30.11.1935
Neðri deild: 87. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í C-deild Alþingistíðinda. (3507)

62. mál, hafnarlög Siglufjarðar

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Ég ætla að fá leyfi til þess að bera fram nýja brtt. við brtt. á þskj. 596, sem er að efni til að vissu leyti eins að því er snertir að heimilt sé að leggja á ákveðna hækkun á núv. vörugjald, en þó ekki meira en 50%, en þó þannig, að bæjarstj. sé heimilt að undanskilja vörur frá þessari hækkun, og síðan er viðbót, sem er á þá leið, að ef samþ. verði l. um nýja tekjustofna fyrir bæjar- og sveitarfélög, skuli þessi heimild um hækkun falla niður við gildistöku þeirra. En Siglufjörður er þannig staddur, eins og fleiri, að hann verður að fá nýja tekjustofna þegar í byrjun næsta árs, og er þess vegna farið fram á þetta bráðabirgðákvæði um að hækka megi vörugjaldið eins og segir í frv. Ég bar hér fram till., þar sem tekið er fram, að þetta ákvæði um hækkun vörugjaldsins gildi aðeins fyrir árið 1936. En við það, að ég ber fram þessa skrifl. brtt, tek ég hina till. aftur. Það er eðlilegra, að þetta ákvæði sé aðeins í gildi þar til ný l. um sama efni ganga í gildi. Það er ekki útlit fyrir, að nein ný tímamót séu framundan í þessu efni; auk þess sem það er nauðsyn fyrir Siglfirðinga að fá þessa hækkun, þá er það fullkomin sanngirniskrafa, sem liggur til þess, að þetta frv. með þessum breyt. fáist afgr. í Nd., þegar þess er gætt, að það er þegar fyrir nokkrum dögum búið að samþ. svipað ákvæði um Sauðárkrók og sömuleiðis búið að afgr. sem l. ákvæði um Vestmannaeyjakaupstað, sem heimila að innheimta slíka hækkun. Þetta eru aðeins bráðabirgðaákvæði, sem ekki er ætlazt til, að gildi lengur en þar til l. verða sett almennt um tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga, og því ekki hættulegt að lögfesta það, sem hér er farið fram á. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp þessa skrifl. brtt, sem er á þessa leið:

„Meginmál till. orðist svo:

Bæjarstjórn Siglufjarðar skal heimilt að ákveða hækkun á núverandi vörugjaldi um allt að 100% af síldarmjöli, síldarolíu og fiskimjöli og um 50% af öðrum vörum. Þó er bæjarstjórn heimilt að undanskilja sérstakar vörur frá hækkuninni. Gengur hækkun þessi til nauðsynlegra útgjalda bæjarsjóðs. Verði samþ. lög um nýja tekjustofna kaupstaða og sveita, skal þessi heimild falla niður við gildistöku þeirra laga:

Ég vil taka fram til viðbótar, að mér skilst, að þá till., sem hv. 2. þm. N.-M. hefir flutt, mætti taka aftur, vegna þess, að í þessari minni till. felst almenn heimild fyrir bæjarstj. Siglufjarðar til þess að fella niður þetta vörugjald. Það leiðir af sjálfu sér, enda kemur fram í hinni upphaflegu frvgr., að ekki er ætlazt til, að þetta gjald verði sett á neyzluvörur, svo að um þetta erum við sammála, hv. flm. og ég, en það er eðlilegra að hafa hina almennu heimild í þessari till. heldur en að hún sé bundin við ákveðna vörutegund eins og í till. hv. þm.