21.12.1935
Sameinað þing: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

1. mál, fjárlög 1936

Guðrún Lárusdóttir:

Ég get orðið við þeim tilmælum hæstv. forseta, að vera ekki margorð um till. mínar, enda eru þær hvorki margar né stórvægilegar. Ég hefi leyft mér að bera fram 2 brtt. á þskj. 890.

Á þessum erfiðu tímum, þegar allt verður að draga saman og ríkissjóður verður að reyna að draga úr útgjöldum sem mest, þá finnst mér ekki úr vegi, að risnufé ráðh., sem er áætlað 6000 kr., sé lækkað lítið eitt. Það sýnist vera alveg óþarft að hafa það þetta hátt á svona erf­iðum tímum, og ætti hæstv. ríkisstj. ekki að vera það óljúft, þegar klípa verður af svo mörgu, sem teljast má nauðsynlegt. Ég legg því til, að risnufé ráðh. sé lækkað niður í 5500 kr.

Og það, sem ég vil láta gera við þessar 500 kr., sést á sama þskj. undir rómv. 36., en þar legg ég til, að Guðrúnu Björnsdóttur séu veittar 1000 kr. í staðinn fyrir 500 kr. Guðrún Björns­dóttir er prestsekkja. Hún missti mann sinn fyrir mörgum árum. Hann var aðstoðarprest­ur, og vegna þess fékk hún lengi vel ekkert úr lífeyrissjóði presta. En svo leiðrétti Alþ. þetta, og nú um nokkur ár hefir hún haft nokkra upphæð á hverju ári. En vegna þess, hvað hún varð að vinna mikið til þess að sjá fyrir sér og börnum sínum á meðan hún varð einskis styrks aðnjótandi, þá er hún nú orðin útslitin og heilsulítil, og getur því ekki unnið eins og áður. Það væri því mjög vel viðeigandi, að Alþ. bætti nú fyrir þau rangindi, sem hún varð fyrir í því að fá lengi vel ekkert úr lífeyrissjóði presta, og veitti henni nú þessa uppbót, sem ég legg til, að henni sé veitt.

Ég vænti þess, að hv. alþm. sýni till. mínum þá vinsemd, að þeir samþ. þær, enda er það mjög sanngjarnt, sem þar er farið fram á.