02.12.1935
Neðri deild: 88. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í C-deild Alþingistíðinda. (3605)

148. mál, útflutningsgjald

Jakob Möller [óyfirl.]:

Hv. þm. Borgf. var eitthvað að gefa það í skyn, að ég hefði snúið út úr ummælum forseta Fiskifél. En ég las ummælin orðrétt upp úr umsögn forsetans. Og ég geri ráð fyrir, að sá maður hafi þekkingu á þessum hlutum. Ef hv. þm. Borgf. vill véfengja, að ég hafi farið rétt með, þá gæti ég slegið þessu upp aftur. En slíkt er auðvitað óþarfi.

Það er ljóst af orðum forsetans, að hann gerir ráð fyrir mismunandi orsökum til verðlækkunar á beinunum. Ein af þessum mismunandi orsökum eru samtök innlendu verksmiðjanna, sem byggist á því, að það er viðurkennt, að það verðlag, sem innlendu verksmiðjurnar gefa fyrir hráefnið, ræður því, hvaða verð Norðmenn gefa fyrir þessa vöru.

Í síðari ræðu sinni undirstrikaði hv. 8. landsk. það enn betur, hvaða skoðun hann hefði á þessu. Hann kvað þá enn sterkar að orði, þar sem hann gerði ráð fyrir, að Norðmenn borguðu ekki meira en þeir þyrftu til þess að geta fengið beinin. En áður var hann að tala um, að Norðmenn borguðu eitthvað af náð og miskunn til ísl. framleiðenda.

Markaðsverð er það verð, sem borgað er fyrir vöruna innanlands. En heimsmarkaður er ekki til á þessari vöru; það er aðeins misskilningur hjá hv. 8. landsk. Noregur er eina landið, sem kaupir þessa vöru af okkur, og þar eru meira að segja ekki nema tvö firmu, sem kaupa vöruna. Hvernig á svo að tala um heimsmarkað fyrir slíka vöru. Ræður hv. 8. landsk. um heimsmarkað fyrir þessa vöru sýna fyrst og fremst hans lélega málstað. Það sýnir líka hans veika málstað, að hann fer að bera þetta saman við útflutningsgjald af saltfiski, sem markaður er fyrir í mörgum löndum og er almenn neyzluvara heilla þjóða. Það er ekki hægt að bera saman þessar tvær vörutegundir. Það er virkilega hægt að tala um heimsmarkað fyrir saltfisk. En engu hliðstæðu er til að dreifa um fiskmjölið. Það vita allir hv. þm.

Þá endurtók hv. 8. landsk., að það gæti ekki náð neinni átt, að flutningsgjöld gætu verið hærri á beinum hér á milli hafna heldur en héðan og til Noregs. En við, sem erum á móti afnámi tollsins, höfum útskýrt, í hverju þetta liggur, og þarf ekki að endurtaka það hér ennþá einu sinni. Ég býst nú við, að hv. 8. landsk., eins og margra málfærslumanna er síður í réttinum, standi nú upp og segi: Ég mótmæli því, sem andmælandi minn hefir sagt. En ég býst ekki við rökum.