27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í C-deild Alþingistíðinda. (3553)

55. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Hv. þm. G.-K. endaði ræðu sína með þeim ummælum, að ef svokölluðum sáttaboðum yrði ekki tekið, þá yrðu reynd önnur ráð í þessu máli, og að ég væri á góðum vegi með að leggja í rústir hagsmuni bænda hér í nágrenninu. Ég ætla að svara þessum ummælum með þeim staðreyndum, að þeir bændur, sem þykjast hafa orðið harðar úti en aðrir vegna samsölunnar, hafa fengið 26 aura fyrir hvern mjólkurlítra, útborgað mánaðarlega, í staðinn fyrir að þeir fengu 3 mánuðum eftir á 24,4 aura fyrir hvern mjólkurlítra áður en samsalan tók til starfa. Mjólkin hefir því nú þegar hækkað um á annan eyri til framleiðenda. Samhliða því hefir hún lakkað til neytenda um 2 aura. Með þessu verði á mjólkinni til bændanna eru bændurnir hér í Mosfellssveit búnir að greiða 3 aura í verðjöfnunargjald til bænda austanfjalls. Við sölu í samsölunni hafa þannig sparazt 7 aurar fyrir hvern mjólkurlítra úr Mosfellssveitinni, sem samsalan hefir selt. (ÓTh: Má ég skila því til bændanna þar?). Vill hv. þm. véfengja þetta? (ÓTh: Má vera samtal, herra forseti? - Forseti: Nei, ekki samtal). Ég hygg, að hv. þm. G.-K. sé eins gott að hafa ekki samtal um þetta. Og það mun sýna sig, að það verður hægt að bæta við þessa 26 aura til framleiðenda innan skamms. Samsalan stendur sig þannig, að hún borgar til bænda í nágrenni Reykjavíkur 29 aura fyrir hvern mjólkurlítra, og mun geta borgað þeim 30 aura fyrir hana.

Það er nú þegar búið að vinna þó nokkuð á, frá því sem var, í þá átt að koma mjólkursölunni í betra horf. Þrátt fyrir allar árásir, sem samsalan hefir orðið fyrir, hefir hún nýlega borgað 20 þús. kr. í verðjöfnunargjald til Mjólkurbús Flóamanna og 6 þús. kr. til Mjólkurbús Ölfusinga, sem bændur héðan úr nágrenninu hafa greitt af sinni mjólk og fengið þrátt fyrir það hærra verð fyrir hana en áður. Og það mun sýna sig, þegar mjólkursamsalan fær meira og meira að starfa undir eðlilegum starfsháttum og aðstöðu, þá á hún eftir að vinna meira á en hún enn hefir gert. Hún er ekki á leiðinni með að leggja neitt í rústir. En hún hefir þegar unnið mikið á.

Hv. þm. G.-K. taldi það ósamræmi hjá mér að halda því fram, að það mætti taka það til athugunar að selja ógerilsneydda, kaldhreinsaða mjólk, þó að hún væri ekki eins örugg og stassaniseruð mjólk. Ég tók það fram undir umr., að ég áliti það athugunarmál, hvort ekki væri rétt að taka tillit til þess, þegar neytendur hafa þann smekk að vilja heldur kaldhreinsaða mjólk, og láta þá taka á sig sjálfa ábyrgðina á því, að þeir neyti sjálfir þeirrar mjólkur, þó að hún sé ekki eins örugg. En um það, að hún sé ekki eins örugg, þarf ekki að sækja úrskurð til mín eða hv. þm. G.-K. Ég geri ráð fyrir, að það muni fullkomlega nægja að sækja þann úrskurð til Niels Dungals, sem lesa má í Morgunblaðinu frá því fyrir hálfu öðru ári síðan.

Það hefir verið talað mikið um, að það beri að láta að kröfum neytenda og leyfa sölu ógerilsneyddrar mjólkur, því að hún sé af ýmsum talin betri handa sjúkum, og þeir, sem hafa veila meltingu, álíta sumir, að hún eigi betur við sig heldur en gerilsneydd mjólk.

Það, sem hv. þm. G.-K. talaði mikið um, - og að mér virtist af nokkurri viðkvæmni -, var búið á Korpúlfsstöðum. Nú bið ég hv. þm. að taka sérstaklega vel eftir því, að það var rétt, sem ég upplýsti hér í dag, að Thor Jensen taldi framleiðslu mjólkur á búum sínum vera í svo góðu lagi, að hann þyrfti ekki að beygja sig undir þær reglur, sem settar eru sérstaklega um framleiðslu barnamjólkur. Hann vildi fá að hlíta þeim reglum, sem hann hafði haft áður um þá framleiðslu, og ekki breyta til. Hann vildi og gerði kröfu til þess að fá að framleiða mjólkina eins og áður og taldi hana fullnægja þeim kröfum, sem gera þyrfti til barnamjólkur. Hv. þm. G.-K. sagði, að ef fylgja ætti þeim reglum, sem fylgja á nú um framleiðslu barnamjólkur, þá teldi Thor Jensen sig ekki geta framleitt barnamjólk fyrir sama verð og áður. Hann taldi, að óþarft væri að setja þessar sérreglur, sem yrðu til þess að koma fram óþarfri verðhækkun á barnamjólk. Það, sem ég sagði í dag um þetta atriði, er algerlega rétt.

