31.10.1935
Neðri deild: 61. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í C-deild Alþingistíðinda. (3581)

148. mál, útflutningsgjald

Flm. (Pétur Ottesen) [óyfirl.]:

Því hefir verið skolið að mér, að vegna sérstakra kringumstæðna væri æskilegt, að þessum þingfundi lyki fljótt. Skal ég verða við tilmælum um að lengja ekki til muna umr. um þetta mál. Það verður vitanlega tækifæri til að fara inn á að ræða þær hliðar málsins, sem hv. 6. landsk. gerði að umtalsefni, við síðari umr. málsins. En í sambandi við það, sem hv. þm. talaði um, að í grg. frv. hefði verið gengið framhjá því að geta um það verðfall á fiskimjöli, sem orðið er á heimsmarkaðinum, vil ég aðeins benda á, að sú verðlækkun hefir þá eins hitt þá Norðmenn, sem keypt hafa þetta hráefni, eins og okkur Íslendinga. En þrátt fyrir það treystu Norðmenn sér til að borga svo miklu hærra verð fyrir það en íslenzku verksmiðjurnar. Hér kemur fram svo óeðlilega mikill verðmunur í tilboðum þeirra útlendu kaupmanna, sem keypt hafa þetta hráefni hér, og tilboðum íslenzku verksmiðjanna, að við það er alls ekki hlítandi að vernda þessa atvinnu, íslenzku fiskimjölsvinnsluna, með svo geigvænlegum tolli, sem lagður var á þennan hráefnaútflutning á síðasta þingi.