28.11.1935
Neðri deild: 85. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (3587)

148. mál, útflutningsgjald

Sigurður Kristjánsson:

Það er aðeins örlítið, sem ég þarf að segja í sambandi við þetta mál. Mér þykir sennilegt, að það komi mörgum á óvart, að ég sé með því að viðhalda hinum háa tolli á fiskbeinum. Það er orðið mörgum kunnugt, að ég tel, að útflutningsgjald af ísl. afurðum eigi sér ekki neina stoð í skynsamlegu viti. Og þessi skoðun mín er alveg óbreytt. En ástæðan til þess, að ég hefi verið með í þeim meiri hl. sjútvn., sem borið hefir fram rökst. dagskrá í málinu, er sú, að þessi l. eru ákaflega ung, ekki ársgömul, og það er þræta um það, hvort það muni vera eigendur þessarar útflutningsvöru eða kaupendur hennar, sem borga þennan skatt. Og sú spurning er frá mínu sjónarmiði ekki ennþá leyst. Mín afstaða er sú, að ef eigendur þessarar vöru greiði í raun og veru þennan skatt, þ. e. a. s. ef tollurinn lækkar útflutningsvöruna um sömu upphæð og hann er ákveðinn, þá álít ég, að hann eigi alveg að hverfa. En ef tollurinn yrði lækkaður niður í 10 eða 15 kr. á smálest, þá yrði það kannske til þess, að hann sæti í því fari í fjöldamörg ár. Ég vildi þess vegna enga miðlun í málinu, heldur vildi ég afla mér sæmilegra upplýsinga, og ef þær færðu mér sannanir fyrir því, að þetta útflutningsgjald sé í raun og veru greitt af eigendum vörunnar, þá verður það auðvitað mín krafa, að tollurinn hverfi alveg, því þá á hann enga stoð.

Ég veit, að það kemur ekki til neinnar sölu á þessari vöru þangað til næsta þing kemur saman, og þess vegna er það öllum að skaðlausu, þó málinu sé slegið á frest. Og enda þótt það sé talsvert mikið notað að ófrægja menn fyrir afstöðu, sem þeir taka til mála, og að ég geti búizt við því, að ég sé ekki í hagstæðu ljósi í þessu máli, þá ætla ég samt að treysta á það, að ég muni hafa svo mikla tiltrú, að ég falli ekki á tortryggni manna. En mér þótti rétt, áður en málið kom til atkv., að gera grein fyrir afstöðu minni, og hún er þessi, sem ég hefi nú lýst.