19.11.1935
Efri deild: 73. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í C-deild Alþingistíðinda. (3615)

180. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Flm. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Það væri í sjálfu sér alveg heilbrigð stefna, þegar settar eru upp ríkisstofnanir, að láta þær bera sömu skatta og einkafyrirtæki. Þá fyrst kæmi það reikningslega skýrt fram, hvernig fyrirtækin bera sig. Það má að vísu segja t. d. um tekjuskattinn, að það hafi ekki nema aðeins reikningslega þýðingu, þar sem hvorttveggja rennur í sama vasann, en væri þó rétt, til þess að sjá, hvernig fyrirtækin bera sig.

En það verður að játa, að það er erfitt að koma þessu í kring, vegna þeirra breyttu hátta, sem verða við það, að þetta er tekið á eina hönd. Vafalaust mætti þó finna sanngjarna leið, sem gæfi tilsvarandi skattgreiðslu og einkafyrirtækin.

En það er ekki þessi hlið málsins, sem ég ætla að ræða í sambandi við þetta frv., heldur sá liður skattgreiðslunnar, sem hefir raunverulega þýðingu, en það er aukaútsvarið, sem er aðaltekjustofn bæjarfélaganna.

Það er augljóst mál, að koma má bæjarfélögunum á vonarvöl með því að taka fleiri og fleiri vörur í einkasölur og gera svo að segja skattfrjálsar. Með því eru tekjustofnar teknir af bæjarfélögum og afhentir ríkinu. Þetta var gert með lögunum frá 4. júní 1924. Má vera, að þegar þessi lög voru sett, þá hafi mönnum ekki verið ljóst, að svona myndi fara. Og ekki ósennilegt, að 5% gjaldið þá hafi verið hlutfallslega svipað því, sem hér er lagt til í frv. mínu. Þá var útsvarsstiginn allt annar en nú og útsvörin miklu lægri. En hvorugt kemst nærri því, sem greiðast myndi, ef lagt væri útsvar á eftir sömu reglum og gildir um aðra.

Þegar 5% gjaldið var ákveðið 1924, voru hér aðeins tvær ríkisverzlanir: Vínverzlunin, sem allir voru sammála um, og tóbakseinkasalan, sem mjög var deilt um. En hin síðari ár hafa bætzt við fleiri slíkar ríkisverzlanir: viðtækjaverzlun, rafmagnseinkasala, einkasala á efnagerðavörum og bílaeinkasala. Og eftir margendurteknum yfirlýsingum stjórnarflokkanna á Alþingi og í blöðum eru þessar einkasölur aðeins áfangar á þeirri braut, sem farin verður, ef sömu flokkar fara áfram með völd í landinu. Hér er því komið inn á braut, sem er algert drep fyrir bæjarfélögin, ef gjald þessara ríkisstofnana er sett of lágt.

Þessu næst er rétt að athuga, hver munur er á 5% skattgreiðslu ríkisstofnana og útsvarsgreiðslu einstaklinga. Ég mun leggja til grundvallar útsvarsgreiðslu í Reykjavík; útkoman yrði enn óhagstæðari fyrir ríkisstofnanirnar, ef aðrir kaupstaðir væru einnig teknir með.

