01.11.1935
Neðri deild: 62. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í C-deild Alþingistíðinda. (3623)

151. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Flm. (Ólafur Thors):

Það er með öllu óþarft að láta langar skýringar fylgja frv. þessu, sakir þess, að öllum hv. þdm. er svo kunn sú nauðsyn, sem liggur til grundvallar fyrir framkomu þess. Hin örstutta grg. gerir jafnvel fulla grein fyrir þörfinni og þeirri sanngirni, sem fylgir þessari kröfu sjávarútvegsmanna. Það er alkunna, að sjávarútvegurinn stendur svo höllum fæti, að það er hreint og beint óvíst, hvort það tekst að halda honum uppi. Og þegar svo er komið, virðist í fyllsta máta óeðlilegt að viðhalda á honum skattgjaldi, sem ekki er þekkt hjá öðrum þjóðum. Kröfurnar um að létta þessum skatti af sjávarútveginum ættu að eiga þeim mun meiri rétt á sér, þegar þess er gætt, að á haustþinginu í fyrra var borin fram og samþ. krafa um að létta samskonar gjaldi, sem hér er um að ræða, af landbúnaðarafurðum.

Ég á nú von á því, áður en frv. þetta verður endanlega samþ. af þinginu, að heyra þær raddir, að ríkissjóður megi ekki við því að missa þennan skattstofn. Ég skal fúslega viðurkenna, að fjárhagur ríkissjóðs sé þröngur, en í þessu tilfelli ber þess að gæta, að ekki mun ókleift að spara sum útgjöld ríkissjóðs, til þess að létta á framleiðslunni. Annars er það víst, að svo fremi, að ekki verður létt ýmsum óvöðum af þessum atvinnuvegi, þá fellur hann í rústir, og ekki verður þá betra að innheimta skatta og gjöld.

Ég býst við, að hv. dm. hafi tekið eftir því, að við flm. þessa frv. höfum ekki treyst okkur að leggja til, að niður falli tollur, sem lagður er á samkv. 2. gr. l. nr. 63 28. jan. 1935, en samkv. þeirri gr. er útflutningsgjald lagt á: síldarmjöl, óþurrkaðan fiskúrgang, síld o. fl. Við flm. þessa frv. erum vitanlega allir sammála um, að sanngjarnt sé að létta þeim skatti af útgerðinni eins og öðrum sköttum, sem hvíla þungt á henni, og munum við leita hófanna um það við n., sem fær þetta mál til meðferðar, að hún taki til athugunar, hvort ekki þyki fært að létta af því gjaldi einnig. Um sanngirniskröfuna þarf ekki að ræða.

Ég tel ekki nauðsynlegt að fylgja þessu máli úr hlaði með lengri framsöguræðu og leyfi mér að mælast til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og sjútvn.