28.11.1935
Neðri deild: 85. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (3588)

148. mál, útflutningsgjald

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég hefi furðað mig á því fyrst og fremst, að till. um að fella niður þennan toll skuli hafa komið fram hér, og í annan stað á því, hvað sá hluti sjútvn., sem er á móti því, að þær verði samþ., virðist linur í sókninni, og á þessu verð ég að fá skýringu áður en gengið er til atkv. Mér finnst málið liggja þannig fyrir, að það sé augljóst, að það sé bókstaflega ekkert vit í því að fella niður þennan toll, eftir þeim upplýsingum, sem fram hafa komið.

Hv. meðmælendur frv. eru ekki alveg sammála í sínum rökfærslum. Hv. 3. landsk. sagði, að það ættu sér stað einhver samtök milli eigenda íslenzku fiskmjölsverksmiðjanna og hinna norsku kaupenda beinanna um að kaupa beinin fyrir sama verð, og er það í sjálfu sér ekki óeðlilegt, að í það horf færist. En hinsvegar sagði hv. þm. Borgf., að Norðmenn hefðu keypt beinin á 130 kr. tonnið á sama tíma og innlendu verksmiðjurnar keyptu þau fyrir 90 til 100 kr. og allt niður í 75 kr. Ef þetta er rétt, er augljóst, að norsku kaupendurnir þola vel þennan toll, og það er engin skynsamleg ástæða til að álíta, að þó tollurinn væri færður niður, þá færu þeir ótilneyddir að kaupa beinin ennþá hærra verði. Ef Norðmenn eru svo vel samkeppnisfærir að geta gefið allt að 130 kr. fyrir tonnið af beinunum, þá hljóta hinir að fá lítið af þeim, sem þurfa að kaupa þau á 75-100 kr. Hvers vegna skyldu þeir þá fara að hækka verðið enn meira, þó tollurinn væri felldur niður? Mér finnst bókstaflega málið liggja þannig fyrir, að það sé hreint ekkert vit í þeirri uppástungu, að fella gjaldið niður, þó ekki væri fyrir aðra sök en þá, að með því er slegið hendinni af tekjum í ríkissjóð; þó stórkostlegar séu þær að vísu ekki, þá er það það, sem það er, og ríkissjóði veitir víst ekki af sínu, skilst mér.

Ef ég fæ ekki skýrari rök fyrir nauðsyn þess að fella niður þennan toll, þá er augljóst, að ég verð, eftir því áliti, sem ég hefi getað myndað mér af umr. þeim, sem hér hafa farið fram, og öðrum upplýsingum, sem ég hefi fengið, að greiða hiklaust atkv. á móti frv.