Þá kem ég að öðru atriði. Nú munu hv. þdm. segja sem svo: Það er upplýst af þeim vottorðum, sem hv. þm. G.-K. las upp, að þessi framleiðsla var í svo góðu lagi á Korpúlfsstöðum, að þar þurfti engu við að bæta. Það er eðlilegt, að þeir, sem hlustuðu á hv. þm. G.-K., hugsi sem svo. Í þessu sambandi skal ég upplýsa það, að þegar byrjað var á því hér að skipuleggja mjólkursöluna og mjólkurframleiðsluna samkv. mjólkurlögunum, þá voru fengir til ráðuneytis þrír menn, heldur en tveir, og meðal þeirra var Árni G. Eylands, sem hefir mjög góða þekkingu á þessu máli, en þó sérstaklega hefir annar þeirra manna, Jónas Kristjánsson, þekkingu á málinu, því að hann er sá maðurinn hér á landi, sem hefir fullkomnasta þekkingu á framleiðslu og meðferð mjólkur, og var nýkominn frá útlöndum frá því að kynna sér þessi mál. Hann hefir einnig stjórnað mjólkurbúi á Akureyri undanfarin ár. Þegar hann var ytra, ferðaðist hann í hálfan mánuð um Evrópu til þess að kynna sér þessi mál, og þegar hann kom heim úr þeirri ferð, var hann fenginn til þess að rannsaka, hvernig framleiðsluhættirnir væru á hinum ýmsu mjólkurbúum. Ég vænti þess, að þessi maður verð tæplega tortryggður, en hann taldi verulega galla á mjólkurframleiðslunni á Korpúlfsstöðum. M. a. taldi hann, að þvottur á flöskum væri í ólagi og raki væri í húsinu, þar sem mjólkin var hreinsuð, og ennfremur að ekki væri nógu vel gengið frá gólfum í húsinu o. fl. Það er ómögulegt að fá umsögn neins manns um þetta, sem treysta má, ef ekki má treysta þessum manni, sem sérstaklega hefir lagt sig eftir að læra þetta starf. Og fyrst endilega þarf að draga inn í umr., hvernig mjólk er frá hinum ýmsu búum, þá vil ég bæta því við, að á meðan ég var lögreglustjóri var gerð rannsókn á mjólk frá Korpúlfsstöðum. Þessi rannsókn var gerð af Trausta Ólafssyni, og vottorð hans um mjólkina eftir þeirri rannsókn eru til enn. Í tveimur af þeim sýnishornum, a. m. k., af þeirri mjólk, sem hann rannsakaði frá Korpúlfsstöðum, sýndi það sig, að fitumagnið var 2,75%. Ef hv. þm. G.-K. óskar eftir að sjá vottorð frá Trausta Ólafssyni um þetta, þá getur hann fengið að sjá þau, því að þau eru til. (ÓTh: Ég vil biðja hæstv. ráðh. að segja, hvað meðalfitumagnið var í mjólkinni frá Korpúlfsstöðum). Það var vitanlega ekki tekið, heldur var farið í búðir hér og tekin mjólk, sem komið hafði frá ýmsum stöðum, og þetta var gert mönnum alveg á óvart, fyrirvaralaust, frá fjórum stöðum í annað skiptið, en þremur í hitt skiptið. Mjólkin frá Korpúlfsstöðum var lægst að fitumagni í bæði skiptin, eða með 2,7 fitumagni. Það er ekki verið að hampa þessu. Þetta er einungis eftirlit, sem látið var fara fram. Ég skal taka það fram, að frá öðru búi, sem talið var, að seldi sérstaklega góða mjólk, var þá rannsökuð mjólk, sem reyndist að hafa alltof lágt fitumagn. Hjá báðum þessum búum stafaði þetta of lága fitumagn af því, að talsvert mikið var á þeim báðum gefið af fóðurbæti. Hlutaðeigandi menn voru þá áminntir um að selja ekki svona mjólk. Það má vitanlega agitera um mjólk eins og annað og reyna að fá fólk til að trúa því, að ein mjólk sé betri en önnur.

