01.11.1935
Neðri deild: 62. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í C-deild Alþingistíðinda. (3629)

151. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Flm. (Ólafur Thors):

Ég þarf í raun og veru engu sérstöku að bæta við það, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði. En ég vil aðeins taka fram, út af því, sem hæstv. atvmrh. beindi til mín, að ég var ekki að gefa mínum orðum neinn blæ af því, að ríkisstj. hefði látið sannfærast fyrir rök sjálfstæðismanna í þessu máli.

Ég geri ráð fyrir því, að alveg eins og stjórnarfl. og stjórnarandstæðingar töldu sig á sínum tíma til neydda að leggja þennan skatt á sjávarútveginn, þá sé nú svo komið, fyrir breytta rás viðburðanna, að þessir sömu aðilar geti séð rætast sameiginlega ósk sína um að létta af þessu gjaldi.

Út af till. hæstv. fjmrh. um að vísa þessu máli til fjhn. vil ég taka það fram, að ég er því mótfallinn. Það er á allra vitund, að slík mál sem þetta hafa alltaf verið hjá sjútvn. Við höfum verið að tala um það tveir fjhnm., sem saman sitjum, og okkur kemur saman um, að málið eigi heima í sjútvn. og að nýbúið sé að vísa tveimur samskonar málum þangað.