20.12.1935
Neðri deild: 104. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í C-deild Alþingistíðinda. (3657)

151. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Hv. þm. Ísaf. kannaðist við það, að engin einstök n. á Alþ. hefði úrslitavald um það, hvaða lagafrv. yrðu samþ. eða hvaða lög væru numin úr gildi, heldur lægi það á valdi meiri hl. Alþ. Ég vil vekja athygli hans og annara hv. þdm. á því, að með þessari yfirlýsingu sinni er hann algerlega búinn að kippa fótunum undan sinni eigin dagskrártill. Sú lélega fótfesta, sem þessi rökst. dagskrá hafði í upphafi, er nú komin svo, að þessi hv. þm. getur ekki einu sinni sjálfur greitt henni atkv., hvað þá heldur að hann geti ætlazt til þess, að aðrir geri það. Í þessum sporum er hv. þm. Ísaf. nú staddur, og var það ekki nema að líkindum, að sá yrði endirinn, þegar búið væri að benda á, hvílík fáfræði felst í því að bera fram slíkt plagg sem þessa dagskrá. Því var yfirlýst 16. nóv., að tekin væri ákvörðun um, að þetta mál skyldi ekki ganga í gegn á þessu þingi; það kom fram í þeirri samþykkt, sem þá var gerð. En ég vil vita afstöðu hv. meiri hl. sjútvn. til málsins, því þótt hún vildi ekki afgr. það, bar henni að skila áliti, vegna þess að meiri hl. Alþ. á að afgr. málið, en ekki n. ein.

Hv. þm. Ísaf. minntist á „bandorminn“, en það er eitt lagafrv., sem hefir fengið þetta heiti, mjög að óverðskulduðu. Og það mun hafa verið þetta um „bandorminn“, sem hv. 2. þm. N.-M. var að hvísla að hv. þm. Ísaf., svo ég held, að hv. þm. G.-K. hafi orðið sannspár um, að það yrði ekki til mikillar upplyftingar fyrir hv. þm. Ísaf., sem hv. 2. þm. N.-M hvíslaði að honum. Það er kunnugt um bandorminn, þegar talað er um hann í sinni eiginlegu merkingu, að hann er eitt allra versta kvikindi, sem við höfum átt við að stríða, og hefir orðið valdur að dauða fjölda manna, sem hafa dáið úr svokallaðri sullaveiki.