27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í C-deild Alþingistíðinda. (3560)

55. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Jón Pálmason:

Það hefir ýmislegt komið fram í þessum umr., sem mér þykir athugavert, og sumt af því verð ég að telja svo kynlegt, að ég get ekki komizt hjá að fara um það nokkrum orðum. Eru það einkum og sérstaklega nokkur atriði í ræðu hv. frsm. landbn., er ég vildi drepa á.

Hann vék að þeirri breyttu aðstöðu, sem orðið hefði frá því á síðasta þingi um yfirráð framleiðenda yfir samsölunni. Ég skal játa, að það er nokkuð til í þessu. Þó var mér það ljóst á síðasta þingi, að framleiðendurnir sjálfir, og engir aðrir, áttu að hafa full yfirráð yfir mjólkursölunni.

Í öðru lagi sagði hann, að aðstaðan væri nú breytt frá því, sem var á síðasta þingi, að því leyti, að nú væri með nýjum lögum ætlazt til, að framleiðendur bæru sjálfir allan kostnað við framkvæmd afurðasölulaganna, en ríkissjóður, sem áður hefði greitt kostnað við mjólkursölunefnd og kjötsölunefnd, væri nú laus við þau útgjöld.

Það er rétt, að þetta er veruleg breyting. En hún er þó aðeins tilfærsla á kostnaðinum og sízt ástæða til að eyða að óþörfu í þetta, þó ríkissjóður ætti að greiða. En það kemur hér fram sem oftar, að menn eru viðkvæmari fyrir sínum hag en ríkissjóðsins, og mun það ekkert nýtt um þingmenn. Þrátt fyrir þetta tel ég, að aðstaðan sé ekki breytt að því er sjálf undirstöðuatriðin snertir.

Hv. þm. Mýr. sagðist hafa það efst í huga að koma í veg fyrir, að ófriður héldist áfram í þessum efnum milli framleiðenda og neytenda mjólkurinnar, því að undir því ættu báðir aðilar sitt fjárhagslega gengi, að viðskiptin færu sem greiðast og bezt fram. Þetta er vitaskuld alveg rétt, enda mun það vera efst í huga framleiðenda og áreiðanlega mjög ofarlega í huga neytenda í Reykjavík, að núv. ófriði verði aflétt. - Það er auðséð, að hv. þm. Mýr. og hv. 2. þm. N.-M. hefir verið það vel ljóst, að það var fullkomin þörf á þeim brtt., sem þeir fluttu í n. og við hv. þm. Ak. vorum samþykkir og gengum inn á. En hvað skeður svo? Þegar brtt. landbn. eru komnar til umr. hér í þd., þá ganga flm. frá þeim, fyrst hv. 2. þm. N.-M. og síðan hv. þm. Mýr., og lýsa sig samþykka hinni rökst. dagskrá frá hv. þm. Hafnf., sem ekki horfir til neinna bóta í þessu máli. Ég verð að segja það, að þessir menn, sem snúast þannig á móti sinni eigin sannfæringu í þessu máli, eru brjóstumkennanlegir. Þeir hafa orðið að beygja sig fyrir hinu pólitíska valdi síns flokks og hæstv. landbrh., sem ekki vill gera neina breyt. á mjólkursölulögunum. Ég skal ekki véfengja það, að þeir muni bera fullt traust til hæstv. landbrh. um, að honum muni takast að greiða úr deilunum. En það er nú fengin fullkomin reynsla fyrir því, að hæstv. ráðh. er ekki treystandi til að greiða úr þessu máli; það er öllum kunnugt, hvernig honum hefir gengið það hér í bænum undanfarna mánuði. Og hvað finnst þá þessum hv. þdm. vera leggjandi upp úr loforðum og fagurgala hæstv. ráðh.? Hvernig geta þeir tekið slík loforð til greina? Það er full ástæða til að taka það til athugunar áður en umr. er lokið.

Ég hefi nú hlustað á allar ræður hæstv. landbrh. í þessu máli, og ekki fundið, að neitt væri hægt upp úr þeim að leggja. Hæstv. ráðh. hefir tvístigið sitt á hvað; hin góðu áform, sem hann talar um í öðru orðinu, tekur hann að miklu leyti aftur í hinu, þannig að ræðurnar eta sig upp. - Nú eru það einkum 4 atriði, sem fyrir liggja í brtt. landbn., og út frá þeim atriðum skal ég nú víkja nánar að málinu sjálfu.

