16.11.1935
Neðri deild: 75. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (3575)

45. mál, barnavernd

Sigurðar Einarsson:

Þar sem till. hefir komið frá hv. allshn. um að afgr. þetta frv. með rökst. dagskrá, get ég ekki látið hjá líða að víkja að því nokkrum orðum. Ég get út af fyrir sig sætt mig allvel við það, að frv. sé vísað til stj. með þeim rökstuðningi, að ætlazt er til, að tekið verði á málinu. Og það, sem gerir það að verkum, að ég get nú sætt mig við þetta, er það, að nú liggur fyrir þessu þingi frv. um fátækraframfærslu, sem taka verður tillit til og snertir þetta barnaverndarfrv. En það frv. var samið áður en fátækralagafrv. kom fram. Tel ég heppilegra, að Alþingi afgr. fátækralagafrv. á undan hinu.

Hinsvegar vil ég benda á, að það er hin mesta þörf á að endurskoða barnaverndarlögin. Ég er kominn að þeirri niðurstöðu, að þau komi að sáralitlu gagni eins og þau nú eru framkvæmd. M. a. skal ég geta þess, að það er ekki séð fyrir neinum tekjum til framkvæmda þeim málum, sem barnaverndarráðin hafa með höndum, og hafa þau sífellt átt undir högg að sækja með það, enda þótt þau þurfi nauðsynlega á talsverðu fé að halda. Síðan ég kom í fjvn. hefir ekki verið tekið greiðlega í það af n. að veita fé í fjárl. í þessu augnamiði. M. ö. o. hafa engin föst fjárframlög verið áætluð til þessara hluta. Og vitanlega bitnar það svo á börnunum, sem barnaverndarlögin eiga að koma að haldi. - En þar sem fyrir liggur endurskoðun á framfærslulögunum og taka verður tillit til þeirra á ýmsan hátt, þá get ég fallizt á, að þessu frv. verði vísað til stjórnarinnar.