27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í C-deild Alþingistíðinda. (3559)

55. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Eitt af því, sem sérstaklega hefir komið fram undir þessum síðustu umr., er það, að sumir hv. þdm. undrast yfir því, að þeir landbnm., sem standa að brtt., skuli geta sætt sig við að samþ. þá rökst. dagskrá, sem fyrir liggur. Það, sem þá greinir á við fylgismenn mjólkurlaganna og núv. framkvæmd þeirra, eru aðeins tvö atriði, og ekki annað en það, að framleiðendurnir fái sjálfir í sínar hendur yfirráðin um sölu mjólkurinnar, og í öðru lagi, að neytendum hér í bænum verði gefinn kostur á ógerilsneyddri mjólk til kaups. Deilan er aðeins um það, hvort hægt sé að ná þessu tvennu, ef dagskrártill. verður samþ., og þá án lagabreyt., sem flm. frv. ætluðu sér að koma fram með því að gera lagabreyt. Þeir hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að þessar ráðstafanir til breyt. á framkvæmd mjólkursölunnar sé hægt að gera án lagabreyt., og þess vegna eru þeir í fullu samræmi við sjálfa sig, þó að þeir samþ. dagskrána. En ef þessar brtt. við mjólkursölul. verða felldar í Ed., sem að sjálfsögðu má gera ráð fyrir, þá ná þeir engum árangri. Verði dagskrártill. hinsvegar samþ., þá eru meiri líkur til, að þeir nái betur þeim tilgangi, sem felst í brtt. og þeir leggja sérstaka áherzlu á.

Um einstök atriði, sem fram hafa komið í umr., skal ég ekki lengja mál mitt mikið. Ég vil þó sérstaklega út frá því, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, gera lítilsháttar aths. Hann hélt því fram, að mjólkursalan í bænum væri talsvert fyrir neðan hið venjulega sölumark, sem var áður en mjólkurverkfallið hófst. En það getur ekki staðizt. Mjólkurverkfallið hefir þá verið byrjað í janúar, því að hin daglega sala á neyzlumjólk í bænum er hin sama nú eins og þá, og álíka og áður var. Um þetta hafa að vísu staðið nokkrar deilur. En þetta hefir verið reiknað nákvæmlega út af Árna G. Eylands og þrem til fjórum mönnum öðrum, sem hafa gert nákvæman samanburð á mjólkursölunni í bænum fyrir og eftir verkfallið. Þær skýrslur, sem hv. 3. þm. Reykv. miðar við, eru eftir Eyjólfi Jóhannssyni, en hinir telja sig hafa hrakið þær fullkomlega. - Hv. 3. þm. Reykv. spurði, hvort ég teldi leyfilegt að selja ógerilsneydda og kaldhreinsaða mjólk í bænum án þess að breyta lögunum. Ég vil spyrja hann aftur á móti, hvernig færi, ef allt í einu væri afnumin ákvörðunin um það, að neytendur þyrftu læknisvottorð til þess að fá ógerilsneydda mjólk keypta. Væri þá ekki þar með fengið allt, sem krafizt er í þessu efni í frv.? Er það ekki önnur aðalkrafan í frv. að fá kaldhreinsaða mjólk á markaðinn? Vitanlega er það heimilt samkv. núgildandi lögum að afnema skilyrðið um læknisvottorðin, og þá er um leið orðið heimilt að neyta almennt ógerilsneyddrar mjólkur. Þetta er nú allur galdurinn.

Ég fæ ekki séð, að það sé neitt ákvæði í lögunum, sem hindri það, að neytendur geti fengið ógerilsneydda mjólk. Ef menn vilja gefa það frjálst og afnema þetta skilyrði um læknisvottorðin, þá sé ég ekki, að neitt sé því til fyrirstöðu í lögunum, að það fáist; og geri ég ráð fyrir, að hv. 3. þm. Reykv. fallist á, að þetta sé ekki mikill galdur.

Hitt höfuðatriðið, sem hv. þm. drap á, að framleiðendur ættu sjálfir að taka mjólkursöluna í sínar hendur, það er náttúrlega réttmætt að vissu leyti; en þó er það vitanlega að mestu komið undir því skipulagi, sem er á félagsskap bænda á þessu sviði, og því samkomulagi, sem þar ríkir, hvort fært er að fá þeim mjólkursöluna í hendur, óskorað. Flóabúið hefir alltaf staðið á móti því hingað til. Nú eru miklar líkur til, að það geti fallizt á þá miðlunarleið, sem ég hefi stungið upp á til úrlausnar í þessu máli, og þá verður að standa á hinum mjólkurbúunum, ef það ekki tekst. Þess vegna er tvímælalaust hægt að koma þessu fram án þess að nokkur lagabreyt. verði samþ., og ég vil endurtaka það enn, að með því að samþ. dagskrártill., þá komast þeir þdm., sem að frv. og brtt. standa, miklu nær því að fá kröfum sínum framgengt heldur en þó að þeir fái frv. samþ. hér í d., þegar það verður síðar fellt í Ed.