Útsvör á fyrirtæki eru fyrst og fremst reiknuð eftir föstum skattstiga. Auk þess greiða þau umsetningargjald, án tillits til gróða eða taps. Þetta umsetningargjald hefir ekki verið birt, en er mjög mismunandi. Ég hygg, að eigi muni fjarri að áætla gjaldið af vín- og tóbaksverzlun 1-2%, því þar er um stórfellda álagningu að ræða. Umsetningargjöld þessara verzlana yrðu því um 10-20 þús. Ég tek til varúðar lægstu upphæðina. Útkoman verður þá þessi: Með 5% gjaldinu nú greiðir hún frá kr. 18600 til kr. 25000. Sé miðað við 25 þús., sýnir það 1/2 millj. kr. ágóða. Hugsum okkur, að 5 einkafyrirtæki hefðu vínverzlunina með höndum. Kæmi þá um 100 þús. kr. gróði á hvert fyrirtæki. Hvert þessara fyrirtækja yrði að greiða í útsvar: 5510 kr. af 25 þús. kr. og 40% af afgangi, eða kr. 35510.00. Þetta margfaldað með 5 gerir um 178 þús. kr. Svo er bætt ofan á 10%, eða kr. 17800.00 = 195800 kr. Þar við bætist svo umsetningargjald, áætlað 10 þús. kr., og verður þá útsvarið samtals kr. 205800.00. En hálfrar millj. króna gróði hjá áfengisverzluninni gefur bæjarsjóði 25 þús. kr. Tap bæjarsjóðs á því, að þessi eina vara er rekin í einkasölu, er því kr. 180000.00.

Það munar um minna.

Með 5% gjaldinu nú greiðir tóbakseinkasalan í bæjarsjóð 30 þús. kr. Er því ágóði fyrirtækisins um 600 þús. kr. Ef gert er ráð fyrir, að tóbaksheildsölunni væri deilt niður á 10 einkafyrirtæki, kæmi 60 þús. kr. ágóði í hvern hlut. Útsvar hverrar verzlunar yrði: 5510 kr. af 25 þús. og 40% af 35 þús. kr., eða kr. 19510.00. Þetta margfaldað með 10 gerir kr. 195100.00. Þar við bætist 10%, kr. 19500.00 = 214650.00 kr. Loks kemur umsetningargjaldið, áætlað 10 þús. kr. Verður þá útsvarið samtals kr. 22465000. En 5% gjald tóbakseinkasölunnar gaf 30 þús. kr. Tap bæjarsjóðs hér verður því ca. kr. 194500.00.

Á þessum tveimur ríkiseinkasölum nemur því tap bæjarsjóðs 374500 kr. móts við það, að verzlunin væri rekin af skattskyldum einkafyrirtækjum.

Svipuð er útkoman að því er snertir viðtækjaverzlun ríkisins og aðrar svipaðar einkasölur, og áætla ég tapið þar kr. 75500.00.

Samtals nemur því tap bæjarsjóðs á þessum ríkisverzlunum kr. 450000.00, eða nál. 1/2 milljón króna!

Ef mönnum þykja þetta ótrúlega há gjöld, má líta á raunveruleg gjöld verzlana, sem mestan ágóða hafa, undir innflutningshöftum og öllum ókjörum. Skóverzlunin Lárus G. Lúðvígsson greiðir t. d. nú kr. 59400.00 í útsvar, eða hærra en allar ríkisverzlanirnar til samans, með sínar hreinu tekjur, á aðra milljón króna. Þessi verzlun er að vísu stór, en hefir þó ekki nema ca. 1/10 af hreinum gróða allra hinna fyrirtækjanna, sem þó greiða ekki eins hátt útsvar.

Ég skal svo ekki telja upp fleiri tölur. En þó að ágóði af þessum ríkisstofnunum renni allur til opinberra þarfa, er hér um svo verulega röskun að ræða um tekjuöflun milli ríkis og bæja, að ekki verður komizt hjá að taka hana til athugunar og færa til meira samræmis. Í frv. er ekki farið fram á, að þessar stofnanir ríkisins séu látnar standa undir sömu gjöldum og þau fyrirtæki, sem eru í höndum einstaklinga. En ég vildi sýna fram á, að það er nauðsyn að koma hér á nokkru meira samræmi en nú er samkv. l. frá 1924. Væri gjaldið hækkað um helming, úr 5% upp í 10%, mun láta nærri, að það fylgi breyttum tíma, svo hlutfallið yrði svipað og 1924. Eftir að hafa lagt fram þessar þurru tölur, skal ég svo ekki orðlengja frekar um málið nú, en óska, að því verði vísað til fjhn.