31.10.1935
Neðri deild: 61. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í C-deild Alþingistíðinda. (3580)

148. mál, útflutningsgjald

Jónas Guðmundsson:

Mér þykir furðu gegna, að slíkt frv. sem þetta skuli koma fram hér á Alþ. Á síðasta þingi var gott samkomulag um að setja þennan iðnað, sem er að rísa upp hér í landinu, fiskimjölsiðnaðinn, á bekk með öðrum iðngreinum, sem áskilin voru þau fríðindi að veita þeim nokkra vernd. Um þau rök, sem hv. þm. Borgf. færir fram í grg. frv., er það að segja, að þar er gengið algerlega framhjá því, sem er meginatriðið í þessu máli, nfl. hvernig stendur á því, að menn fá ekki hærra verð fyrir þau hráefni, sem hér koma til greina, en raun hefir á orðið, ekki eins hátt verð og t. d. í fyrra. Það er sem sé ekki minnzt með einu orði í grg. frv. á þá gífurlegu verðlækkun, sem orðin er á þessum vörum á heimsmarkaðinum. Það ætti hv. þm. Borgf. að eiga mjög hægt með að ganga úr skugga um, að einmitt þessi vara, fiskimjöl, hefir stórkostlega fallið í verði frá því í fyrra. Í þessu liggur það fyrst og fremst, að verksmiðjurnar hafa ekki getað gefið eins hátt verð fyrir þessar afurðir nú og í fyrra. Samt sem áður virðist hafa verið unnið 700 tonnum meira af þessu mjöli í landinu nú en búið var á sama tíma í fyrra, og það þrátt fyrir það, að vertíðin miklum hluta landsins hefir á þessu ári verið margfalt lélegri en í fyrra. Það vita sem sé allir, að útgerðin hefir brugðizt á Austfjörðum og Norðurlandi á þessu ári og því ekki getað framleitt hráefni á borð við það, sem hún gerði áður. Samt hefir verið unnið 700 tonnum meira af fiskimjöli í landinu heldur en búið var á sama tíma í fyrra.

Ég vil ekki gerast meinsmaður þess, að frv. þetta komist til sjútvn. og verði athugað þar. Mér finnst rétt að sýna því þann sóma, fyrst það er komið inn á þing. En ég vil alvarlega undirstrika það, að það er mjög hættulegt, ef á næsta þingi eftir að þessum iðnaði hefir verið sýnd af Alþ. sú viðurkenning að reyna að halda honum innanlands, á svo að fara að rísa upp og breyta þessum ákvæðum, sem sett voru til verndar þessum iðnaði. Sérstaklega er það óviðkunnanlegt að hætta að reyna að vinna á móti því, að þessi hráefni fari óunnin út úr landinu, þegar það er vitað, að verðlækkun á þessum hráefnum stafar eingöngu af verðfalli á fiskimjöli á heimsmarkaðinum. Hinsvegar vitum við ekki um það, hvaða verð Norðmenn setja á þetta hráefni framvegis.

Ég vil benda á það, að fyrir þetta hráefni, sem selt var út úr landinu og er rúml. 1000 tonn, hafa fengizt 120 þús. kr. Ef úr þessu hráefni hefði verið unnið mjöl í landinu, þá hefði fengizt fyrir það 230 þús. kr. sem mjöl. Svo að það, hvað þjóðin hefir skaðazt á að selja þetta hráefni út úr landinu óunnið, ætti út af fyrir sig að vera næg ástæða til þess að banna bókstaflega útflutning á þessu hráefni. Það er önnur leið til til þess að tryggja sannvirði fyrir hráefni þetta, og hún er að láta íslenzku verksmiðjurnar vinna úr því. Ríkisverksmiðjurnar hafa ekkert að gera mikinn hluta ársins. Þær hafa öll tæki til þess að vinna mjöl úr þessu hráefni. Hvers vegna á þá að láta þær standa tómar og fólkið vera atvinnulaust og láta þetta hráefni fara út úr landinu handa öðrum þjóðum til þess að skapa sér verðmæti úr því?

Það er ekkert launungarmál, hvað fæst fyrir fiskimjöl á erlendum markaði. Og það má alveg eins fá sannvirði þessa hráefnis á erlendum markaði með því að vinna úr því mjöl eins og með því að selja það óunnið út úr landinu. Það væri að mínu áliti langtum nær að banna útflutning á því heldur en að afnema tollhækkunina, sem á því var gerð í fyrra.