27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í C-deild Alþingistíðinda. (3548)

55. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Jón Pálmason:

Á síðasta Alþingi bar ég og hv. þm. Ak. fram till. til breyt. á mjólkurl. á þá leið: í fyrsta lagi, að bráðabirgðaákvæðin væru felld niður, að mjólkursölun. hefði engin ráð yfir samsölunni, í öðru lagi, að verðjöfnunargjaldið væri lægra, og í þriðja lagi, að mjólkursölun. og verðlagsnefnd væru sameinaðar í eina n. Allar þessar till. voru drepnar með shlj. atkv. stjórnarflokkanna beggja, og af þeim sökum hygg ég, að mjög hafi sprottið þær óeirðir og sterka óánægja, sem orðið hefir út af framkvæmd þessa máls síðan þingi sleit.

Nú þegar þetta mál kemur hér fram í annað sinn á þessum vetri, þá skeður það, sem náttúrlega má vera okkur til gleði, sem bárum þessar till. fram, að hv. form. landbn. gengur inn á að samþ. till., sem fara nákvæmlega í sömu átt og okkar till. Ég skal taka það fram, að 4. maðurinn í n., hv. 2. þm. N.-M., gekk einnig inn á þessar till., þó að hann vilji ekki kannast við þær nú. Því töldum við líklegt, að þessar till. okkar yrðu samþ. og yrði þar með fenginn friður um þetta deilumál. En nú hefir það skeð, sem mér þykir í sjálfu sé mjög undarlegt, að einn maður úr landbn., hv. 2. þm. N.-M., hefir borið fram rökst. dagskrá, sem eyðir frv. og þeim till., sem hann var sjálfur búinn að ganga inn á, þó að hann vilji ekki viðurkenna þið nú. Verði sú dagskrá samþ., þá situr allt við þið sama. Ég þykist sjá, af hvaða orsökum þessi hringsnúningur hv. þm. muni vera sprottinn. Hann er sprottinn af því, að það hefir sýnt sig, að stjórnarflokkarnir báðir eru því mótfallnir, að nokkur breyt. eða lagfæring sé á þessu máli gert. Það hefir jafnvel gengið svo langt, að hæstv. forsrh. hefir lýst því yfir, að hann gerði það að fráfararatriði, ef l. yrði breytt.

Ég skal svo víkja með örfáum orðum að þeim atriðum, sem komu fram í ræðu hæstv. forsrh., einkum þeirri, sem hann flutti hér í gær til að mótmæla þeim till., sem meiri hl. landbn. hefir nú borið fram. Hæstv. ráðh. fór þeim orðum um þetta frv., að með því væri stefnt að því að eyðileggja framkvæmd þessara l. að mjög miklu leyti. Í því sambandi komst hann að þeirri niðurstöðu, að brtt., sem meiri hl. landbn. hefir borið fram, væru að því leyti skárri, að þær færu fram á, að ýmis viðkvæm deilumál væru eftir sem áður lögð undir mjólkursölun. Eins og hv. frsm. landbn. hefir nú tekið fram, þá er mjólkursölun. ætlað eftir sem áður að hafa með höndum ákvörðun verðjöfnunargjaldsins og úthlutun þess, og það hlýtur alltaf að vera deiluatriði milli einstakra hagsmunasvæða, sem hér eiga hlut að máli.

Aðalatriðið í till. okkar er það, að stjórn á framkvæmdum samsölunnar verði fengin í hendur framleiðendunum sjálfum, sem hér eiga hagsmuna að gæta. Það eru fyrst og fremst þeirra hagsmunir, að sem allra mest seljist af þessarivöru og líka, að verðið sé svipat og verið hefir. Nú heldur hæstv. ráðh. því fram, að það sé engin trygging, sem hér er farið fram á, frá því, sem hægt sé að ná án lagabreyt. og í því sambandi lofaði hann því, að samsalan yrði fengin í hendur framleiðendunum 1. maí, ef þeir gætu allir komið sér saman.

Ég skal þá ofurlítið víkja að því, hversu mikils virði þetta loforð hæstv. ráðh. er. Ég sé ekki, að það sé sérstaklega mikils virði, þegar tillit er tekið til þess, að í bráðabirgðaákvæðum mjólkurl. er það beint skilyrði, að allir aðiljar, sem hlut eiga að máli, komi sér saman um framkvæmd þessa máls, ef þeir eiga að fá yfirráð yfir samsölunni. Ennfremur er það skilyrði, að ráðh. sé einnig samþykkur. Við skulum nú gera ráð fyrir, að hæstv. ráðh. standi við þetta loforð sitt; ég skal ekki efast um það, að hann láti samsöluna af hendi, ef allir koma sér saman, en ég sé ekki, að mikil líkindi séu til samkomulags, þegar vitað er um eitt búið, Mjólkurbú Flóamanna, sem óskar eftir sama skipulagi og verið hefir, eftir þeim fregnum, sem fengizt hafa af fundi framleiðenda, sem haldinn var nýlega hér í bæ. Þar munu hafa verið 3 fulltrúar móti 16, sem vildu hafa sama fyrirkomulag og nú er. Með þessu móti getur minni hl., og það örlítill minni hl., ráðið því, að samsalan verði áfram í höndum mjólkursölunefndar.

