27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (3550)

55. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég hefði næstum því getað fallið frá orðinu nú, af því það er svo fátt, sem ég þarf að svara úr ræðum hv. þm. Samt sem áður þykir mér viðkunnanlegra að svara nokkuð þeim fyrirspurnum, sem fram komu frá hv. 3. þm. Reykv. Það var þá sérstaklega fyrst það atriði, hvort leyfilegt væri samkvæmt ákvæðum núgildandi laga um meðferð og sölu mjólkur o. fl. að selja kaldhreinsaða mjólk frá samsölunni hér í Reykjavík. Um þetta atriði hefi ég áður upplýst það, að ég teldi, að svo væri, en ég get gjarnan endurtekið þá yfirlýsingu, úr því eftir þessu er spurt.

Í umr. í dag upplýsti ég það, að ástæðan til þess, að seld hefir verið svokölluð barnamjólk á þann hátt að krefjast læknisrecepts, sem mest hefir verið deilt á mjólkursölunefndina fyrir, var sú, að bæði landlæknir og bæjarlæknir ráðlögðu að hafa þetta fyrirkomulag. Ég hefi síðan í dag spurt einn manninn í mjólkursölun., hvort þetta væri ekki rétt með farið, og bað ég hann að gæta að þessu í bókum mjólkursölun, og þessi maður hefir upplýst það, að svo væri. Þessir tveir góðu læknar töldu svo litla þörf fyrir ógerilsneydda mjólk, af því ekki væri rétt að láta hana af hendi við aðra en þá, sem þyrftu hennar með af heilbrigðisástæðum. Almenningi væri að öllu samanlögðu betra og hollara að nota hina gerilsneyddu mjólk. En þó að svo hafi verið ráðlagt af þeim læknum, sem mjólkursölunefnd hefir sérstaklega leitað til, þá er ekkert í l. því til fyrirstöðu, að ógerilsneydd mjólk sé seld fleirum en sjúklingum, því eins og hv. þdm. vita, þá er aðeins sagt í l., að framleiða megi með sérstökum hætti ógerilsneydda mjólk handa sjúklingum og börnum, og að í reglugerð skuli vera ákveðið, hvernig þessi mjólk skuli framleidd, og að hún skuli vera seld frá mjólkurbúum, sem væru undir heilbrigðiseftirliti. Af þessu má sjá, að vitanlega er hægt að víkja frá till. læknanna. Það má vitanlega framkvæma þetta þannig, að þeir, sem telja sig þurfa að fá ógerilsneydda mjólk, fái hana; þetta er aðeins reglugerðaratriði. Hitt er aftur álitamál frá heilbrigðislegu sjónarmiði, hve mikið eigi að víkja frá þeim reglum, sem settar hafa verið eftir till. hinna tveggja ágætu lækna, til þess að fullnægja smekk almennings, sem heldur vill ógerilsneydda en gerilsneydda mjólk. Ég fyrir mitt leyti tel ekkert því til fyrirstöðu, að þetta verði tekið til athugunar, og ég hefi m. a. leitað upplýsinga hjá þeirri stöð, sem vinnur að gerilsneyðingu mjólkurinnar, um þetta, og hún telur ekkert því til fyrirstöðu, að mjólkin sé kaldhreinsuð. Spurningin er því aðeins um heilbrigðishlið málsins.

Ég ætla ekki að þreyta hv. þdm. á því að fara að endurtaka það, sem ég hefi áður sagt um verðjöfnunargjaldið, heldur vísa til þess, en ég vil aðeins benda á það, að þeir þm., sem hér eru fyrir Reykjavík, bera það sérstaklega fyrir brjósti að fá afnumið verðjöfnunargjaldið fyrir þá mjólk, sem seld er beint, en aðrir hv. þm. úr sama flokki virðast vera því mótfallnir, eftir umr. að dæma. Ég benti á það í gær og get gjarnan minnt á það aftur, hvernig mjólkursölumálinu væri nú komið, ef fulltrúar frá einstökum mjólkurframleiðslusvæðum með mismunandi hagsmunum hefðu einir haft yfirráðin og svo hefði verið úrskurðað eftir því, hvorir hefðu meiri hlutann. Ég skal taka til dæmis þessar andstæðu till. um verðjöfnunargjaldið. Sumir yrðu með því að afnema það fyrir beinu söluna, en aðrir vildu láta það gilda fyrir alla mjólk. Ef svo þeir yrðu í meiri hl., er afnema vildu verðjöfnunargjaldið, þá mundi það verða afnumið, hvort sem hinum þætti nokkurt réttlæti í því eða ekki. En ef hinir yrðu í meiri hl., þá yrði verðjöfnunargjaldið ekki afnumið.

