæki ekki hærri vörugjöld en nú. Þetta eru alls ekki sambærilegar hafnir. Siglufjarðarhöfn er gerð af náttúrunnar hendi, og þó eru tekin stórgjöld af skipum og vörum í hafnarsjóð, eða á 2. hundr. þús. kr. árlega, en engar stórfelldar umbætur hafa verið gerðar á höfninni. Að vísu hefir verið byggð ein bryggja, en síðan ekki söguna meir, nema hvað nú er verið að byggja þar sjóvarnargarð; að vísu talsvert dýran, en með miklum styrk úr ríkissjóði. Það er því alls ekki sambærilegt um höfnina á Siglufirði ef í Rvík eða Vestmannaeyjum, svo ég nefni aðra dýra höfn hvað tilkostnað snertir; þess vegna er alveg rangt að bera saman hafnar- og vörugjöld á þessum höfnum. Rétti samanburðurinn er við aðrar hafnir á Norðurlandi, sem gerðar eru af náttúrunnar hendi eins og Siglufjarðarhöfn, og lítið hefir þurft að kosta til, og á ég þar sérstaklega við Akureyrarhöfn. Ef þar er gerður samanburður, kemur í ljós, að hafnar- og vörugjöld á Siglufirði eru talsvert hærri en á Akureyri.

Nú hefir hv. 6. þm. Reykv. alveg gengið framhjá þeim rökum, sem komið hafa fram, og tölum, sem ég hefi nefnt hér, er sýna, að vörugjaldatekjur Siglufjarðarhafnar nema nú árlega talsvert hærri upphæð en þarf til að standa straum af öllum útgjöldum hafnarsjóðs. Ennfremur hefir hann gengið framhjá því atriði, er ég hefi nefnt, hver skattur er lagður á báta þá, sem þangað sækja. Býst ég við, úr því hann hefir ekki reynt að mótmæla þessu, að hann viðurkenni þennan skatt, sem bátarnir gjalda til Siglufjarðarhafnar, en skattur þessi nemur af hverjum bát, reiknað með meðalverði, 2000 kr. á ári, 1000 kr. til hafnarsjóðs og 1000 kr. til bæjarsjóðs. Með brtt. hv. 6. þm. Reykv. yrði skattur þessi nokkru lægri, eða um 1600 kr. á bát. Það er því svo, eins og bent hefir verið á af hv. 3. landsk., að síldarútvegsmenn greiða til Siglufjarðarbæjar og hafnar mun hærra gjald en þeir greiða nú í tolla til ríkissjóðs.

Ég skora á hv. þd. að taka rök þessi og öll gögn til rækilegrar íhugunar og athugunar, og vona ég, að þau séu svo sterk, að hvorki brtt. hv. þm. Vestm. og hv. 6. þm. Reykv. nái fram að ganga né heldur frv. óbreytt, heldur verði samþ. brtt. þær við frv., sem fluttar eru af okkur hv. 3. landsk. þm.