22.11.1935
Neðri deild: 80. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (3493)

62. mál, hafnarlög Siglufjarðar

Finnur Jónsson:

Aðeins örfá orð út af aths. hv. þm. G.-K. - Það er alveg rétt, að á síðasta þingi greiddi ég og mínir flokksmenn atkv. móti því, að breytt yrði greiðslu útflutningsgjalds af síldarmjöli, og vitanlega var ákaflega leiðinlegt að þurfa þess, en ástæðuna vita allir, og hún er hin mikla fjárþörf ríkisins, og það er nú einu sinni svo, að það er allt tollað og skattað hér á landi, líka það, sem ekki borgar sig. Það er skattaður stór atvinnurekstur, sem ekki borgar sig. Það er skattað fæði og klæði verkamannsins, sem varla hefir í sig og á, og meðan svo er ástatt, þá geta verið ýms gjöld, sem æskilegt þætti að létta af, en þykir þó ekki fært. En ekki bætir það um hið háa útflutningsgjald, sem er á síldarmjöli, ef ofan á það á svo að leyfa Siglfirðingum að taka hærra gjald í bæjarsjóð.

Það má náttúrlega mörgum getum að því leiða, hvernig á því stendur, að það á að létta útflutningsgjaldinu af síldarmjöli, en lofa svo Siglufjarðarbæ að taka jafnhátt gjald og hér er farið fram á í þessu frv. og brtt. beggja hv. þm.

Nú skal ég ekki um það segja, hvað veldur því, að slíkt ósamræmi er í framferði ýmsra sjálfstæðismanna í þessari hv. d., að þeir flytja í fyrra till. um að létta útflutningsgjaldi af síldarmjöli og síldarlýsi, en nú vilja þeir leyfa Siglufjarðarbæ að leggja slíkt gjald á síldarútveginn sem farið er fram á í frv. Verður að teljast ósamræmi í því að lofa nú Siglufjarðarbæ að leggja ofan á gjöldin, sem fyrir eru, skatt, sem í raun og veru er stærri en útflutningsgjaldið, þegar tekið er með útflutningsgjald, sem þeir eiga að fá að taka af síld. Nú kynni að vera, að það lægju hér einhver eiginhagsmunamál á bak við, eins og svo oft reynist að vera á bak við till. sjálfstæðismanna, og það þá helzt þær, að h/f Kveldúlfur á enga síldar. verksmiðju á Siglufirði.

Viðvíkjandi því að aflétt var á síðasta þingi útflutningsgjaldi af landbúnaðarafurðum, þá er því til að svara, að það útflutningsgjald, sem aflétt var, nam 50-60 þús. kr., en á sama tíma var breytt útflutningsgjaldi af síld, þannig að í venjulegu ári er það útflutningsgjald, sem létt var af síldinni, hér um bil helmingi meira heldur en það, sem létt var af landbúnaðarafurðunum.

Nú vill svo til, að síldarverð hefir verið óvenjulega hátt í ár, svo útflutningsgjald síldar verður minnst að munum frá því, sem áður var, en í venjulegu ári myndu þessar umbætur, sem gerðar voru fyrir sjávarútveginn, hafa kostað ríkissjóð allt að helmingi meira heldur en þær umbætur, sem gerðar voru fyrir landbúnaðinn. - Ég skal svo ekki fara frekar út í þetta.

Þetta var út af aths. hv. þm. G.-K. En þegar minnzt er á fortíð í skattamálum, má geta þess, að það voru alls ekki Alþýðuflokksmenn, sem höfðu meirihlutaaðstöðu á þingi til þess að létta útgjöldum af sjávarafurðunum, heldur var það Sjálfstfl. og þeir, sem áður voru í meiri hl., sem þessu hafa ráðið, og Sjálfstfl. notaði aldrei sína meirihlutaaðstöðu til þess að aflétta þessu gjaldi.

Ég skal ekki blanda mér í deilu hv. 3. landsk. og hv. 6. þm. Reykv. né heldur taka neitt undir það, þótt hv. þm. G.-K. sé að fara bónarveg að hv. 6. þm. Reykv. um það að vera ekki að vitna í Nýja dagblaðið hér í þessari hv. d., og ástæðan fyrir því, að ég tek ekki undir það, er sú, að ég veit, að hv. þm. G.-K. væri að ýmsu leyti mér að athuga í góðu tómi það nána samband, sem er á milli hv. 6. þm. Reykv. og þess manns, sem hv. þm. G.-K. mest á í útistöðum við af þeim, sem skrifa í Nýja dagblaðið.