Að því er snertir kröfuna um aukna sölu á ógerilsneyddri mjólk hér í bænum hefir hæstv. ráðh. lofað að athuga möguleikana fyrir því, að sú sala verði leyfð. En það hefir ekkert komið fram um það hjá honum, hvað hann muni gera, ef meiri hl. mjólkursölunefndar leggur á móti því. Það er því engin trygging fyrir, að neitt verði breytt til í þessu efni, eftir þeim svörum, sem hæstv. ráðh. hefir gefið. Ég efast ekki um, að hann vilji gjarnan gera það sjálfur, en hvort hann framkvæmir það gegn vilja mjólkursölun., er með öllu óvíst.

Þá kem ég að afstöðu hæstv. ráðh. gegn þeirri kröfu, að framleiðendur fái full yfirráð yfir mjólkursölunni. Hæstv. ráðh. gaf þá yfirlýsingu, að þegar fullt samkomulag væri orðið meðal framleiðenda um skipulag og stjórn mjólkursölunnar, þá væri hann fús til að leggja yfirráðin í þeirra hendur. En það eru sáralitlar líkur til þess, að samkomulag náist með öllum framleiðendum; það þarf ekki nema einn fulltrúa frá mjólkurbúunum á verðjöfnunarsvæði Reykjavíkur til þess að koma í veg fyrir það. Hæstv. ráðh. hefir einnig lýst því yfir, að framleiðendur skyldu fá meiri hl. í mjólkursölun. og að hún eigi að hafa yfirstjórn á mjólkursölunni. Þetta bendir til þess, að hæstv. ráðh. ætlast til, að mjólkursölun. haldi þessum yfirráðum áfram, en ekki framleiðendafélög bænda.

Þá kem ég að 3. atriðinu í brtt. meiri hl., um að mjólkursölunefnd og mjólkurverðlagsnefnd verði sameinaðar, og jafnframt verði breytt til um skipun í þá einu nefnd. Um þetta atriði hefir hæstv. ráðh. engin loforð gefið. - Í fjórða lagi er í till. meiri hl. ætlazt til, að kýrnyt, sem verðjöfnunargjald miðast við, sé færð úr 3000 niður í 2500 lítra um árið; en það gildir 15 kr. lækkun á verðjöfnunargjaldinu fyrir hverja kú í bænum. Engin yfirlýsing hefir komið fram frá hæstv. ráðh. gagnvart þessu. N. vildi gera þessa tilraun til samkomulags gegn kröfum þeirra manna. er reka mjólkurframleiðslu hér í bænum, og sá hún sér ekki fært að fara lengra í því efni. Þó er þetta samkomulagstillaga. En verði dagskrártill. samþ., þá er vitanlega engra breyt. að vænta á því sviði. - Þá þótti mér það góð rúsína í síðustu ræðu hæstv. ráðh., þar sem hann hélt því fram, að þeir, sem óska eftir breyt. á mjólkursölunni, muni vinna meira á í því efni, ef dagskrártill. verður samþ. heldur en brtt. meiri hl. landbn., af því að þær mundu sennilega verða felldar í Ed. Þessi ummæli hæstv. ráðh. sýna það og sanna betur en nokkuð annað, hversu mikið er hægt að leggja upp úr loforðum hans. Hann heldur því fram, að þó að till. meiri hl. landbn. verði samþ. í Nd., þá verði þær felldar með atkv. stjórnarliðsins í Ed. Og að fenginni þeirri niðurstöðu muni stj. ekki gera neitt til úrlausnar í þessu máli. M. ö. o., þá sér hæstv. ráðh. enga ástæðu til að efna sín fögru loforð, ef loforð skyldi kalla.

Ég get ekki stillt mig um að benda hv. þm. Mýr. og hv. 2. þm. N.-M. á þessa rúsínu. Þessi ummæli hæstv. ráðh. ættu þeir að athuga. þegar þeir eru að hugsa um velferð mjólkurframleiðenda í nærsveitum Reykjavíkur, sem eiga allan hag sinn undir því, að vel takist um úrlausn þessa máls. Till. velta á atkvæði ráðh. sjálfs í efri deild, ef þær fara þangað, en hann telur meira virði fyrir þá sem endurbætur að samþ. dagskrá, sem ekkert segir, heldur en að samþ. þeirra eigin till. Slík heilindi eru nokkuð fágæt, en við fáum hér að sjá ýms skrítin dæmi um staðfestu og alvöru sumra hv. þm.

Það er undarlegt, þegar ekki er um stærra ágreiningsatriði að ræða, hvílíkt kapp er á það lagt að heimta, að engin breyt. verði gerð á þessum l., sem þegar hafa reynzt jafnilla og þessi mjólkurlög hafa reynzt. Ég verð að segja það, að hv. þdm. hafa enga tryggingu fyrir því, að breyt. komist á í þessu efni, nema þessi lagabreyt. verði samþ. áður en þingi verður frestað.