09.12.1935
Efri deild: 90. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í C-deild Alþingistíðinda. (3619)

180. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánason) [óyfirl.]:

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að hér væri ekki um nýjan tekjustofn að ræða. Þetta er að vísu rétt að nokkru leyti. Það er um að tvöfalda tekjustofn, sem viss bær hefir haft, en sama má segja um sum önnur frv. um svipað efni, sem hér hafa legið fyrir þinginu. Þannig er t. d. með hafnargjöld á Siglufirði, að ekki var um neitt annað að ræða en hækkun á þeim. Sé þetta einfalt, þá var það líka einfalt.

En þetta er ekki eins einfalt eins og hv. 1. þm. Reykv. vill vera láta, því með einkasölu ríkisins er á það að líta, að það er í raun og veru allt landið eða landsmenn í heild, sem borga þennan skatt í ríkissjóð. Þetta er byggt á því, að á meðan verzlun með þessar vörur var frjáls, þá guldu kaupmenn vitanlega útsvör af þeirri verzlun, sem þeir höfðu með þessar vörur. En þá voru ekki allir heildsalarnir, sem nú eru í Rvík, heldur voru margir smákaupmenn úti um land, svo sem brennivínssalar, tóbakskaupmenn og þeir, sem verzluðu með rafmagnsáhöld o. m. fl. þesskonar, sínir eigin heildsalar. Ég hygg, að þó að þessi tekjustofn yrði notaður áfram fyrir bæjar- og sveitarfélög, þá mundi það þykja bæði sanngjarnt og eðlilegt eftir nána athugun, að þessu yrði skipt eitthvað á milli sveitarfélaga landsins, a. m. k. að svo miklu leyti sem lagt er á vöruna í heildsölu, og hér er um heildsölu að ræða. Og ef farið er út í þá sálma, þá er málið ekki alveg eins einfalt og hv. 1. þm. Reykv. vill vera láta. Hvað því viðvíkur, að það mundi verða of lítill frestur fyrir stj. til næsta þings til að undirbúa löggjöf um þessi mál, þ. e. aukna tekjustofna fyrir bæjar- og sveitarfélög, og að hætta sé á því, að Alþ. muni ekki á næsta þingi geta gengið frá l. um það efni, jafnvel þó að stj. tækist að undirbúa þetta, þá er auðvitað ekki hægt að fullyrða neitt um það, hvernig það mundi fara. En Alþ. það, er nú situr, hefir nú litið þannig á, að þetta mundi mega takast. Og þess vegna hefir það samþ. þáltill. þar að lútandi. Ég hygg líka, að hv. I. þm. Reykv. hafi greitt þeirri þáltill. atkv. sitt. A. m. k. mun hann ekki hafa greitt atkv. á móti henni. Og úr því að hæstv. Alþ. hefir ákveðið, að stj. skuli gera athugun um þetta mál til næsta þings og leggja fram frv. um það á því þingi, og þá er því þingi auðvitað ætlað að gera l. um það, þá er að mínu áliti rétt að halda sér við það, úr því að líka svo hefir tekizt til, að hv. Nd. hefir afgr. þetta mál af algerðu handahófi, samþ. þetta og fellt annað frv., sem var algerlega hliðstætt. Og þó að hv. Ed. vildi koma lagfæringu á þetta nú og afgr. þetta í samræmi, þá er það alveg sýnilega ómögulegt, því að hv. Nd. situr vitanlega við sinn keip í þessum málum. Ég hygg því réttast, að þetta fari allt eina og sömu leið. Auðvitað má skoða það sem hvert annað slys, að verið var að hleypa í gegn frv. um tekjuöflun fyrir Vestmannaeyjar og gera það að l. En þegar það mál kom til atkv. hér í hv. d., þá horfðu ýms önnur mál öðruvísi við en nú. Fyrst þau mál gátu ekki náð æskilegri afgreiðslu, þá álít ég réttast, að þetta mál fari sömu leiðina.