01.11.1935
Neðri deild: 62. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í C-deild Alþingistíðinda. (3628)

151. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sigurðar Kristjánsson:

Út af því, sem hæstv. atvmrh. sagði hér um annað frv., sem fyrir liggur viðvíkjandi sjávarútveginum, vil ég taka það fram, að það er ekki rétt með farið, að það frv. sé frá Sjálfstfl., þó að óhætt sé að fullyrða, að þingflokkur sjálfstæðismanna sé því samþykkur. En frv. var lagt fram af mér persónulega í sjútvn. og með þeim orðum, að ég ætlaðist til, að það yrði ekki neitt flokksmál, heldur óskaði eftir, að það yrði tekið til meðferðar í n. og hæstv. atvmrh. yrði hafður með í ráðum. En forsaga þessa máls er sú - ég ætla þó ekki að blanda neinu óskylda þar inn í -, að þetta mál var fyrir nokkru vakið af mér innan stjórnar sölusambands ísl. fiskframleiðenda, en svo kom ég með það hér inn af því, að ég áleit, að það ætti ekki að vera pólitískt, heldur athugast af öllum flokkum í sameiningu. En það vildi ég taka fram um leið, að það var alls ekki minn tilgangur, að ætlazt væri til þess, að engu fé yrði varið í því augnamiði, sem ætlazt er til með verðjöfnunarsjóðnum. Ég tel ekki, að útgerð landsmanna megi við því, að ríkið láti svo sem sér komi þetta mál ekkert við. Þess vegna kom mér aldrei til hugar, að þetta gjald yrði með öllu fellt niður. Ég ætlaðist til þess, og mitt frv. fer í þá átt, að þessu gjaldi sé létt af sjávarútveginum á þann hátt, að hann beri það ekki einn, og það er skoðun mín og margra annara, að hagur fleiri en útgerðarmanna velti á því, hvort hér er hægt að framleiða saltfisk og selja hann. Mér skildist á hæstv. ráðh., að meining hans sé sú, að þetta gjald falli alveg niður - að hvorki fiskeigendur né ríkissjóður greiði neitt gjald í þessu augnamiði -, og þá ber náttúrlega mikið á milli.

Ég skal ekki á þessu stigi málsins víkja að neinum deilum um þetta, en eftir því, sem hefir andað að útgerðinni og útvegsmönnum frá stjórnarfl. hingað til, þá kemur mér það ekki á óvart, þó að þarna beri nokkuð mikið á milli og þó að stjórnarfl. ætlist til þess, að ekki verði mikið gert til þess að afla markaða fyrir þessa vöru. Annars skal ég geta þess í sambandi við það, sem hæstv. fjmrh. sagði - að hann sæi ekki að ríkissjóður gæti misst þessara tekna, sem ætlazt er til, að hér falli niður, en það er útflutningsgjald af fiski -, að ég sé ekki, að sjávarútvegurinn geti eða megi við því að greiða þetta gjald. Það er því það sama, sem hér ber í milli, eins og oft áður, að annarsvegar eru menn, sem miklu ráða og vilja mjólka þessa kú, sjávarútveginn, án þess að gefa henni og án þess að hugsa fyrir því, að hún geti lifað til þess að mjólka, en hinsvegar aðrir, við sjálfstæðismenn, sem erum þeirrar skoðunar, að þegar um það er að ræða að taka fé af atvinnurekstri, eigi ekki aðeins að líta á það, hvort ríkissjóður hafi þörf fyrir féð, heldur eigi einnig að líta á það, að sá, sem á að greiða féð, geti það.