Hæstv. ráðh. var að tala um það, að við vildum koma málinu í það horf, að það væri meiri hluti þeirra, sem framleiddu mjólk, sem réði, í stað þess að óviðkomandi óhlutdrægir menn réðu. Ég kastaði því þá til hans, hvort það væri ekki meiri hl. n., sem réði nú, og vissulega er það svo, því að það er vitað, að mjólkursölun. hefir ekki verið sammála um mörg þau atriði, sem mest hefir verið deilt um. Nú virðist það vera miklu eðlilegra, að það sé meiri hluti framleiðendanna, sem ræður, og því sé þessi stjórn tekin úr höndum mjólkursölun. og fengin þeim í hendur, og það sem allra fyrst. Og ég fyrir mitt leyti efast ekki neitt um það, að það er grundvallarskilyrði fyrir því, að sættir og friður komist á í sambandi við þetta þýðingarmikla hagsmunamál, að fulltrúar framleiðendanna sjálfir fái, án íhlutunar ríkisvaldsins, að ráða, hvernig þessu öllu er hagað, því að það er gefinn hlutur, og það hljóta þessir menn að sjá, og þeir sjá það nú þegar, að það eru þeirra hagsmunir, sem fyrst og fremst af öllu eru í veði, þegar búið er að koma þessu máli út á þessa slæmu braut, sem það nú er á, þegar búið er að egna neytendurna upp á móti framleiðendunum með vitlausum ráðstöfunum, þar sem þeir fá engu því framgengt, sem þeir fara fram á.

Það er í þessu sambandi vert að geta þess, að það er auðsætt mál, að þeir, sem vilja hafa þetta áfram í sama horfi og nú, þeir hafa á móti sér bæði neytendurna í Reykjavík og framleiðendurna úti um land, að undanteknu því eina búi, sem vill hafa fyrirkomulagið á svipaðan veg og nú.

Viðvíkjandi því, sem hér hefir verið minnzt á, að breyta l. í fleiri atriðum en við, sem erum í meiri hl. landbn., höfum farið fram á, já er það að segja, að þær till., sem hv. þm. Reykv. bera fram, eru á þann veg, að ég get ekki léð þeim atkv., því að ég tel þær ganga of langt í því að draga fram hlut þeirra, sem búa á bæjarlandinu, á kostnað þeirra, sem utan bæjarlandsins búa.

Eins og menn muna, þá var talsvert um það deilt á síðasta þingi, hvernig verðjöfnunargjaldið ætti að vera. Vildu sumir, og þar á meðal ég, hafa hámarkið 6%, en það var ákveðið 8%. Ég sá ekki til neins að fara fram á að breyta því í það horf, sem mikill meiri hl. var mótfallinn á síðasta þingi, jafnvel þó ég telji, að réttmætt sé. Snertandi það, að það sé sanngjarnt, að þeir framleiðendur innan bæjarlandsins, sem verzla beint, sleppi alveg við verðjöfnunargjaldið, þá efa ég, að það sé rétt, og það er af því, að með því að koma skipulagi á þessi mál, þá er gengið út frá þeirri grundvallarhugsun, að þeir, sem næst eru, kaupi af sér með verðjöfnunargjaldinu af mikið framboð á vörunni frá þeim, sem fjær búa. Hitt er mikið athugamál, hversu hátt þetta gjald megi vera og hvað sé reiknað kýrnyt í þessu sambandi. Ég tel það því verulegt spor í samkomulagsáttina, sem felst í till. meiri hl. landbn., að áætlunin um kýrnyt sé lækkuð um 500 l., en náttúrlega er sá mismunur minnstur hjá þeim, sem fáar, eiga kýrnar, og kemur þeim því að hlutfallslega minni notum en þeim, sem fleiri kýr eiga. Þó gildir þetta 15 kr. pr. kú. Að öðru leyti skal ég ekki fara nánar inn á þessar till., en það vil ég taka fram, að ég held, að það væri stefnt til hins betra og leiða til friðar, ef brtt. okkar væru samþ. hér. Annars þykir mér undarleg sú þrjózka, sem kemur fram hjá hæstv. forsrh, að gera það að þessu mikla kappsmáli að halda þessum illa séðu mjólkurlögum óbreyttum og vilja halda uppi þeim ófriði, sem óneitanlega leiðir af því.

Að síðustu vil ég beina þeirri ósk minni til hv. dm., að þeir samþ. brtt. okkar, enda þótt hæstv. forsrh. tali digurbarkalega og hóti því, að allt, sem samþ. kann að verða í þessari hv. d. snertandi þetta mál, verði drepið í efri deild.