27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (3558)

55. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Jakob Möller [óyfirl.]:

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. N.-M. sagði, þarf ég ekki margt að segja. Það er fullkominn misskilningur hjá honum, að bæjarstj. Rvíkur eigi að líta eftir því, að þeir menn, sem reka hér verzlun, hvort sem er með mjólk eða annað, hafi fengið verzlunarleyfi. Það er lögreglustjóri, sem á að hafa eftirlit með því, og ef eitthvað hefir verið af ólöglegum verzlunum, þá er það ekki bæjarstj. að kenna. Það er ekki hennar hlutverk að líta eftir því, hvort þær hafi fengið leyfi. Um þetta hefði hv. 2. þm. N.-M. getað fengið upplýsingar, ef hann hefði snúið sér til hæstv. forsrh., sem hefir verið lögreglustjóri hér í Reykjavík.

Hæstv. forsrh. mun hafa neitað því, að hann hafi lýst því yfir í hv. Ed., að hann myndi gera það að fráfararsök, ef þetta frv. yrði samþ. Ég hafði ekki gert ráð fyrir, að hæstv. ráðh. tæki hér fyrstur til máls eftir kaffihléið, og hafði því ekki tækifæri til að heyra allt, sem hann sagði þá, en mér skilst, að hann hafi þá leiðrétt þetta og gefið í skyn, að ég hafi vitað betur heldur en fram kom í ræðu minni. Ég sagði í dag, að ég hefði heyrt þetta, og ég var fullkomlega í góðri trú, mér var sagt þetta af þm., sem á sæti í hv. Ed., og hefir hann þá misskilið hæstv. ráðh., en hitt stendur ómótmælt, að hann berst á móti samþ. frv., jafnframt því sem hann gefur yfirlýsingu um, að hann vilji vinna að því, að höfuðatriði þess komist í framkvæmd.

Hæstv. ráðh. gerir þá grein fyrir andstöðu sinni gegn frv., að ef framleiðendur fái óskoruð yfirráð, muni allt fara í handaskolum, vegna mismunandi hagsmuna framleiðendanna. Þetta er ekkert annað en viðbára, sem styðst ekki við neitt. Ef hæstv. ráðh. finnst ekki nægilega tryggilega um búið í frv. og þurfi að gera á því breyt., þá ætti að vera hægt fyrir hann að bera fram brtt., sem kæmu í veg fyrir, að slíkur ólestur þurfi að verða á framkvæmdinni. Ef það er tryggt, að hann vilji vinna að því, að meðferð þessa máls verði framkvæmd á þann hátt, sem hann hefir lýst yfir, þá væri eins gott að tryggja það með því að samþ. brtt. En hæstv. ráðh. óskar ekki eftir lagaheimild til að gera þetta; hann vill gera það í trássi við lög. Þar við bætist, að ég fæ ekki betur séð en það sé fullkomlega tryggt í frv. og brtt., að ekki geti til þess komið, að neitt þurfi að fara í ólestri í höndum framleiðenda. Ég hygg, að það sé svo um búið, að til þess geti varla komið. Þetta er gersamlega ósambærilegt við síldarmálið, vegna þess að sú lagasetning, sem um þau gildir, er svo ónákvæm, að ekki er eðlilegt, að þau komi til framkv. fyrr en búið er að fylla í þær eyður.

Hæstv. ráðh. gerði enga grein fyrir því, hvaða árekstrar ættu sérstaklega að geta orðið af því, að stjórnin væri í höndum framleiðenda sjálfra. Ég get ekki heldur séð, hvar þeir geta orðið, þegar búið er að leggja aðallínuna með þeirri reglugerð, sem gefin yrði út. Þeirri reglugerð yrði að breyta í samræmi við það, sem hér yrði ákveðið, t. d. að leyfa sölu á ógerilsneyddri mjólk, en að út af því þurfi að verða nokkrir árekstrar, getur mér ekki skilizt.

Mér skilst, að samkv. till. meiri hl. landbn. eigi mjólkursölunefnd að skera úr, ef ágreiningur verður í samsölustj. Hæstv. ráðh. sagði, að óþarft væri að breyta framkvæmdaratriðum. Það hefir margsinnis verið bent á, að hér er ekki um annað að ræða en það, að borið hefir verið fram frv. til laga um breyt. á mjólkursölulögunum, til þess að hindra það, að framkvæmd þeirra verði öðruvísi en mjólkurframleiðendur og neytendur æskja eftir.

