27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í C-deild Alþingistíðinda. (3554)

55. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég skal nú reyna að stilla máli mínu í hóf, þar sem mjög er orðið áliðið dags. Ég verð þó að svara nokkrum aths., sem fram hafa komið við till. meiri hl. landbn. Ég skal þá fyrst snúa mér að hv. þm. Hafnf., sem fyrstur hreyfði andmælum og hafði það sérstaklega við frv. að athuga, að það gerir ráð fyrir, að bændurnir sjálfir taki samsöluna í sínar hendur. Taldi hann, að neytendurnir ættu þar að hafa íhlutun um engu síður en bændurnir. Nákvæmlega það sama kom fram hjá hv. 1. landsk. Ég get nú ekki séð, hvað er óeðlilegt við það, að þeir, sem framleiða vöruna og eiga hana, sjái sjálfir um sölu á henni. Þannig hefir það verið til þessa hér á landi, og hefir salan gengið bezt svo. Hverjir hafa verið brautryðjendur um verkun og sölu á kjötinu aðrir en framleiðendurnir sjálfir? Hverjir hafa byggt fullkomin sláturhús og frystihús og séð um söluna utanlands og innan aðrir en bændurnir sjálfir? Það hefir mikið verið talað hér á þinginu, í blöðum og á mannamótum um, hvernig sölufyrirkomulagið væri á Akureyri. En hverjir hafa komið því upp og stjórnað þeim umbótum, sem gerðar hafa verið um framleiðslu og sölu, aðrir en bændurnir sjálfir? Það sama er að segja um mjólkursöluna hér í Rvík. Það var fyrst Mjólkurfélag Reykjavíkur, sem gekkst fyrir fullkominni hreinsun og meðferð á mjólk, sem seld var í bænum. Það var fyrst fyrir 15 árum, að það byrjaði að gerilsneyða mjólk með ærnum kostnaði. Það hefir gengizt fyrir að koma upp fullkomnum sölubúðum, jafnvel fullkomnari en reglugerð bæjarins krefst. Þetta hefir félagið gert óstutt og ótilknúið af löggjafarvaldinu, vegna þess að framleiðendurnir hafa skilið, að skilyrði fyrir því, að salan gangi vel, er að vanda meðferð mjólkurinnar og hafa fyrirkomulag sölunnar sem hagkvæmast fyrir neytendur, svo að þeir séu ánægðir. Þannig ganga viðskiptin bezt.

Hitt er annað mál og áður viðurkennt, að þegar svo er komið, að löggjafinn hefir gripið inn í og fyrirkomulagið nálgast einkasölu, þá er ekki nema eðlilegt, að neytendum og yfirvöldum sé gefinn kostur á að hafa eftirlit um, að ekki sé níðzt á kaupendum; sérstaklega að verð sé ekki spennt úr hófi fram, þegar samkeppni verkar ekki lengur.

En ég skal sérstaklega taka það fram í sambandi við þau deiluatriði, sem hæstv. forsrh. minntist á, að komið hefðu upp milli framleiðendanna, og hann þess vegna vildi ekki fá þeim sjálfum málið í hendur, að ég álít, að sölunni í bæinn verði á engan hátt betur fyrir komið en í höndum þeirra. Hæstv. ráðh. minntist einnig á síldarsölu, sem nú væri orðin einkasala samkv. beiðni framleiðendanna sjálfra, þó l. hefðu gert ráð fyrir, að hún væri frjáls. Ég er því e. t. v. ekki nægilega kunnugur, en ég hygg, að þar hafi rekizt á tveir ólíkir hagsmunir, síldarsaltenda og síldarspekúlanta, og síldarsalendurnir hafi verið bornir ofurliði og þess vegna verið gripið til einkasölu. En ég held, að það hljóti að koma af sjálfu sér, að framleiðendurnir leitist við að fullnægja kröfum og hagsmunum neytendanna, til þess að tryggja afsetningu á sínum vörum.

