16.11.1935
Neðri deild: 75. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (3574)

45. mál, barnavernd

Garðar Þorsteinsson:

Með því að hv. 2. þm. Reykv., frsm. n., er ekki til staðar, skal ég geta þess, að frv. þetta var sent til ýmsra barnaverndarnefnda og barnaverndarráðs, og höfðu allshn. aðeins borizt svör frá fáum nefndum til baka. Hinsvegar má gera ráð fyrir, að það sé bæði eðlilegt og réttmætt, að þessum lögum um barnavernd sé að einhverju leyti breytt. En n. var sammála um, að ef það ætti að gerast, þá stæði hún ekki vel að vígi, þar sem upplýsingar og umsagnir frá ýmsum barnaverndarnefndum væru enn ókomnar. Allshn. varð því sammála um að afgr. þetta frv. með rökst. dagskrá og fela ríkisstj. að afla þeirra upplýsinga um málið, sem n. var ekki búin að fá, og undirbúa afgreiðslu þess.