28.11.1935
Neðri deild: 85. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í C-deild Alþingistíðinda. (3590)

148. mál, útflutningsgjald

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Hv. 3. þm. Reykv. færði þetta mál eiginlega inn á nýja braut, fór að tala um, að þessi tollur, 30 kr. af hverri smálest af útfluttum beinum, gæfi drjúgar tekjur í ríkissjóð, og þar sem ríkissjóður væri tekjuþurfi, mætti ekki skera þá tekjuvon niður. Ég skal fyllilega viðurkenna, að þarna getur verið um talsverðan tekjustofn að ræða fyrir ríkissjóð, því ég ætla, að með því magni af beinum, sem skýrslur liggja fyrir um, þá geti tollurinn numið 250 þús. kr., ef hann er 30 kr. á smálest og ef öll beinin væru flutt út óunnin. En það er nú svo, þegar um er að ræða tekjuöflun í ríkissjóð, að málið hefir ætíð tvær hliðar, aðra, sem veit að ríkissjóði, og hina, sem veit að gjaldendunum. Og ég hélt, að hv. 3. þm. Reykv. hefði fullan skilning á því, að það eru takmörk fyrir, hvað hægt er að seilast langt niður í vasa gjaldendanna. Þegar farið er að ganga eins langt og hér, að taka 1/3 af verði vörunnar í ríkissjóð, þá ætti honum eins og öðrum að þykja of langt gengið. Þegar miðað er við það verð, sem innlendu verksmiðjurnar greiða, þá nemur þessi 30 kr. tollur allt að 1/3 af verði vörunnar. Þegar litið er á þær skoðanir, sem hv. 3. þm. Reykv. hefir réttilega haldið fram í öðrum tilfellum, þegar átt hefir eins og hér að ganga of nærri einstaklingunum til þess að krefja skatta inn í ríkissjóð, þá finnst mér þær stangast svo hrottalega við afstöðu hans nú, að ég veit ekki, hvar hv. þm. hefir þau bein, að þola slíkan árekstur.

Ég upplýsti það í því, sem ég hefi áður sagt um þetta mál, að það er nú svo komið hjá ýmsum vélbátum, sem afla um og yfir meðallag og geta sætt beztu sölu á beinum, að það, sem þeir fá fyrir beinin, er orðinn það mikill þáttur í framleiðslutekjum þeirra, að þeir hafa þar af talsverðan stuðning í útgerðinni. Þegar svo langt er gengið að heimta þriðjung af andvirði þessa hluta framleiðslunnar, sem er miklu lengra gengið heldur en Alþingi hefir nokkru sinni gengið og hægt er að ganga, þá er vitanlega mjög skertur sá stuðningur. Það getur jafnvel leitt til þess, að hætt verði að hirða þessa vöru og henni kastað, eins og áður var gert að miklu leyti. Þá missa ekki aðeins sjómenn og útgerðarmenn sitt verðmæti, heldur missir ríkissjóður líka þær tekjur, sem hann annars getur krækt þarna í, því eins og málið liggur nú fyrir n. og ég hefi gengið inn á, þá á að haldast áfram 10 kr. gjald af hverri smálest af útfluttum beinum.

Þetta er sú hliðin, sem að ríkissjóði snýr og þeim, sem beinin selja. En þá er hin hliðin, sem notuð hefir verið sem grundvöllur undir þessa lagasetningu, sem sé verndun þeirrar iðngreinar hér í landinu, sem hér á hlut að máli, fiskmjölsiðnaðarins. Ég sé ekki, að það sé fært að ganga lengra á móts við fiskmjölsverksmiðjurnar þeim til verndar, ef annars þykir rétt að gera nokkuð í því efni, heldur en að heimila þennan 10 kr. skatt á smálest. Ég held, að það sé nógu langt gengið til þess að jafna aðstöðumun þessa innlenda iðnaðar og hinna erlendu keppinauta, ef hann á annað borð hefir skilyrði til þess að gera þessa vöru verðmæta án þess að taka allt of mikið af hinu raunverulega verðmæti hennar til sín.

Hv. 3. þm. Reykv. þótti meiri hl. sjútvn. linur í sókninni í þessu máli. Hvers vegna eru þeir linir í sókninni, þessir fulltrúar sjávarútvegsmanna, þegar þeir vilja viðhalda því óskaplega ranglæti, sem ofan á varð að fremja hér á síðasta Alþingi, að taka allt að 1/3 af verðmæti einnar af framleiðsluvörum sjávarútvegsins sem toll í ríkissjóð? Ætli það hreyfi sér ekki sú hugsun hjá sumum þeirra, að þeir standi hér fyrir röngum málstað, sem þeim gangi illa að verja fyrir sínum umbjóðendum? Skýrasta sönnunin fyrir því voru einmitt þau rök, sem jafnrökfimur maður og hv. 6. þm. Reykv. bar hér fram fyrir sinni aðstöðu. Þau sýndu, hve ómöguleg er aðstaða meiri hl. sjútvn., sem ber skylda til að bera hag sjávarútvegsins fyrir brjósti og verja hann fyrir ágangi ríkisvaldsins, þegar það vill hrifsa til sín mikinn hluta af andvirði einnar framleiðsluvöru hans. Þessi vondi málstaður og vonda samvizka gerir það að verkum, að þeir, sem hv. 3. þm. Reykv. þykir linir í sókninni, vilja sem minnst tala um þetta mál, sem þeir treysta sér ekki til að verja fyrir sjómönnunum, sem þeir eiga að vinna fyrir. Þeir kinoka sér við að gerast mjög harðir málsvarar þessa iðnrekstrar, sem ekki virðist eiga meiri tilverurétt en það, að hann getur ekki starfað á þeim grundvelli að gera sem mest verðmæti úr hráefninu fyrir framleiðendur þess, eða sambærilegt við það, sem þeir geta fengið fyrir það annarsstaðar. Það má e. t. v. skilja ummæli hv. 3. þm. Reykv. svo, að hann sé ekki eins viðkvæmur fyrir þörfum fátækra sjómanna og útvegsmanna, sem þessi skattálagning lendir á, og verði þess vegna skeleggari en meiri hl. sjútvn. í baráttunni.

Ég skal ekki að svo stöddu fara inn á það plagg, sem forstöðumaður fiskmjölsverksmiðjunnar hér í Reykjavík hefir lagt fyrir sjútvn., eða þá aðferð yfirleitt, sem forsvarsmenn verksmiðjanna hafa haft við sinn málflutning, þó ástæða hefði verið til þess. Getur verið, að ég geri það í blaðagrein, í tilefni af því, hvernig tekið hefir verið á móti þessu frv. um lækkun beinaskattsins í blaðaumræðum; ég á þar ýmsu ósvarað, og það er ýmislegt þess vert í málsvörn andstæðinga málsins, að það sé dregið fram í dagsljósið. Eins væri full ástæða til að athuga þau rök, sem forseti Fiskifél. flytur í bréfi til sjútvn. fyrir því, að þetta frv. eigi að samþ. Fiskifél. er, eins og menn vita, allsherjarfélagsskapur allra sjávarútvegsmanna í landinu, og út frá því sjónarmiði er þetta bréf skrifað með fullri sanngirni, líka gagnvart fiskmjölsverksmiðjunum. En ég ætla ekki heldur, nema frekara tilefni gefist til, að fara út í afstöðu þessa fulltrúa sjávarútvegsins í heild í þessu máli.