02.12.1935
Neðri deild: 88. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í C-deild Alþingistíðinda. (3598)

148. mál, útflutningsgjald

Frsm. minni hl. (Páll Þorbjörnsson):

Þeir hafa rembzt við það, hv. 3. þm. Reykv. og hv. 6. landsk., að sannfæra hv. d. um, að það væru eingöngu norsku kaupendurnir, en ekki íslenzkir sjómenn, sem yrðu að bera þungann af þeim svívirðingartolli, sem lagður er á þessa vöru Hv. 6. landsk. var með reikninga og rökstuðning í sambandi við þetta, og hjó ég sérstaklega eftir því, sem hann sagði um 90 kr. verðlækkun, sem orðið hefði á hverju tonni af fiskmjöli frá því í fyrra, og helminginn af þessu verðfalli sagði hann, að eigendur beinanna hefðu orðið að taka á sig, en hinar 45 krónurnar hefði orðið að taka af þeim ágóða, sem fiskmjölverksmiðjurnar hefðu haft. Vegna þess barlóms, sem hér var í fyrra um hag og gengi þessara verksmiðja, þá þykir mér þetta góð játning, að hagnaður verksmiðjanna skuli á undanförnum árum hafa verið svo góður, að þær gátu tekið á sig 45 kr. halla á hvert tonn.

Ég hefi, síðan þetta mál var síðast til umr., lítillega reynt að fá upplýsingar um það, í hvaða hlutfalli stendur verð á beinum. Niðurstaðan hefir orðið sú, að verð á fiskmjöli hefir lækkað um 19,3% frá því í fyrra, en beinin á innlendum markaði um 30%. Ég vil því spyrja þessa forsvarsmenn fiskmjölsframleiðenda, þá hv. 3. þm. Reykv. og hv. 6. landsk., hvernig standi á því, að bein á innlendum markaði eru felld um 30%, en mjölið ekki nema um 19,3%, ef það er ekki gert í skjóli þess, að hér hefir verið settur sá hæsti verndartollur, sem þekkist.

Hvað veldur þessu? Og hverjir ætli borgi þennan toll, aðrir en þeir, sem afhenda verksmiðjunum hráefnin? Ég vil, að hv. þdm. sé ljóst, að sá útreikningur, sem ég hefi gert á verðfallinu, hafi við rök að styðjast. Hefi ég stuðzt við heimildir frá Fiskifél. Íslands. 1934 hefir meðalverð á smálest af fiskmjölinu verið 310 kr. á þýzkum markaði, og nú er upplýst, að íslenzkar verksmiðjur, sem verzluðu við Þjóðverja, fengu 1935 250 kr. fyrir smálest. Einnig hefir hv. 6. landsk. upplýst, að 1934 hafi beinin verið keypt á bryggju í Keflavík fyrir 150 kr. tonnið, en í sumar á 105 kr. tn. Verðið á beinunum hefir því lækkað um 30% á sama tíma sem verð á mjölinu hefir ekki lækkað um nema 19,3%.

Ég hygg, að þetta sé nú nægilegt til að sanna, að rök þeirra hv. 3. þm. Reykv. og hv. 6. landsk. um, að þetta fé sé eingöngu tekið af Norðmönnum, en komi ekki niður á framleiðendunum sjálfum, eru ekkert annað en blekking.

Það var ýmislegt, sem kom fram í ræðu hv. 6. landsk., sem ástæða hefði verið til að fara út í, en ég má ekki vera að því, þar sem þetta er ekki nema aths.

Ég vil þó aðeins, áður en ég sezt niður, mótmæla þeirri staðhæfingu, að það mundi gefa 600 þús. kr. aukna valútu, ef beinin væru öll unnin í landinu. Það kann að vera, að þetta gæti staðizt, ef við gætum unnið kolin úr íslenzkri jörð. En ég hygg, að kolin hafi gleymzt og ýmislegt fleira, sem þarf að kaupa.