Það, sem ég sérstaklega vil benda á í þessu sambandi, viðvíkjandi þessu mjólkurmáli, er einmitt það, sem hv. 3. þm. Reykv. þóttist leitast við að taka upp eftir mér. Hann minntist sérstaklega á það, að ef þetta frv., sem hér liggur fyrir frv. hv. meiri hl. landbn., yrði samþ., þá mundi ég segja af mér. Ég nenni nú ekki að leiðrétta þennan misskilning, því að það gerði ég í hv. Ed., enda veit ég, að hv. 3. þm. Reykv. er miklu kunnugra um þetta atriði en svo, að honum detti í hug, að þetta sé rétt eftir haft. Hann veit vitanlega mætavel, að öll sú röksemdafærsla, sem út af þessu hefir spunnizt, er með öllu út í loftið. Það, sem ég legg megináherzluna á í mjólkurmálinu, er það, að ég vil ekki, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, gangi fram, því það gerir ráð fyrir, að hin mismunandi hagsmunasvæði kjósi sér fulltrúa og ráði mjólkurmálinu til lykta eftir því, hvaða hagsmunasvæði eru í meiri hl. á hverjum tíma; ég er frv. mótfallinn vegna þess að ég veit, að þetta er nákvæmlega það sama og að eyðileggja samsöluna. Hér er alveg það sama á ferðinni og var nýskeð í síldarsölumálinu. Hvað skeði þar? Þar börðust hinir mismunandi hagsmunir þangað til flokksmenn hv. 3. þm. Reykv. snéru sér til ríkisstj. og báðu hana um að taka völdin af sér og öðrum fulltrúum síldarframleiðenda og koma á fót einkasölu á síldarsöluna, m. a. Jón Björnsson, því að þeir vissu, að ef hinir mismunandi hagsmunir síldarframleiðenda áttu að ráða og hinir ættu að beygja sig undir það, þá myndu samtökin springa. Þetta sama mundi ske, ef mjólkursölunefndin væri lögð niður og fengi ekki - eins og ætlazt hefir verið til - að dæma áfram milli hinna mismunandi hagsmuna og reyna að komast að réttmætri niðurstöðu.

Ég hefi verið á móti þessu frv. hv. meiri hl. landbn. vegna þess, að ég tel óþarft að breyta til í þessu efni.

Ég hefi áður lýst yfir skoðun minni á því atriði, sem einnig hefir verið spurt um, sem sé því, hvort ég muni ætla að bjóða framleiðendum að ráða með beinni tilnefningu meiri hl. þeirra manna, sem samsölunni stjórna. Þetta atriði hefi ég oft minnzt á hér í hv. d. Ég hefi ekki leynt því, hvorki hér á hinu háa Alþingi né heldur á fundum, þar sem ég hefi átt tal við framleiðendur, að það væri vitanlega aðalatriðið fyrir framleiðendur að hafa fullkominn meiri hl. með beinni tilnefningu, því að þá geta þeir til fulls ráðið sínum málum, en þar sem þeir hinsvegar deila um hina mismunandi hagsmuni, aðeins til þess að eyðileggja samtökin, vil ég að menn séu á milli til þess að skera úr, eftir því sem réttlátt er. Það er margbúið að sýna sig í öllum afurðasölumálum undanfarið, að þetta er eina leitin til þess, að þessi mál geti farið vel úr hendi.