02.12.1935
Neðri deild: 88. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í C-deild Alþingistíðinda. (3595)

148. mál, útflutningsgjald

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég kvaddi mér áður hljóðs í því skyni, að mér mætti auðnast að fá frekari upplýsingar hjá hv. flm. frv. eða hv. minni hl. sjútvn. - upplýsingar, sem gætu sannfært mig um, að eiginlega væri nokkurt vit í þeim kröfum, sem gerðar eru í frv. um afnám þessa útflutningsgjalds. Ég verð að játa, að ég er jafnnær eftir það, sem hv. flm. hefir látið frá sér heyra. Hv. þm. Borgf., flm. frv., talaði að vísu um það, að það ættu að vera takmörk fyrir því, hversu langt væri seilzt ofan í vasa gjaldendanna í þessu tilfelli, og get ég auðvitað fallizt á það. En að mínu áliti er það þó aðallega bundið við innlenda gjaldendur, íslenzka þegna. Hitt virðist mér skipta minna máli, þótt farið sé eftir föngum ofan í vasa erlendra gjaldenda, sem reyna að afla sér fjár hér á landi. Ég hélt því fram, og geri það enn, að afnám þessa vörugjalds væri í rauninni ekkert annað en eftirgjöf gjaldsins til þeirra útlendinga, sem kaupa þessar vörur. Innlendir framleiðendur mundu ekki fá neitt meira fyrir vörur sínar eftir en áður, og hv. flm. frv. og hv. minni hl. n. hafa í rauninni ekkert gert til þess að sýna fram á, að líklegt væri, að öðruvísi fari. Mér er sagt, að það sé aðallega um tvo kaupendur að þessari vöru að ræða erlendis. Nú tala hv. andmælendur þessa útflutningsgjalds um það, að þessir útlendu kaupendur hafi gert samtök við innlenda kaupendur um verðlag og kaup fyrir sama verð. Raunar segir hv. flm. frv., að útlendingar hafi keypt þessa vöru fyrir hærra verð, en mér skilst, að hv. minni hl. sjútvn. hafi ekki fengið nein gögn fyrir því, að svo sé. En hvort heldur sem er, þá er engin ástæða til að álíta, að afnám skattsins hefði það í för með sér, að útlendir kaupendur hættu að geta gert samkomulag við innlendu kaupendurna um verðið. Sú samkeppni, sem hér um ræðir, er aðallega á milli innlendra og útlendra kaupenda, og ef því er slegið föstu, að þeir muni gera samkomulag sín á milli um verð, þá er augljóst, að verði útflutningsgjald þessarar vöru afnumið, þá verður útkoman á þessu sú, að það er sama og þessum erlendu kaupendum sé gefið þetta gjald, að þeim séu gefnar þessar 20 krónur. Mér er óskiljanlegur sá hugsunargangur þeirra hv. þm., sem telja sjálfsagt að fella þetta gjald niður. Það er allt öðru máli að gegna með útflutningsgjald af öðrum almennum afurðum okkar, því að það er yfirleitt nokkurn veginn tryggur markaður fyrir þær erlendis, og þar kemst samkeppnin að, en því er ekki til að dreifa í því tilfelli, sem hér um ræðir.

Hv. þm. Borgf. sagðist hafa hin og þessi plögg, sem styddu sinn málstað, og tilfærði bann í því sambandi umsögn forseta Fiskifél. Íslands. Ég minnist þess ekki, að þessi maður hafi hingað til verið mikið átrúnaðargoð hv. þm., en ég vil hinsvegar ekki lítið úr þessu gera, en meðan ekkert er látið uppi um, hvaða rök hann hafi fram að færa, þá get ég vitanlega ekki tekið þau til greina. (PO: Þau eru hér). Annars veit ég ekki betur en að hv. n. hafi fengið umsagnir úr fleiri áttum, og væri eðlilegt, að þær væru látnar fylgjast að, og færi vel á því, að hv. n. birti þetta með áliti sínu.

Ég leyfi mér að mótmæla því, að hér sé um hagsmunamál að ræða fyrir íslenzka framleiðendur yfirleitt. Hitt þykist ég hafa hugmynd um, að einstakir menn á meðal þessara framleiðenda, sem hér eiga hagsmuna að gæta, umboðsmenn erlendra kaupenda þessarar vörutegundar, fái drjúgan skilding í þóknun fyrir þessa umboðsmennsku sína, og er þá auðskilið, að þeir sjái eftir þeim tekjum, sem þeir hafa aflað sér með þessu móti. En þessu má ekki rugla saman við almenna hagsmuni manna í þessu efni, því að það verður að taka meira til greina innlenda hagsmuni, sem eru bundnir við það, að þetta efni, sem hér um ræðir, sé kyrrt í landinu, svo að þessi starfsemi, sem komið hefir verið á fót á þessu sviði, geti haldið áfram og mikið meira fáist þannig upp úr þessari vöru en við það að flytja hráefnin óunnin út úr landinu, og vil ég í því sambandi vísa til þess, sem hv. 6. landsk. sagði um þetta atriði, því að hann er manna kunnugastur þessum málum. Ég get fúslega játað, að ég er ekki vel kunnugur þessum málum, en ég hefi aðeins krafizt rökstuðnings þeirra manna, sem vilja fella niður þetta gjald, sem hér um ræðir, en sá rökstuðningur hefir ekki enn komið fram.