22.11.1935
Neðri deild: 80. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í C-deild Alþingistíðinda. (3495)

62. mál, hafnarlög Siglufjarðar

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Hér hefir verið mikið með reikninga og útreikninga á þessu. Ég býst nú við því, að ef hv. 3. landsk. hefir lagt málið niður þannig að reikna líka innflutningsgjald á Siglufirði, þegar hann talaði um, að það legðust 1000 kr. á bát, þá mun hann verða að kannast við, að þegar þetta er borið saman við venjulegt útflutningsgjald, þá sé þar af reiknað innflutningsgjald af nauðsynjum sjávarútvegsins, og þá mun þetta, sem hann sagði að yrði mjög þungur baggi - þetta vörugjald handa Siglfirðingum -, verða lægra en hann vildi vera láta. Annars kannast ég ósköp vel við reikninga þessa hv. þm. Hann hefir lagt sig mjög í líma til þess að reikna út tekjustofna Vestmannaeyja og hefir langa æfingu í að gera úlfalda úr mýflugu í þessum efnum. Að öðru leyti skal ég ekki blanda mér í reikninga hv. 6. þm. Reykv. og hans. Ég býst við, að hv. 6. þm. Reykv. telji sig ekki þurfa á minni aðstoð að halda í því efni.

Hv. 3. landsk. þm. valdi þetta mál til þess að gera það að árásarefni í okkur hv. 6. þm. Reykv. og fór af stað í blöðin með skrif um það, eins og vitað er; og það, sem fyrir honum vakir í þessu efni, er vitaskuld ekki réttlæti, heldur hitt, að reyna að koma höggi á pólitíska andstæðinga sína. Það, sem um er að ræða hér, er, eins og menn hafa tekið eftir, að Siglfirðingar hafa farið þess á leit að fá nokkra hækkun á þessum vörugjöldum sínum. Ég vil nú segja hv. þm. Ísaf. það, þar sem hann hefir verið með aðdróttanir í garð okkar hv. 6. þm. Reykv., að fyrir okkur hefði vakað alveg sérstakt með því að fara fram á, að Siglfirðingar fengju nokkurn tekjustofn. Hann var með aðdróttanir í okkar garð, að einhverjar sérstakar hvatir myndu vaka fyrir okkur, aðrar en þær, sem væru á yfirborðinu, og ég held, að ég hafi heyrt rétt, að þessi hv. þm. sagði: „Það skyldi ekki hafa verið vegna þess, að Kveldúlfur á þarna enga síldarverksmiðju“. Þetta tal er svo hlægilegt, að það er naumast hægt að gera honum það til geðs að anza því. Hvað mundi Kveldúlfur græða á því. Þótt Siglfirðingar fengju að skatta eitthvað lítið síldarafurðir á Siglufirði? Ég þykist sjá svarið í huga hv. þm.: „Hann hefir þá betri samkeppnisaðstöðu.“ En svo ég noti hans eigin orð og í réttari hátt en hann gerði, - það er nú bitamunur, en ekki burða.

Það, sem fyrir okkur hv. 6. þm. Reykv. vakti, hvað svo sem yfir okkur verður hellt af fáryrðum og óhróðri, var ekki annað en það, að við vildum greiða úr fjárhagsvandræðum Siglufjarðarkaupstaðar, með því að heimila honum hækkun á þessu sárlitla útflutningsgjaldi, sem þar er. Ég skal viðurkenna, að ég er vanur svo háum vörugjöldum á öllum vörum, að það getur verið, að afstaða mín til þessa máls hafi nokkuð markazt af því, að ég er vanur að búa við svo harðan kost í þessu efni. Vestmannaeyjahöfn er erfið og þarf miklar tekjur, og við höfum orðið að taka á okkur mikil gjöld til þess að höfnin stæðist endurbætur og viðhald. Svo þegar minnzt er á það af þessum hv. þm., sem hampa mjög þessum álögum og hve þær verði þungar eftir þessu frv. og brtt, okkar hv. 6. þm. Reykv., þá eru þeir ekki svo innrættir, að þeir vilji gera réttlætiskröfur gagnvart atvinnuvegunum yfir höfuð að tala og láta standa útflutningsgjald á landbúnaðarafurðum meðan því er ekki létt af sjávarafurðum. En mér skilst á hv. þm. Ísaf., að þess þurfi ekki, því það hafi verið lækkað útflutningsgjald af síld. Það er eins og einhver friðþæging hafi verið gerð með því að lækka útflutningsgjald af síld, einhver friðþæging að mér skilst gagnvart sjávarútveginum fyrir það, að fellt var niður gjald af útfluttum landbúnaðarafurðum. Ég er ekki að lasta það, að lækkað var útflutningsgjald af síld. Það var meira en tími til þess kominn, enda höfðu sjálfstæðismenn gert till. um, að það væri gert, en það fékkst þó ekki tóm til þess hjá framsóknarmönnum að hlýða á tillögur sjálfstæðismanna, en þeir áttu tóm til þess þegar þeirra pólitíska líf var undir aðstoð jafnaðarmanna komið. Þá var hægt að lækka þetta gjald og kasta þessum tekjum frá ríkissjóði, þótt það annars mætti ekki heyrast nefnt.