Ég skal vera fáorður um brtt. hv. þm. Reykv., því þeim hefir verið svarað af hæstv. landbrh. o. fl. Ég get ekki fallizt á, að það sé sanngjarnt, að þeir, sem framleiða mjólk hér í Reykjavík, séu undanþegnir verðjöfnunargjaldi. Það er alveg óhugsandi annað en að þeir, sem framleiða mjólk innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur, greiði verðjöfnunargjald eins og aðrir, því skipulagslaus og hóflaus samkeppni kæmi ekki síður niður á þeim en öðrum. Skipulagið verndar því jafnt þá og hina. En hitt er sjálfsagt að tryggja, að þeir geti á sama hátt og aðrir bændur staðið undir sinni framleiðslu. Ég viðurkenni einnig, að eins og nú er sé sanngjarnt og nauðsynlegt að hafa tiltölulega mikinn hluta af þeirri mjólk, sem daglega þarf til sölu í bænum, framleiddan á bæjarlandinu og nágrenni bæjarins, því oft getur komið það færi, að ekki sé hægt að koma á markaðinn mjólk úr fjarlægum stöðum. Þetta er því nauðsynlegt til þess að tryggja neytendum í bænum nægilega og örugga mjólk, hvernig sem veður og færi er. En þar sem það er nauðsyn, að mikið af mjólk sé framleitt í Rvík og næsta nágrenni, en framleiðslan þar dýrari en annarsstaðar, verður að tryggja framleiðendum þar meira fyrir mjólkina en öðrum. Þetta er gert með mjólkurl., en um það má deila, hvað sá munur á að vera mikill. En ef allur kostnaður af mjólkurl. ætti að koma á þá, sem fjær búa, yrði það til þess að auka mjólkurframleiðsluna hér. En það er vitanlega skökk stefna og óeðlilegt að beina framleiðslunni þangað, sem hún er dýrari, fram yfir það, sem nauðsyn krefur.

Með þessu er í raun og veru svarað því, sem svara þurfti ræðu hv. 6. þm. Reykv. Hann vildi halda því fram, að Reykvíkingar greiddu verðjöfnunargjald fyrir ekki neitt, og því væri það bara gjöf handa bændum. En ég hefi nú sýnt fram á, að mjólkurl. eru sett sameiginlega fyrir Reykvíkinga og aðra, enda koma þau öllum jafnt að liði.

Hv. þm. A.-Húnv. talaði nokkur orð og minntist á till. meiri hl. landbn. og sagði, að það hefði farið betur, ef þær till. hefðu verið bornar fram á síðasta þingi; þá horfði þetta allt öðruvísi við. Þá varð að setja bráðabirgðaskipulag um mjólkursöluna, því framleiðendur voru ekki tilbúnir að taka hana í sínar hendur. En tíminn til 1. maí ætti að vera nægilegur, og ég lít svo á, að rétt sé að stefna að því, að þeir taki söluna þá í sínar hendur. Einnig horfir þetta nokkuð öðruvísi við nú, þegar leggja á allan kostnað af yfirstjórn og framkvæmd laganna á framleiðendurna sjálfa.

Mér þykir leitt, að hæstv. landbrh. er ekki við, því ég ætlaði að víkja að honum nokkrum orðum og því, sem hann sagði. En ég verð þó að koma að því, sem mig langaði til að svara hæstv. ráðh. - Ég verð að segja, að mér urðu nokkur vonbrigði að því, hvaða viðtökur till. landbn. fengu hjá honum, vegna þess m. a., að aðaltill. er ekki annað en „formulering“ á því, sem l. gera ráð fyrir, að bændurnir taki sjálfir framkvæmd þeirra í sínar hendur. Þar er ekki gert annað en ákveða nánar en l. gera ráð fyrir, eftir hvaða reglum skuli kjósa í stjórn samsölunnar. Það hefir, að ég held, ekki verið bent á, að það fyrirkomulag, sem við stingum upp á, sé ranglátt. Er þar tekið tillit til tveggja höfuðatriða, mjólkurmagns og framleiðendafjölda. Ég skal geta þess í þessu sambandi, að hæstv. ráðh. var að tala um, hvernig færi um hlutfall í stj. samsölunnar, og virtist álíta, að menn vestan Hellisheiðar mundu ráða þar öllu. En eftir því, sem mér hefir reiknazt til, yrði meiri hl. fulltrúaráðsins skipaður af þeim, sem hag hafa af því, að verðjöfnunargjald sé greitt, en minni hl. af þeim, sem verðjöfnunargjaldið þyrftu að greiða. En vitanlega verður aðalágreiningurinn milli þeirra, sem verðjöfnunargjaldið þurfa að greiða, og þeirra, sem við því eiga að taka.

