27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í C-deild Alþingistíðinda. (3563)

55. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég ætla aðeins að segja fáein orð út af því, sem hæstv. forsrh. sagði. Hann hélt því fram, að það væri einfalt mál að koma í framkvæmd sölu á ógerilsneyddri mjólk með því að fella úr reglugerðinni um mjólkursöluna kröfuna um það, að þeir, sem vildu fá ógerilsneydda mjólk frá samsölunni, þurfi að leggja fram læknisvottorð. Það er alveg rétt, að það er einfalt mál að nema þetta ákvæði burt úr reglugerðinni. En er það heimilt samkv. lögunum? Í. 7. gr. l. stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Öll mjólk og rjómi, sem seldur er frá samsölunni samkv. þessum l., skal vera gerilsneyddur.“ - Svo er næsta málsgr. um það, að um framleiðslu og meðferð mjólkur skuli sett ákvæði með reglugerð í samráði við yfirstjórn heilbrigðismálanna. Þarna er að vísu ekki beinlínis tekið fram, að leyfð sé sala á ógerilsneyddri mjólk, en það er þó óhætt að leggja þá meiningu í þetta ákvæði, að eftir sérstakri reglugerð skuli heimilt að selja ógerilsneydda mjólk handa börnum og sjúklingum. En lögin leyfa ekki neina aðra sölu frá sölumiðstöðinni á slíkri mjólk, nema handa börnum og sjúklingum. Nú verður vitanlega að gera þá kröfu, að það sé tryggt, að slík mjólk sé ekki notuð handa öðrum, en það verður ekki séð, að það sé tryggt með öðru en læknisvottorði. Þess vegna verð ég að líta svo á, að óheimilt sé að fella úr reglugerðinni ákvæðið um læknisvottorð. Þannig hlýtur mjólkursölun. að hafa litið á þetta atriði. Þess vegna hefir hún sett þetta í reglugerðina, og hæstv. landbrh. virðist einnig hafa litið svo á, þar sem hann hefir staðfest þessa reglugerð. Ég geri ráð fyrir því, að þótt hann hafi staðfest reglugerðina, þá þurfi það ekki að stafa af því, að hann hafi talið það óhjákvæmilega nauðsyn þrátt fyrir orðalag l., en ég er viss um, að sérhver lögfræðingur annar en hæstv. ráðh. mundi kveða upp sama úrskurð um þetta atriði eins og ég hefi gert, fyrst lögin mæla svo fyrir, að einungis börn og sjúklingar skuli fá keypta ógerilsneydda mjólk, og þá þarf að liggja fyrir trygging fyrir því, að ekki fái aðrir að neyta slíkrar mjólkur. Þetta er því aðeins undantekningarákvæði frá því almenna ákvæði, að öll mjólk frá sölumiðstöðinni skuli vera gerilsneydd.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. ráðh. sagði um mjólkurneyzluna, vil ég bæta við fáeinum orðum. Hann sagði, að ef það væri á rökum byggt, sem ég sagði um mjólkurneyzluna á dag, þá hlyti mjólkurverkfallið að hafa byrjað strax þegar mjólkursamsalan hóf starfsemi sína. Í sambandi við þetta skal ég vekja athygli hæstv. ráðh. á því, að strax fyrsta dag samsölunnar var það viðurkennt af öllum, að svo mikið ólag hefði verið á framkvæmd mjólkursölunnar, að þess væri alls ekki að vænta, að eins mikils hefði verið neytt af mjólk á dag eins og eðlilegt og venjulegt er. Þetta var viðurkennt, ekki aðeins af sjálfstæðismönnum, heldur einnig af aðalmálgagni hæstv. ríkisstj. Það komst svo að orði, að á mjólkursölunni væri skammarlegt ólag. Og þetta ólag hlýtur að hafa haft þær afleiðingar, að salan minnkaði þegar í stað. Ef hún hefir ekki vaxið, þá er það bersýnilegt, að andúð sú, sem vaknaði gegn samsölunni þegar í upphafi, hefir haft sín áhrif, og þau áhrif hljóta að haldast enn þann dag í dag.

Hvort neyzlan hefir minnkað eftir að mjólkurverkfallið skall á, er ekki gott að segja um, en það er ekki ólíklegt, að fjöldi manna hafi minnkað sína mjólkurneyzlu, en svo mun hinsvegar töluverður hópur manna hafa aukið sína neyzlu, svo að það mun að líkindum hafa vegið nokkurn veginn hvað á móti öðru. En þó hygg ég, að tölur mjólkursamsölunnar sýni, að mjólkursalan hafi minnkað eftir 25. febrúar. Ennfremur er það kunnugt, að samsalan hefir ákveðið að fara í skaðabótamál út af undirróðri fyrir minnkaðri mjólkurneyzlu. Vitanlega hlýtur sú málshöfðun að byggjast á því, að mjólkurneyzlan hafi minnkað hér í bænum, því að annars gæti ekki verið um neinar skaðabætur að ræða. En hitt hefir verið trú manna, að mjólkurneyzlan í Rvík hafi verið meiri en sala á mjólk síðan samsalan hófst bendir til. Eftir þeirri uppgerð að dæma lítur út fyrir, að mjólkurneyzlan hafi verið1/2 lítri á mann hvern dag, en það er minni mjólkurneyzla en talin hefir verið eðlileg, því að a. m. k. 2/3 lítra á mann daglega hefir verið talin sæmilega viðunandi mjólkurneyzla.