Því til sönnunar, að samkv. núgildandi lögum sé ekki hægt að verða við þeim kröfum, sem hafa verið bornar fram, skal ég vekja athygli á því, að þegar n. var að ræða um það, hvort leyfa skyldi Korpúlfsstaðabúinu að selja ógerilsneydda mjólk, þá leit n. svo á, að það væri óheimilt samkv. fögum. Ég á sjálfur sæti í n. og er þess vegna fullkunnugt um þetta. Mér var þá bent á ákvæði í lögum, sem væru þessu til fyrirstöðu, og ég er fullkomlega viss um það, að eins og lögin eru er óheimilt og ekki hægt að breyta þessu nema með því að breyta lögunum. Mér er því óskiljanlegt, hvernig hæstv. ráðh. hugsar sér að koma þessum breyt. í framkvæmd. Að vísu veit ég, að hægt er að aka seglum nokkuð eftir vindi, og framkvæmd laga og reglugerða getur verið mismunandi, eftir því hverjir eiga hlut að máli, og því til sönnunar skal ég vekja athygli á því, að það var sett sem ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir því, að Korpúlfsstaðir fengju að selja ógerilsneydda mjólk, að verðið hækkaði um 5 aura á lítra. Þessari kröfu var haldið fram bæði af verðlagsnefnd og mjólkursölunefnd og því haldið fram, að samkv. lögum væri óheimilt að veita mönnum leyfi til að selja ógerilsneydda mjólk nema með hærra verði. En þegar það féll niður, að Korpúlfsstöðum yrði veitt þetta leyfi, og Kleppsbúinu var veitt það, þá var fallið frá þessari kröfu um hækkað verð, þó það væri gallhart nei við Korpúlfsstaði, að þeir fengju umrætt leyfi nema verðhækkun kæmi á mjólkina. Þetta sýnir, að í höndum þeirra manna, sem með framkvæmdirnar fara, er þeim hagað mismunandi, eftir því hver hlut á að máli; en auðvitað er það ekki hægt þannig, að þá sé alltaf jafnt fylgt settum lögum og reglugerðum. Af því, sem hér hefir skeð, þar sem hv. frsm. meiri hl. landbn. hefir lýst því yfir, að hann leggist á móti þeim till., sem hann sjálfur hefir samið og hlotið lof manna fyrir, þykist ég sjá, að það eigi að koma frv. fyrir kattarnef. Það er meira að segja ekki nokkur hreyfing í þá átt að koma málinu í viðunandi horf, og er því full ástæða til að vekja athygli á því, hvað það kostar að spyrna á móti kröfunum og halda óánægjunni við.

Talið er, að mjólkurneyzla Reykvíkinga nú, ef miðað er við eðlilega notkun, sé um 6 millj. og 600 þús. lítrar að meðaltali yfir árið, eða að meðaltali á dag yfir 17 þús. lítra. Nú er það kunnugt, að meðalsala mjólkur hjá mjólkursamsölunni er komin niður fyrir 13 þús. lítra á dag, og sú mjólk, sem seld er utan samsölunnar, mun vera eitthvað á annað þús., eða um 17 hundruð lítrar á dag, þannig að öll mjólkursalan í bænum er nú að meðaltali ekki yfir 15 þús. lítra á dag. Það er því bersýnilegt, að mjólkursalan nú er 2 þús. lítrum á dag fyrir neðan meðalmjólkurneyzlu eins og hún er eðlileg og hefir verið að undanförnu. Það er þannig nokkurn veginn víst, að vegna óánægju og ósamkomulags hefir mjólkursalan hér í bænum minnkað um allt að 2 þús. lítra á dag, og þó sennilega meira, því gera má ráð fyrir, að á þessum tíma árs, þegar fólk er með langflesta móti í bænum, sé dagleg sala mjólkur að jafnaði meiri en að meðaltali yfir allt árið. Þannig er það augljóst, að með þessum reipdrætti, sem hæstv. stj. og hennar flokkar standa fyrir, eru mjólkurframleiðendur skaðaðir um stórfé. Það liggur alveg í augum uppi, að þetta ástand getur ekki haldizt til lengdar, og ég furða mig á því, að hæstv. stj. skuli vilja vinna það til, aðeins fyrir ofurkapp, að verða þess valdandi, að þetta vandræðaástand, sem nú ríkir í þessu efni, skuli haldast enn um ófyrirsjáanlegan tíma. Því að ég þori að staðhæfa það, að ástandið fer versnandi, en ekki batnandi, ef stj. heldur uppteknum hætti og varast það mest af öllu að gera kaupendum mjólkurinnar til hæfis í þessu máli hér í bænum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að lengja þessar umr. meira. Það er fyrirsjáanlegt um afdrif frv., að þau eru fyrirhuguð, og að þeirri niðurstöðu verður ekki breytt með lengri ræðuhöldum.