Þegar hv. þm. G.-K. er að spyrjast fyrir um, hvað meðalfitumagnið hafi verið, og þær fyrirspurnir eru ætlaðar til að verjast þessum staðreyndum, þá eru þær fyrirspurnir vitanlega alveg út í bláinn, því að mjólkin var tekin úr bútum hér í Reykjavík fyrirvaralaust. (ÓTh: Þetta eru ósæmilegar blekkingar hjá ráðh.). Þetta er salt. (ÓTh: Ósæmilegar blekkingar). Hv. þm. G.-K. veit, að faðir hans hefir alltaf átt við það að stríða, að fitumagnið sé lágt í mjólk hans vegna fóðurbætisgjafar. (ÓTh: Ósæmilegar blekkingar). Það er bezt að segja sannleikann um þetta afdráttarlaust, en hinsvegar vil ég ekki fara út í neinar deilur um þetta atriði.

Annað, sem hv. þm. G.-K. minntist á, var m. a. brautasalan. Hann sagði, að mjólkursölun. hefði notað aðstöðu sína til þess að leggja alla brautasöluna undir Alþýðubrauðgerðina. Ég skal upplýsa það, að ég vissi ekki vel um þetta fyrr en í dag. Skal ég upplýsa hv. þd. um það, að mjólk er seld í 38 búðum. Þar af hefir Alþýðubrauðgerðin 18 eða 19 búðir, Kaupfélagsbrauðgerðin hefir 4 og bakararnir hafa 14 eða 15 búðir. Það er því síður en svo, að það sé undir nokkrum kringumstæðum rétt, sem hvað eftir annað hefir verið fullyrt hér í þessari hv. d. í dag, að Alþýðubrauðgerðin hafi yfirráð yfir öllum mjólkurbúðum hér í bænum.

Það, sem hv. þm. G.-K. varð sérstaklega tíðrætt um og var meginuppistaðan í hans fyrri ræðu um málið, var það, að hann sagði, að það, sem ég ætlaði að gera, væri að kúga bændur, því að það væri að kúga bændur að leyfa þeim ekki að ráða algerlega yfir mjólkursölunni og skera sjálfir úr sínum ágreiningsmálum um hana. Hann kvað það vera vantraust á bændur að álíta, að þeir gætu ekki skorið sjálfir úr sínum ágreiningsatriðum og dæmt sjálfir í sínum málum.

Ég benti á það í dag, að það hefði aldrei verið talin heppileg leið, jafnvel þó að bændur eigi í hlut, að menn dæmi sjálfir í sínum málum. Ég vil benda hv. þm. G.- K. á dæmi, þar sem gerð var tilraun til þess að láta framleiðendur dæma sjálfa í sínum málum. Það var í síldarsamlaginu, sem átti að stofna hér um daginn. Þar áttu framleiðendurnir að dæma um það, þ. e. meiri hl. þeirra, hverjir ættu að sitja fyrir hinum þrönga erlenda markaði fyrir síldina, alveg eins og hv. þm. G.-K. vill, að framleiðendur mjólkur, eða meiri hl. þeirra, dæmi í hliðstæðum atriðum í sínum málum, þ. e. dæmi um það, hverjir eigi að sitja fyrir hinum þrönga markaði mjólkur hér í Reykjavík. En hvernig fór? Það fór þannig, að minni hl. þorði ekki að eiga undir meiri hl. stjórnar síldarsamlagsins, og tveir sjálfstæðismenn, þeir Jón Arnesen og Hafsteinn Bergþórsson, komu til ríkisstj. til þess að biðja hana að taka málið í sínar höndur, taka málið af framleiðendunum og dæma í málum framleiðendanna. En vegna hvers haldið þér, hv. þdm., að þessir tveir sjálfstæðismenn hafi óskað eftir þessu? Haldið þér, að það hafi verið vegna þess, að þeir hafi óskað svo mjög eftir einkasölu á síld? Ég segi: Nei, heldur var það vegna þess, að þeir vissu, að það er erfitt að dæma í sínum eigin málum, og vegna þess, að minni hl. vildi ekki beygja sig undir dóm meiri hl., af því að hann þorði það ekki, því að minni hl. hélt, að meiri hl. mundi ekki dæma svo rétt sem ákjósanlegt væri. Þeir báðu ríkisstj. einmitt þess vegna að taka valdið af sjálfum þeim og dæma upp á milli þeirra sjálfra.

Það er einmitt þetta, sem við erum að gera viðvíkjandi mjólkursölunni, að láta sem allra óhlutdrægasta menn dæma um, hvernig eigi að skipta réttindunum til að hagnýta mjólkurmarkaðinn hér í Reykjavík. Ég er fús til að fallast á, að framleiðendur fái að tilnefna meiri hl. í stjórn samsölunnar, og þá eru þeir búnir að fá það, sem þeir geta krafizt í þessu efni, og geta ráðið öllu því, sem snertir þeirra sameiginlegu hagsmuni gagnvart sölunni. Og hvað vilja þeir svo hafa meira? Ég vil ekki sleppa við þá valdinu til þess að dæma í þeirra eigin málum að öðru leyti, eftir því sem hlutföllin verða, um hagsmuni í sambandi við söluna, sem komið gæti á stað óeiningu innbyrðis, sem eyðilegði samtökin.

