22.11.1935
Neðri deild: 80. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í C-deild Alþingistíðinda. (3499)

62. mál, hafnarlög Siglufjarðar

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Ég kvaddi mér aðallega hljóðs til þess að beina nokkrum orðum til hv. þm. N.-Þ. Hann taldi afnám útflutningsgjalds af landbúnaðarafurðum ekkert koma þessu máli við. Hann hefir nú hlustað á þessar umr. og veit, að það hefir verið minnzt á það mál í sambandi við þær brýningar, sem við höfum orðið fyrir af hálfu þeirra manna í sjútvn., sem hafa ekki viljað fallast á að afnema það almenna útflutningsgjald af sjávarafurðum. Og ég vil ennfremur segja hv. þm. það, að það er ekkert undarlegt, þótt minnzt sé á afnám útflutningsgjalds af landbúnaðarafurðum, því að með því afnámi var stigið fyrsta sporið í áttina til afnáms á útflutningsgjaldi af sjávarafurðum.

Við sjálfstæðismenn lögðumst ekki á móti því, að útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum væri afnumið, heldur greiddum við flestir eða allir atkv. með því, en tókum það fram um leið, að það væri ekki hægt að mismuna þannig aðalatvinnuvegum landsmanna, og því yrði að gera það sama gangvart sjávarútveginum áður en langt um liði.

Sú ástæða, sem hv. þm. N.-Þ. bar fram, að útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum hefði verið fellt niður af þeirri ástæðu, að gjaldið hefði komið svo misjafnt niður á bændur, er ekki frambærileg, því að það hefir sýnt sig, að löggjöfin hefir haft leiðir, sem taldar eru vel færar, til þess að jafna verðið milli bænda með svokölluðu verðjöfnunargjaldi, sem allir kannast við og hefir verið samþ. bæði í kjötsölu- og mjólkursölulögunum. Var því opin leið að koma þar á réttlæti milli ýmissa aðilja úti um sveitir landsins.

Hv. þm. Ísaf. þarf ég engu að svara. Vera kann, að hann sé spámaður fyrir önnur kjördæmi og aðra landshluta, þó að hann hafi ekki enn reynzt það í framkvæmdinni fyrir föðurlandið og sitt eigið kjördæmi.