Þetta er í augum hv. þm. Ísaf. nægileg friðþæging. Hann man ekki eftir öðru en síld. Hann eygir fyrst síld og síðast síld. En ég verð að minna þennan hv. þm. á, að það eru til fleiri sjávarafurðir en síld, og vilji hann vera sjálfum sér samkvæmur og láta aðgerðir þingsins koma öllum jafnt til góða, þá væri nær að fá almennt aflétt eða lækkuð útflutningsgjöld heldur en gera sig ánægðan með, ef einhver einstök grein er tekin út úr. Ef ég hugsaði eins og hv. þm. Ísaf., myndi ég segja, að það væri af því, að hann væri svo mikið riðinn við síld, og því sé honum nóg, ef síldin er tekin út úr. Það væri í sama tón eins og hann svaraði okkur um síldarmjölið og Kveldúlf. En ég segi þetta ekki. Þetta er af því, að hann er svo takmarkaður. Þess vegna kemur hann ekki auga á annað en síld, og þess vegna er það alltaf höfuðsynd í hans augum, ef lagt er gjald á síld eða eitthvað gert, sem kemur við síldarútflutning. Og það, sem þarna er ástæðan, er það, að með þessu á Siglufjarðarkaupstaður að fá einhverjar tekjur af síldarútflutningi. En hversu mörg þúsund þeirra manna á landinu, sem sjó stunda, hafa þess engin not og ekki heldur neitt ógagn, hvort síldarútflutningsgjald er hækkað eða lækkað, en þessir menn hafa allir, og þeir meðtaldir, sem síldveiðar stunda, gagn af því, að lækkað sé almennt útflutningsgjald af sjávarafurðum, og ógagn af, að því sé haldið við.

Þá var hv. þm. að tala um ósamræmi í skoðunum okkar. Taldi hann það ósamræmi, að við á þennan hátt viljum gefa Siglufjarðarkaupstað leið til nokkurrar tekjuöflunar, en viljum á sama tíma aflétta almennum útflutningsgjöldum af sjávarafurðum. Ég hefi sýnt fram á, að það snertir alla, en Siglufjarðarmálið er alveg staðbundið og snertir aðeins þá menn, sem þar stunda atvinnu á þessum tíma árs.

Rétt aðeins til þess að sýna hv. þm., að það eru fleiri dæmi til þess, að tillögur geti litið dálítið undarlega út, miðað við það, frá hvaða flm. þær koma, skal ég minna á þær umr., sem fram fóru um ýms vörugjöld í kaupstöðum, þar sem hver sósíalistinn á fætur öðrum reis upp og barði sér á brjót og sagði, að þetta mætti alls ekki ske. Hér ætti að koma gjaldi á neyzluvörur almennings o. s. frv., og ég veit ekki, hver ósköp eru búin að dynja yfir mig af því að ég var með því, vegna þeirra vandræða, sem nú eru, að ná tekjum á þennan hátt. Nú sé ég ekki betur en að einn af flokksbræðrum hv. þm. Ísaf. sé farinn að fallast á, að þetta sé vel hugsanleg leið, og mér virðist að brtt. hans við frv. um vörugjald í Sauðárkróki gangi eiginlega lengra en við, sem viljum fá þetta vörugjald á okkur sjálfa. Hann gengur þar lengra en við, sem höfum lengi orðið að standa undir mannskemmandi rógi þessara manna fyrir að við höfum í neyð okkar orðið að hverfa að því að leggja þetta gjald á. Hv. þm. Ísaf. þarf því alls ekki að fara út fyrir sínar eigin herbúðir til að finna ósamræmi í þessu efni.

Ég get líka bent á það, að þrátt fyrir það, að hann og aðrir jafnaðarmenn fordæmi tolla í nauðsynjavörum, og þrátt fyrir það, að það sé þeirra yfirlýst stefna, að eingöngu eigi að leggja á beina skatta, sem auðvitað er ómögulegt, þá hafa þeir í mörg ár ekki einu sinni viðhaldið verðtolli og vörutolli, sem renna í ríkissjóð, heldur hafa þeir einnig hækkað þá.

Ég ætla þá, að ég þurfi ekki að benda hv. þm. á frekari dæmi þess, að honum farist ekki að tala um ósamræmi hjá öðrum þm. eða öðrum flokkum um þessi mál.

Ég vil svo að lokum aðeins undirstrika það, að hvort sem þessum hv. þm. telst svo til, að þetta sé hitt eða lágt gjald, sem talað hefir verið um gagnvart Siglufirði, þá er það víst, og ég býst ekki við, að nokkur, nema þá þessi hv. þm., beri brigður á það, og fylgihnöttur hans náttúrlega, að tilgangur okkar hv. 6. þm. Reykv. með því að mæla með þessu frv. er ekki sá, að hlaða undir Kveldúlf, samvinnufélag Ísafjarðar eða neina slíka einstaklinga, heldur vegna þeirra óska, sem bornar hafa verið fram af bæjarstjórn Siglufjarðar, að það opinbera veiti bráðabirgðahjálp til þess að bæjarsjóður Siglufjarðar geti fengið meiri tekjur en hann hefir hingað til haft.

Ég vona svo, þegar það kemur hér til umr. að létta af útflutningsgjaldi af sjávarafurðum, þá verði þessir hv. þm. ekki síður skeleggir en nú að reikna það út, hvað hver bátur þarf að greiða í ríkissjóð, og bezt að gleyma þá ekki því, sem nú er lagt til grundvallar, og taka það þá með, þær vörur, sem bátaútvegurinn þarf með og nú er tekið gjald af.