18.12.1935
Neðri deild: 102. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í C-deild Alþingistíðinda. (3641)

151. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. minni hl. (Jóhann Jósefsson) [óyfirl.]:

Þetta frv. er, eins og kunnugt er, flutt af nokkrum sjálfstæðismönnum, aðallega þeim, sem eru úr sjávarútvegskjördæmum. Ég hefði haldið, að það lægi nokkurn veginn ljóst fyrir, enda eru fleiri þeirrar skoðunar, að eftir að útflutningsgjaldi af landbúnaðarafurðum var af létt, þá væri talið sjálfsagt að afnema þetta gjald einnig af sjávarútveginum. Það þarf að vísu ekki að ganga í grafgötur um það, að þessu máli hefir ekki verið tekið með velvilja af hæstv. stj., og má telja það ennþá furðulegra fyrir þá sök, að þetta þing og þessi hæstv. stj. er að gera margháttaðar ráðstafanir, sem beinlínis íþyngja þessum atvinnuvegi, og get ég í því sambandi minnt á frv. til 1. um bráðabirgðaverðtoll, sem flutt var með samþykki hæstv. stj., frv., sem að vísu á að vera til þess að hlaða undir innlendan iðnað, en gengur þó í höfuðatriðum út á að íþyngja atvinnuvegunum, sérstaklega sjávarútveginum. Svo er frv. um bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs, sem gerir ráð fyrir því að skattleggja mjög margar vörutegundir, sem eru beinlínis neyzluvörur bæði sjávarútvegsmanna og annara landsmanna, og mun þetta frv. áreiðanlega íþyngja sjávarútveginum allverulega. Enda þótt hæstv. stj. hafi allt fram að þessu á yfirstandandi þingi bæði beint og óbeint sýnt sjávarútveginum ýmiskonar óvild og íþyngt honum á ýmsa lund, þá held ég, að menn hafi ekki átt von á því, að hæstv. stj. mundi beita þeirri aðferð að hnýta aftan í frv. nýjum skatti, hinum nýja benzínskatti, og kemur hann sem kunnugt er mjög hart niður á útgerðinni, því að hún þarf á mjög miklum landflutningum að halda. Þegar þess er gætt, að hin nýju tekjuöflunarfrv. hæstv. ríkisstj. ganga öll út á að íþyngja sérstaklega sjávarútveginum, þá væri ekki síður nauðsyn á að létta af beinum skatti til ríkissjóðs af vörum sjávarútvegsins. Ég þarf náttúrlega ekki að minnast á það, að útvegsmenn, sem héldu hér fund í haust, gerðu það einróma að kröfu sinni, að þessum beina skatti á framleiðsluvöru þeirra væri létt af. Því hefir stundum verið slengt framan í okkur, sem höfum komið með þessa kröfu, þessa jafnréttis- og réttlætiskröfu um afnám útflutningsgjalds á sjávarafurðum, að okkur bæri skylda til að sjá ríkissjóði fyrir jafnmiklum tekjum, ef við vildum losna við þetta gjald. Minni hl., sem heldur því fram, að rétt sé að afnema þetta útflutningsgjald af sjávarafurðum, viðurkennir ekki, að honum beri skylda til þess að gera þetta. Sjútvn. hefir aðallega það starf með höndum að berjast fyrir hagsmunum sjávarútvegsins. Þess vegna skýtur það skökku við, ef íþyngja á sjávarútvegsmönnum með sköttum meira en öðrum landsmönnum. N. á að gegna þessari skyldu fyrst og fremst. Hæstv. stj. hefir nógar n. og leiguþjóna til þess að skipa til að greiða jákvæði hverju tekjuöflunarfrv., sem henni þóknast að bera hér fram; það hefir sýnt sig allgreinilega síðustu dagana. Ég þykist vita, að ekki muni hafa skipazt neitt veður í lofti hjá hv. stjórnarflokkum síðan þetta frv. var hér fyrst á dagskrá, og þó hefir greinilega verið sýnt fram á það, að sjávarútvegsmenn eiga heimtingu á því, að þessum skatti sé létt af, sem er hvergi nokkursstaðar í neinu landi nema hér lagður á framleiðsluvörur landsmanna. Þegar því er haldið fram, að sjávarútvegurinn eigi heimtingu á því að losna við þetta útflutningsgjald, þá afsaka sumir menn sig með því, að útflutningsgjaldi af landbúnaðarafurðum hafi verið létt af sökum þess, hversu ójafnt það hafi komið niður á bændum landsins; sumir bændur, sem selt hafa kjöt á innlendum markaði, hafi alveg sloppið við útflutningsgjaldið, en það hefir hinsvegar lagzt á þá, sem urðu að senda kjöt, saltað og freðið, til útlanda. Þetta er aðeins yfirvarpsástæða, og má benda á það í þessu sambandi, að það eru til lög, sem framsóknarmenn hafa sett hér á þinginu, hin svo kölluðu kjötsölulög, sem gera einmitt ráð fyrir verðjöfnun milli hinna ýmsu landshluta og kjötframleiðenda. Það hefði verið leikur einn að jafna þessu útflutningsgjaldi milli framleiðendanna og gera aðstöðuna jafna fyrir bændur með þessum lögum. Ástæðan fyrir því, að útflutningsgjaldi á landbúnaðarafurðum var létt af, var sú, að fulltrúar bænda hér á þingi viðurkenndu, að útflutningsgjaldið var í sjálfu sér rangt, og af því að bændur stóðu þessum mönnum næst, þá voru þeir fyrst teknir úr flokki og þessu gjaldi létt af landbúnaðarafurðum.