Ég skal taka það fram, að mér hefir ekki dottið í hug að hagga við meginatriði mjólkurlaganna.

Annað atriði, sem n. leggur til, er, að rýmkuð séu ákvæðin um sölu á kaldhreinsaðri mjólk. En ég vil taka það fram, að mitt álit er, að stassaniseraða mjólkin sé bezt, og óska því ekki breytinga. Og þar sem blandað er saman mjólk frá mörgum búum, er stassanisering langtryggust. En því er haldið fram, að hægt sé að framleiða holla og góða mjólk með kaldhreinsun, þar sem fullnægt er skilyrðum um hreinlæti og nákvæmni í meðferð. Og þar sem fjölda margir vilja fá mjólkina þannig, og hverfandi sú hætta, sem af því stafar fyrir heilsu manna, er sjálfsagt að rýmka um ákvæðin fyrir þeirri sölu. Og ég skal játa, að hæstv. landbrh. hefir nú rétt hendina á móti, þar sem hann hefir lofað að vinna að báðum þessum breyt., að framleiðendur taki við stj. samsölunnar 1. maí, ef samkomulag næst milli þeirra, og að með reglugerð verði rýmkað um skilyrti fyrir því, að neytendur geti fengið kaldhreinsaða nýmjólk. Er ég hæstv. landbrh. Þakklátur fyrir að hafa rétt þannig hendina á móti til samkomulags og treysti honum til að rýmka svo um þetta, að við megi una.

Ég hefi heyrt, að hæstv. ráðh. hafi lýst því yfir í Ed., að hann ætlaði að standa eða falla með mjólkursamsölunni. Er það vel mælt, því það er gott mál og fullkomlega þess vert. Á sama hátt munu mörg hundruð bændur hugsa, að þeir standi eða falli fjárhagslega með samsölunni. Eina leiðin, sem þeir sjá til bjargar sinni atvinnu, er að vel takist um framkvæmd mjólkurlaganna.

Það hefir verið deilt hart um framkvæmd mjólkurl., bæði í blöðum og útvarpi, og skal ég ekki blanda mér í þá deilu eða ásaka neinn. Það er ekki hæst í huga þeirra bænda, sem ég er fulltrúi fyrir, heldur uggur og ótti yfir þeim hjaðningavígum, sem orðið hafa út af þessum ópólitísku vörum. Þeir óska ekki annars en friðar um þessi mál og að þeir geti fengið það verð fyrir sínar vörur, að þeir megi öruggir stunda framleiðslu þessara hollu og góðu vara. - Ég vil segja út af aðkasti, sem hæstv. landbrh. hefir orðið fyrir, að ég treysti honum til að greiða úr þessum málum, þegar hann hefir gefið beint loforð um það. Það eru tvö atriði, sem ég legg höfuðáherzlu á, að gangi fram, og þar sem hæstv. landbrh. hefir lýst yfir, að hann treysti sér til að koma þeim fram með þeim l., sem nú gilda, vil ég rétta mína hönd á móti og standa með honum að því að koma þeim breyt. fram. Hann hefir áður haft þetta mál til meðferðar, gefið út um það bráðabirgðalög og tekizt að jafna ýmsan ágreining. Ég get því sætt mig við að leggja málið aftur í hans hendur, og fela honum á ný að jafna þann ágreining, sem enn er. Og í því trausti, að honum takist giftusamlega að koma fram þeim tveim meginatriðum, sem ég nefndi, lýsi ég yfir því, að ég mun greiða atkv. með þeirri rökst. dagskrá, sem hér liggur fyrir.