09.12.1935
Efri deild: 90. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í C-deild Alþingistíðinda. (3618)

180. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Eins og ég gat um í framsöguræðu minni um þetta mál, þá er í raun og veru tæplega hægt að segja, að hér sé nýr tekjustofn fyrir bæjarfélögin. Ef litið er á útsvarsálagninguna 1924 og svo borið saman við, hvernig nú er komið, þá er ekki fjarri sanni að segja, að hér sé um leiðréttingu að ræða. Þau 10%, sem ríkisstofnunum er ætlað að greiða til bæjarfélags, verða ekki meiri nú hlutfallslega miðað við það, sem aðrir skattþegnar verða að greiða, heldur en 5% 1924. Þetta frv. er að því leyti óháð þeim öðrum frv., sem hér hafa komið fram um aukna tekjustofna fyrir bæjarfélög. Ég hefi ekkert á móti því, að rannsakað verði, hve heppilegt það muni reynast að halda áfram á þeirri braut, að ríkið gangi inn á þann tekjustofn, sem bæjarfélögunum er eðlilegastur, en það er beinu skattarnir, sem bundnir eru við þann stað, þar sem þeir eru innheimtir, og skilja svo bæjar- og sveitarfélögin eftir með allar þarfir sínar og síauknar kvaðir án þess að sjá þeim fyrir nýjum tekjustofnum. En ég legg áherzlu á það, að þetta mál er svo einfalt, að það haggar ekki eða torveldar á nokkurn hátt þær ákvarðanir, sem kunna að verða teknar í þessum málum. Þetta er ekkert annað en að reikna 10% í staðinn fyrir 5%.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að það gæti ekki skipt neinu máli, þótt þetta biði um nokkrar vikur. Mér er það að vísu kunnugt, að fram hefir komið þáltill. um, að stj. láti athuga þessi mál og leggi till. um þau fyrir næsta þing, sem mun koma saman hálfum öðrum mánuði eftir að þessu þingi er slitið. En ég er ekki búinn að sjá, að búið verði að brjóta jafnvandasamt mál til mergjar á svo stuttum tíma, og þó svo að málið kæmi fram á þinginu, þá hefði ég haldið, eftir því sem gengur um afgreiðslu einfaldari mála, að allerfiðlega gæti gengið að brjóta þá hnetu að fá slíkt frv. afgr. á næsta þingi, svo það getur orðið um lengri tíma að ræða en nokkrar vikur.

Það ber líka að athuga, að hér er að ýmsu leyti um allt annað að ræða heldur en verið hefir í öðrum frv., sem hér hafa verið flutt í svipuðum tilgangi. Í fyrsta lagi er þetta afareinfalt, og í öðru lagi er hér ekki um nýjan tekjustofn að ræða, heldur aðeins það, að reikna gamlan tekjustofn öðruvísi en áður. En með vörugjaldi er tekin upp ný tekjuöflunaraðferð og í grundvallaratriðum næsta ólík þeirri, sem nú er.

Ég skal ekki frekar en hv. frsm. meiri hl. spá neinu um það, hvernig rannsókn þessara mála lyktar, en ég þykist vita, að ef sú leið verður tekin að hækka gjöld ríkisstofnana til bæjar- og sveitarfélaga, þá verði sú hækkun bæði meiri og flóknari en hér er gert ráð fyrir, því ef þær vörur, sem eru í einkasölu, verða látnar bera hlutfallslega sama gjald til bæjar- og sveitarfélaga eins og þær hefðu orðið að bera í höndum einstaklinga, þá yrði það miklu flóknari útreikningur og leiddi til miklu meiri hækkunar, og auk þess yrði þá að setja ýms ákvæði um það, hvernig þessi gjöld ættu að dreifast á milli allra þeirra sveitarfélaga, sem hefðu fengið tekjur af þessum vörum, ef þær hefðu verið í einstakra manna höndum. Þetta frv. kostar engu flóknari útreikning, heldur aðeins að skrifa 10% í staðinn fyrir 5%, og haggar engum grundvallaratriðum.

Hér er aðeins um það eitt að tala, hvort hv. þm. vilja leyfa þessa hækkun, og kemur það ekkert við þeirri gröf, sem hv. frsm. meiri hl. vill grafa þessu frv. Ég vil því fara fram á það við hv. þdm., að þeir greiði atkv. um þetta frv. án tillits til þeirrar rannsóknar, sem fram kann að fara á skyldum málum fyrir næsta þing.