Ég vil minna hv. dm. á það, að hæstv. fjmrh. talaði með miklum fjálgleik, þegar hann var að verja hið svonefnda bráðabirgðatekjuöflunarfrv. fyrir nokkrum dögum, um það, að þetta frv. væri ekki þannig útbúið, að hinir svokölluðu smáframleiðendur í landinu yrðu fyrir nokkrum skaða af því. Það er orðinn nokkuð algengur „frasi“ hjá þessum mönnum, bæði kommúnistum og jafnaðarmönnum, að þeir þykjast vilja gera allt fyrir smáframleiðendur landsins, en hirða svo ekkert um þá stærri. En það er nú því miður svo, að hér á landi er lítið um stórframleiðendur, svo að þessir framleiðendur geta því flestir komið undir þá smærri. En þegar hæstv. ráðh. sagði þetta, var benzínskatturinn ekki kominn inn í frv., og býst ég ekki við, að smáframleiðendur þessa lands séu neitt hrifnir af frv. eins og það er nú, með benzínskatti og auk þess verðtolli, sem nær yfir allar fatnaðarvörur og margar nauðsynjavörur. Þegar svo þar við bætist, að hæstv. stj. skellir skollaeyrunum við þeirri jafnréttis- og réttlætiskröfu, að útflutningsgjaldi af sjávarafurðum sé af létt, þá veit ég ekki, hvar þessa „umhyggju“ hæstv. stj. fyrir hagsmunum smáframleiðenda er að finna, því að þeir, sem eru svo sem kunnugt er margfalt fleiri en þeir stóru, verða fullt eins tilfinnanlega fyrir barðinu á þessari ranglátu löggjöf.

En sjávarútvegsnefnd á ekki að bera hag neinna sérstakra veiðimanna fyrir brjósti, heldur allrar stéttarinnar. En meiri hl. sjútvn. hefir skotið sér undan þessari réttlátu kröfu sjávarútvegsins, sem er tvöfalt réttlátari síðan létt var útflutningsgjaldinu af landbúnaðarafurðum. Skatturinn hefir alltaf verið ranglátur, en hann er tvöfalt ranglátari, þegar annar atvinnuvegurinn er losaður við hann, en hinn látinn bera hann áfram.

Það má vera, að meiri hl. sjútvn. beri sigur af hólmi í þessu máli, en hitt er vist, að krafan um afnám útflutningsgjaldsins er ekki þar með fallin niður. Hönd hv. meiri hl. sjútvn. mun verða skamma stund fegin því höggi, sem hún nú greiðir sjávarútveginum.

Aldrei hafa horfur þessa atvinnuvegar verið jafnerfiðlegar og nú. Hvert markaðslandið bregzt á fætur öðru. Á Ítalíu verður enginn fiskur seldur, nema gegn vörum. Um Spán er allt í óvissu, en almennt aðeins búizt við broti af innflutningsleyfi síðasta árs. Í Portúgal er að vísu ekki innflutningsbann á fiski, en þeir auka stöðugt útgerð á eigin skipum, og auk þess er samkeppnin við Norðmenn þar svo hörð, að verðið á íslenzkum fiski þar svarar alls ekki framleiðslukostnaði. Að vísu hefir dálítið af fiski verið selt til Suður-Ameríku, og sumir gera sér miklar vonir um sölu þangað. Það má vel vera, að einhver sala takist þangað, en það er barnaskapur að halda, að saltfiskssala þangað bæti á nálægum tíma upp þann markað, sem þegar hefir tapazt í Evrópulöndunum. Þegar litið er á það, hvað Suður-Ameríka flytur inn af fiski í allt, sést bezt, að Íslendingar geta aldrei flutt þangað inn mikið af saltfiski í harðri samkeppni við Noreg og Newfoundland. Ég er ekki að gera lítið úr þeim tilraunum, sem gerðar hafa verið til markaðsöflunar í Suður-Ameríku, en ég vil aðeins taka afstöðu gegn þeirri óleyfilegu bjartsýni, að Suður-Ameríkumarkaðurinn muni bæta það upp, sem misstst hefir og missist í Evrópulöndunum.

Svona er nú ástandið hjá þessum atvinnuvegi, sem sjútvn. vill ekki unna þess, að létt sé af honum ranglátu gjaldi, sem hann greiðir fram yfir aðra landsmenn. - Ég öfunda ekki þennan meiri hl., sem nú er á hverjum degi að rétta upp hendurnar til þess að íþyngja afkomu útgerðarmanna enn meir og þeirra sjómanna og verkamanna, sem atvinnu hafa hjá þeim.

Þótt þetta mál nái ekki afgreiðslu nú, mega þó andstæðingar þess vera vissir um það, að ávallt verða einhverjir til þess að halda uppi sókn í þessu máli, sem er réttlætismál, hvernig sem á það er litið, og fullkomið réttlætismál nú.