Ég vil, að framleiðendur fái meiri hl. í stj. sinna sameiginlegu hagsmunamála, þar sem búast má við, að þeir standi saman um sín mál. En í þeim málum, þar sem búast má við, samkv. því, sem ég áðan gat um viðvíkjandi síldarsamlaginu, sem átti að stofna hér á dögunum, að komið geti upp deila á milli mjólkurframleiðenda innbyrðis um hagsmuni þeirra, vil ég ekki, að þeir verði látnir sjálfir dæma, því að þá mundi koma nákvæmlega sama upp og í stjórn síldarsamlagsins um daginn. Það gæti eyðilagt samtökin. En þegar svo væri komið, mundu bændur koma til stj. og biðja hana að dæma í málum sínum, eins og þeir góðu síldarframleiðendur gerðu á dögunum.

Það er talað um, að fyrirkomulag það, sem ég vil taka upp í mjólkursölumálinu, sé ósanngjarnt, það sé að kúga meiri hl. bænda undir vilja minni hl. Mér virðist skína í það hjá hv. þm. G.-K., að ef til vill eigi búin austanfjalls að tilnefna einn mann og búin vestanfjalls annan. En ég get upplýst, að að búunum austanfjalls standa 470 bændur, en að búunum vestanfjalls, að Borgarfirði meðtöldum, standa 430 bændur. Sú regla, sem hv. þm. G.-K. og aðrir, sem hans stefnu fylgja í málinu, vilja innleiða, er fyrst og fremst það, að atkvæðunum verði skipt niður á búatöluna. Og það er bezt, að það komi fram fyrir hv. þd., fyrst hv. þm. G.-K. var að tæpa á því, að eftir þeim hlutföllum mundu framleiðendur vestanfjalls ráða gersamlega yfir samsölunni, vegna þess að búin og félögin, sem þá ættu að kjósa, eru fleiri vestanfjalls en austan og hefðu þess vegna meira atkvæðamagn, samkv. þeim reglum, sem þeir vilja innleiða. Ef þar væri um 3 atkv. að ræða, þá hefðu búin vestanfjalls 2 af þeim á móti því að búin austanfjalls hefðu 1 atkv., eftir þeim reglum, sem þeir vilja innleiða, og búin vestanfjalls gætu þá ráðið lögum og lofum og sett hinum kosti. Það er þetta, sem verið er að reyna að innleiða, og það er bezt, að það komi skýrt fram eins og það er. Það er þetta, sem ég ætla ekki að innleiða. Bændur mega sannarlega ráða samsölunni að öllu leyti, að svo miklu leyti sem um sameiginlega hagsmuni þeirra er að ræða, en bændur mega ekki taka samsöluna í sínar hendur til þess að mynda deilur innbyrðis. Það er þetta, sem ágreiningurinn er um, og hann er ekki um annað.

Skal ég svo fara að stytta mál mitt. Ég vænti þess, að komið hafi sæmilega fram það, sem deilt er um. Vil ég aðeins að lokum segja það, vegna þess að þau ummæli hafa hvað eftir annað fallið hér í hv. d., að ég vildi ekki gera fyrir mjólkursöluna hér í bænum það, sem ég í raun og veru gæti gert, að ég get lýst því yfir enn einu sinni, að mér dettur ekki í hug annað en að gera það, sem í mínu valdi stendur, fyrir mjólkursöluna hér í bænum, án þess að skaða samtök bænda, sem verið er að stefna að með samsölunni. mér dettur ekki í hug annað en að gera allt sem í mínu valdi stendur, til þess að ráða bót á þeim mistökum, sem á samsölunni eru, sem alltaf hljóta að koma fram hjá byrjunarfyrirtækjum eins og þessu fyrirtæki. Það er blátt áfram útilokað, að neitt nýtt fyrirkomulag, sem tekið er upp um meðferð neyzluvöru, sem svo almennt er notuð eins og mjólk, verði hafið án þess að á því séu einhverjir gallar í fyrstu, og vitanlega er sjálfsagt, að keppt sé að því að lagfæra það þannig, að neytendurnir geti orðið sem ánægðastir. Ég vil taka þetta fram til þess að fyrirbyggja, að þau orð festi sig í huga nokkurs manns, að ég vilji ekki gera allt það fyrir samsöluna, sem mögulegt er í þessu sambandi.