02.12.1935
Neðri deild: 88. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í C-deild Alþingistíðinda. (3603)

148. mál, útflutningsgjald

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Það var bara út af skýringu hv. 3. þm. Reykv. á orðum forseta Fiskifél. Íslands. Hv. þm. sagði, að með þeirri skýrslu mótmælti hann því, sem hann vildi sanna. Það, sem forseti Fiskifél. bendir hér á. er (með hliðsjón af þeim till., sem hv. 6. landsk. kom fram með í fyrra og fyrir lágu á síðasta þingi), að ef skatturinn af beinaútflutningnum verður hafður svo hár, að með honum verði Norðmenn, eða þeir, sem vilja kaupa hér þetta hráefni, útilokaðir frá því að geta það, þá verði innlendu verksmiðjurnar einvaldar um verðið á þessu hráefni. Og þá er hinn rétti grundvöllur fenginn undir þá niðurstöðu, sem hann kemst að og dregur af þessu. Þessi málflutningur hv. 3. þm. Reykv. er því ekkert annað en rangfærsla á orðum forseta Fiskifél. Ísl. Og því fremur er þessi rangfærsla ógeðsleg, sem hér á utanþingsmaður í hlut.

Ég sé, að hæstv. forseti er með ritblýið á lofti, til merkis um, að nú sé nóg komið. Ég vænti þess, að hv. 8. landsk. reki tilhlýðilega staðleysur hv. 6. landsk. ofan í þann hv. þm., því að hann (8. landsk.) er þó enn óheftur í þessu máli. En ég held, að við höfum sýnt fram á, að þessar tölur, sem hv. 6. landsk. hefir lesið hér upp, geti ekki samrýmzt. Því að hv. 6. landsk. segir í öðru orðinu, að verksmiðjurnar hafi verið færar um að draga af ágóða 45 kr. skaða á tonn, sem þær hafi orðið fyrir í sambandi við afurðasöluna, en í hinu orðinu segir hann, að þær hafi ekki einu sinni haft 10 kr. á tonn til að hlaupa upp á. Þessi tölulestur er á sinn hátt líkastur því, þegar stangast stórhyrndir bálvondir hrútar.