02.12.1935
Neðri deild: 88. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í C-deild Alþingistíðinda. (3599)

148. mál, útflutningsgjald

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki lengja umr.; þær eru nú þegar orðnar nokkuð langar. En mig undrar að heyra menn vera að deila um, hverjir borgi tollinn, hvort það séu innlendir framleiðendur eða erlendir kaupendur. Vitanlega eru það framleiðendurnir, sem tollinn borga. Hv. 6. landsk. talaði um, að það mætti sjá, að það væru kaupendurnir, sem borguðu tollinn, á því, að þeir greiddu 105 kr. fyrir tonnið hér á staðnum, eða sama verð og innlendu verksmiðjurnar greiddu. Þetta er vitanlega misskilningur. Verðið til framleiðenda er miðað við verðið á heimsmarkaðinum. Raunverulegt verð á heimsmarkaðinum er því hér 105 + 30 = 135 kr. Ég veit, að hv. 6. landsk. mun segja, að þó þessi tollur verði afnuminn, þá muni Norðmenn ekki greiða meira fyrir beinin til framleiðendanna en nú. Það má vel vera, að svo fari, en það er þá af því, að kaupendurnir taka sig saman um að greiða ekki heimsmarkaðsverð fyrir vöruna. Innlendir og erlendir kaupendur gefa þá ekki sannvirði fyrir vöruna. Ef íslenzkir fiskmjölsframleiðendur hafa ekki bolmagn til þess að kaupa með markaðsverði og gefa sama verð fyrir hráefnin og Norðmenn, þá er það vegna þess, að framleiðslan hjá þeim verður dýrari. Ef Norðmenn nota sér af því, eru það aðeins verzlunarhyggindi. En ef íslenzku verksmiðjurnar væru samkeppnisfærar, ætti verðið að vera 30 kr. hærra. Það leiðir af sjálfu sér. Ég geri auk þess ráð fyrir, að verðið á beinunum mundi hækka, ef tollurinn væri afnuminn. Norðmenn gætu með góðum hagnaði gefið ísl. framleiðendum hærra verð, ef þeir losnuðu við 30 kr. toll af hverju tn. Og ég tel ósannað nema 10 kr. tollur pr. tn. sé nægilegur til þess að tryggja ísl. framleiðsluna. En 30 kr. tollur er ekki annað en að halda verðinu 30 kr. undir sannvirði. Norðmenn mundu ekki borga 30 kr. hærra fyrir hvert tn. en Íslendingar, ef þeir hefðu ekki hagnað af því.

Einnig er það upplýst af hv. 6. landsk., að Norðmenn verði að greiða 50 kr. meira fyrir tn. Af því eru 20 kr. flutningsgjald og 30 kr. tollur. Ég vil í þessu sambandi minnast á útreikninga þessa hv. þm., án þess þó að geta nú hrakið tölulega einstaka liði. Einn liður hlýtur þó að vera rangur. Hv. 6. landsk. talaði um, að flutningsgjald á beinum til Noregs væri 20 kr. pr. tn., ef beinin eru tekin á hverri höfn. En þegar hv. þm. var að gera grein fyrir kostnaðinum við ísl. fiskmjölsframleiðsluna, taldi hann, að verksmiðjurnar þyrftu að borga 25 kr. pr. tn. fyrir að viða að sér beinunum. Ég get ekki skilið, að það þurfi að vera 5 kr. dýrara að flytja beinin af Austfjörðum til Norðfjarðar en alla leið til Noregs. Mitt reikningshöfuð grípur það ekki. Mér þykir það einkennilegt af þessum framkvæmdarstjóra verksmiðjunnar að ætla að telja mönnum trú um, að hann greiði 5 kr. meira fyrir flutningana af næstu höfnum til Norðfjarðar en Norðmenn þurfa að greiða til Noregs. Hv. þm. sagði, að aðstaða Norðmanna væri önnur; þeir greiddu lægri vinnulaun. En sá liður getur ekki réttlætt svona háa tollgreiðslu, vegna þess að þm. upplýsti, að vinnulaunin væru ekki nema 25 kr. á tn. Mismunur vinnulaunanna getur því engan veginn réttlætt 30 kr. toll. Þar verða að koma fram sterkari rök.

Hv. 6. landsk. upplýsti einnig, að í sumar hefði verð á beinum verið 105 kr. yfirleitt. Þó skýrði hv. þm. frá, að eitt „partí“ hefði selzt fyrir 135 kr. pr. tn. Sýnir þetta, að þegar samkeppni kemur í verzlunina, hækkar verðið. Ég fæ því ekki annað séð en dæmið, sem hv. þm. nefndi, sanni, að verðið á beinunum mundi hækka, ef tollurinn fellur niður eða lækkar. Að vísu er kaupþol Norðmanna ekki ótæmandi, en ísl. verksmiðjurnar ættu að geta verið samkeppnisfærar, þó að þær fái beinin ekki 30 kr. ódýrari.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta. Ég vildi aðeins benda á, að þær tölur, sem hv. 6. landsk. kom með, eru augsýnilega rangar. Að lokum skal ég taka það fram, að ég vil fallast á að styrkja ísl. beinaverksmiðjurnar, en ég tel ekki réttlátt, að framleiðendurnir sjálfir séu eingöngu látnir greiða þann styrk, heldur ætti að afnema útflutningsgjaldið af mjölinu, eða að ríkið styrkti þær beinlínis. Hitt er ekki sanngjarnt, að taka svona mikinn skatt af framleiðendunum, þó stuðla beri að því, að beinin verði unnin hér á landi. Hag verksmiðjanna verður að styðja á annan hátt en á kostnað framleiðendanna, svo að þær geti keypt fyrir sama verð og erlendir kaupendur gefa á sama tíma.