Ég vil ekki eyða tíma til þess að elta ólar um þau atriði, sem fram komu í ræðu hv. 5. þm. Reykv., t. d. um samanburð á því að leggja verðjöfnunargjald á fisk, sem seldur er til neyzlu innanlands, eins og á mjólkina. En hér er ólíku saman að jafna; það er svo sáralítið brot af fiskinum, sem selt er innanlands, svo að verðjöfnunargjald af því yrði óverulegt. Í öðru lagi má benda á það, ef á að rökræða þetta, að fiskmarkaðurinn er ekkert betri hér innanlands en útlendi markaðurinn. Fiskurinn er seldur til fisksalanna hér í bænum með hlutfallslega svipuðu verði og fæst fyrir hann verkaðan. En hið háa útsöluverð á fiskinum hér í Reykjavík stafar eingöngu af því, hvernig fisksölunni er hagað; útsölumennirnir leggja svo mikið á hann. (PHalld: Þetta er rangt). Það er sanngjarnt að hafa verðjöfnunargjald á þeirri mjólk, sem seld er á opinberum markaði, af því að verðið, sem fæst fyrir þá mjólk, er miklu hærra en það, sem fæst fyrir þá mjólk, sem unnið er úr í mjólkurbúunum. Aftur á móti fá fisksalarnir fiskinn hjá sjómönnunum fyrir gangverð fiskjarins á hverjum tíma. Þess vegna er þetta algerlega hugsunarvilla hjá hv. 5. þm. Reykv., og rangt að telja það sambærilegt að leggja verðjöfnunargjald á fiskinn, sem seldur er hér í bænum, eins og mjólkina.

Ég vil enn á ný mótmæla því, sem verið er að læða hér út um bæinn, að það verð, sem samsalan borgar út fyrir mjólkina, sé að einhverju leyti falskt. Það er ekki hægt að mótmæla því, að samsalan borgar nú hærra verð til mjólkurframleiðendanna t. d. hér í Mosfellssveit en áður var, og þá segja andstæðingar hennar, að þetta sé falskt verð, þannig að samsalan taki fram fyrir sig og hafi með lánsfé borgað út hærra verð til framleiðenda en hún raunverulega getur staðið við. Þetta er gersamlega tilhæfulaust, og skal ég í þessu sambandi upplýsa, að það er hægt að hækka mjólkurverðið enn meira til bænda en gert hefir verið. Ég skal ennfremur upplýsa það, að samsalan fékk fyrir 3 vikum heimild til þess að taka 36500 kr. lán til stofnkostnaðar, vegna kaupa á bílum, lagfæringa á búðum o. fl. Blöð Sjálfstfl. í bænum hafa verið með ósæmilegar dylgjur um samsöluna út af þessu og talað um, að hún stæði fjárhagslega höllum fæti og væri búin að fá 35 þús. kr. eyðslulán. Þetta er vitanlega tilhæfulaust; enda var samsalan ekki búin að taka lánið fyrir viku síðan. - Ég vil þá vænta þess, að hv. 5. þm. Reykv. láti sér ekki sæma það að breiða út róg og gróusögur um samsöluna, hvorki um hag hennar né söluskýrslur. Skýrslur og reikningar samsölunnar eru færðir af starfsmönnum hennar, sem vita, hvað þeir eru að gera, og vinna fyrir opnum tjöldum. Hv. 5. þm. Reykv. fer hér með hinn ósæmilegasta róg, og mig undrar, að hann skuli leyfa sér að viðhafa slíkan málflutning hér í þd.

Ég hefi nú leiðrétt veigamestu atriðin og rangfærslurnar í ræðu hv. 5. þm. Reykv., og kem þá að fyrirspurn hans um það, hvers vegna framleiðendum skuli ekki vera fengin mjólkursamsalan í sínar hendur. Hv. þm. veit, að það er ákveðið í lögunum, að samsalan skuli fara með mjólkursöluna þangað til 1. maí. næstk. og fara með stjórn hennar. Þess vegna er alls ekki hægt að breyta til um þetta fyrr.

Viðvíkjandi sölu á ógerilsneyddu mjólkinni er það að segja, að það hefir verið reynt að spilla fyrir og eyðileggja sölu mjólkur frá Kleppsbúinu, og talað um, að hún væri óholl og hættuleg til neyzlu. Þess vegna getur vel verið, að það sé búið að koma þeirri trú inn hjá neytendum og að hún sé minna keypt en ella. Það má vel vera, að þeir, sem þykjast vera að vinna fyrir neytendur í bænum, séu að eyðileggja þessa tilraun um sölu á ógerilsneyddri mjólk, þannig að það þurfi að taka hana upp á annan hátt. - En það er eftirtektarvert, að blöð Sjálfstfl. skuli hafa leyft sér að birta slíkar greinar, með feitletruðum þriggja dálka fyrirsögnum, um þessa hættulegu mjólk frá Kleppsbúinu, sem báðir læknarnir á Kleppi og læknirinn á Laugarnesi (Maggi Magnús) hafa notað handa sér og sínum fjölskyldum í mörg ár. Með þessum greinum, sem birtar hafa verið í Morgunbl. og Vísi, hefir verið reynt af andstæðingum samsölunnar að eyðileggja sölu á þessari mjólk, og má vel vera, að það þurfi að endurtaka þá tilraun.

Ég skal svo láta máli mínu lokið; ég er búinn að svara því, sem mest er um vert, og það, sem sagt verður hér á eftir í nótt, verður að mestu leyti endurtekningar á því, sem þegar er búið að taka fram.