20.12.1935
Neðri deild: 104. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (3652)

151. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. minni hl. (Jóhann Jósefsson) [óyfirl.]:

Það er eiginlega búið að svara hv. meiri hl. sjútvn. nægilega og sýna fram á, að við í minni hl. erum saklausir af að hafa dregið þetta mál á langinn. Hitt var aftur ljóst, þegar meiri hl. tók þá afstöðu til málsins, sem raun varð á, að vonlítið var um málið, þó minni hl. skilaði áliti sínu, sem hann gerði nægilega snemma, eða fyrir 2 vikum. Meiri hl. veit, að það hefir enga sérstaka þýðingu fyrir málið, hvort álit minni hl. kom fyrr eða seinna., úr því stjórnarflokkarnir sáu sér ekki fært að verða við þeirri sjálfsögðu kröfu sjómanna að fella niður útflutningsgjaldið.

Hv. frsm. meiri hl. var að tala um áskoranir mínar, en þetta eru ekki áskoranir mínar, heldur fjölda sjómanna, og hv. form. sjútvn. ætti að taka þeirra óskir til greina, sem sendu ýtarlegar fundarályktanir um að óska, að létt yrði af þessum skatti. Mjög margir sjómenn í öllum verstöðvum við Faxaflóa og víðar tóku þátt í þessum fundahöldum. Ég kemst ekki hjá því að líta svo á, þó ekki sé meira sagt en það, að mér finnst það ákaflega einkennilegt, að meiri hl. skyldi ekki vilja taka þessar óskir til greina og fella niður gjaldið í þessu árferði, sem nú er.

Hv. frsm. var að tala um eftirgjöf síldartollsins í sambandi við ívilnanir til landbúnaðarins, en þar var ekkert samband á milli. Eftirgjöf síldartollsins var ekkert annað en pólitísk fríðindi til sósíalistaflokksins, sem ekki kom útgerðinni yfirleitt til góða, heldur aðeins nokkrum sjómönnum, og var notuð sem pólitísk agitation fyrir sósíalista. Þessi till. um niðurfellingu útflutningsgjaldsins er ekki fram komin til þess að toga hagsmuni einstakra stétta. heldur allra þeirra, sem lifa á sjávarútvegi. Hin þröngu sjónarmið meiri hl. eiga ekki að koma til greina í sambandi við þetta frv. En úr því nú að hv. meiri hl. sjútvn. treystir sér ekki til þess að taka undir kröfur útvegsmanna á þessum tímum, hefði það þó óneitanlega verið drengilegra og karlmannlegra að kannast við það, hvaða hug þeir bæru til þessara manna, játa hreinskilnislega afstöðu sína heldur en vera að burðast með dagskrá, sem ekki er nema tóm vitleysa, eins og hv. þm. Borgf. hefir sýnt fram á, og aðeins flutt til þess að reyna að koma sökinni á því að eyðileggja málið yfir á annara herðar. Það er engum blöðum um að fletta, að það er ekki öðrum að kenna en meiri hl. hv. sjútvn., að frv. nær ekki fram að ganga. Þeir verða því að uppskera sjálfir fyrir sín verk, hvort sem það verður hrós eða last. Að þetta mál sé sanngirnismál, eru allir sjómenn og útgerðarmenn sammála um, og ég hefi ekki heyrt, að mótmæli gegn þessu frv. hafi komið frá bændum heldur. Af þessu er það séð, að meiri hl. hefir valið sér hið verra hlutskiptið, og því er ekki rétt, að hv. þd. taki á sig þá ábyrgð, sem þessir menn hafa tekið á sínar herðar og eru nú að reyna að velta yfir á aðra, og sízt af öllu á mann í fjvn., sem flutt hefir þetta frv., þó hann hafi ekki gert sig hlægilegan með því að vilja fella útflutningsgjaldið af fjárl. áður en séð var um afdrif þess. Nei, það eru þeir hv. þm. Ísaf., hv. þm. N.-Þ. og hv. 3. landsk., sem hafa svikizt um skyldu sína, og úr því þeir hafa gert það, þá fer bezt á því, að þeir, en ekki aðrir, beri ábyrgð á sínum verkum.

Út af því, að við hv. 6. þm. Reykv. höfum ekki komið með nál. um frv. um markaðssjóð fyrir saltfisk, skal ég geta þess, að þegar það frv. kom fram, fylgdi því sú beiðni frá hv. 6. þm. Reykv. að fá hæstv. atvmrh. til viðtals í n., en að tveim dögum liðnum kom form. sjútvn. með það svar frá meiri hl. í þinginu, að hann ætlaði að koma fram með frv. um að afnema 6% útflutningsgjaldið af fiskinum. Sagði hv. form. n., að þetta væri svar við frv. hv. 6. þm. Reykv. um markaðssjóðinn. Þegar svo frv. kom fram á sjónarsviðið, kom í ljós, að stjórnarflokkarnir treystu sér ekki til þess að afnema fisktollinn alveg, og urðu eftir nokkrar dreggjar af honum. Það var ekki á okkar vitorði, að stj. stæði svo vel í stykkinu, að hún gæti létt af þessum tolli, en úr því svo var, þá fórum við að sjálfsögðu ekki að halda til streitu okkar frv. Við vorum því manna fegnastir, að hægt væri að létta af fiskskattinum. Þegar þetta er athugað, er ljóst, að það hefði verið mesti óþarfi fyrir okkur hv. 6. þm. Reykv. að vera að burðast með nál. um frv., sem meiri hl. þingsins áleit óþarft mál og hefði ekki leyft fram að ganga. Því síður var ástæða til þess að koma með nál. um frv., þegar þannig var gripið fram fyrir málið af sjálfri hæstv. stj., sem gaf yfirlýsingu um, að frv. væri óþarft.

Ég hefi þá svarað þeim tveimur ásökunum, sem beint hefir verið til minni hl. sjútvn., að nál. um það frv., sem hér liggur fyrir, hafi komið of seint frá okkur, og að nál. um frv. um markaðssjóð saltfiskjar hafi ekki komið fram. Ég hefi sýnt fram á það, að fyrri ásökunin er röng, nál. kom nógu snemma, og í síðara tilfellinu þurfti ekkert nál. Allt þetta fjas hjá hv. meiri hl. sjútvn. er því ekki annað en vífilengjur, sem ná hámarki sínu í þeirri lexíu, sem liggur á borði hæstv. forseta og kölluð er rökst. dagskrá.

Það er svo sem ekkert frekar við því að gera fyrir okkur, sem höfum borið þetta mál fram. Það lítur sennilega ekki út fyrir, að það nái að komast fram, úr því að meiri hl. n. tók þessa afstöðu og að málið hefir ekki fundið náð fyrir augum stjórnarflokkanna. En það hefði óneitanlega verið karlmannlegra fyrir þessa menn að fella málið hreinlega heldur en að vera að burðast við að koma því fyrir kattarnef á svo ósæmilegan hátt sem hér er farið fram á með þessari dagskrártillögu.