07.11.1935
Efri deild: 63. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í C-deild Alþingistíðinda. (3664)

14. mál, jarðræktarlög

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

Landbn. hefir haft frv. þetta til athugunar. Hefir það legið hjá henni nokkuð lengi, en er nú komið þaðan. Á fundi, þar sem málið var til meðferðar, var hv. 2. þm. Rang. ekki viðstaddur, en nú hefir hann skilað áliti sínu, og er hann afstöðu n. ósamþykkur.

Ástæðan fyrir því, að við mælum ekki með frv., er sú, að við álitum hækkun þá á framlögum ríkissjóðs, sem farið er fram á, honum um megn. Í landinu er mikil þörf verklegra framkvæmda, og væri að vísu æskilegt, að hægt væri að greiða meira fyrir dagsverkið og að verðlauna ýms verk, sem unnin eru. En það verður þó að hafa hliðsjón af því, hver geta ríkissjóðs er á hverjum tíma, og eins af því, að ríkissjóður leggur ekki svo lítið fé nú þegar til styrktar ræktuninni. Væru nú góðir tímar, myndu menn vilja leggja meira til þess að efla ræktun landsins, en nú liggja mál fyrir, sem bráðari úrlausnar þurfa við, eins og t. d. aukning grænmetis- og jarðeplaræktar. Nú eru miklir erfiðleikar hjá aðalatvinnugreinum landsins. Landbúnaðurinn hefir verið að reyna að koma sem mestu af afurðum sínum til neyzlu innanlands. Hefir verið reynt að taka hér upp ræktun á þeim fæðutegundum, sem hér eru notaðar og hægt er að rækta hér. T. d. hefir verið gerð tilraun um kornrækt, og gæti hún e. t. v. síðar orðið öflugur atvinnuvegur með því tíðarfari, sem nú er hér. En þá hluti, sem um ræðir í frv., tel ég ekki svo aðkallandi, að ástæða sé til þeirra vegna að binda ríkissjóði þungar byrðar. Það er enginn vandi að koma með till. um aukningu fjárframlaga ríkissjóðs til margra þeirra hluta, sem nytsemd er að, en á erfiðum tímum verður þó að miða allt slíkt við getuna. Í frv. er ekki gert ráð fyrir öðrum tekjuauka en þeim, sem e. t. v. kynni að leiða af aukningu ræktunarinnar einhverntíma í framtíðinni.

Till. okkar nm. er sú, að málinu verði vísað til stj. Komi betri tímar, er ekki nema sjálfsagt, að aukin verði framlögin til styrktar landbúnaðinum.

Hv. minni hl. mælir með samþykkt þessa frv., þó að hann að vísu segist geta fallizt á brtt. við 3. umr. Þær liggja ekki fyrir nú, og sé ég því ekki ástæðu til að tala um nál. hv. minni hl. fyrr en till. hans liggja fyrir, en eins og skoðanir hans liggja nú fyrir í nál., getur það ekki breytt afstöðu meiri hl. um að vísa máli þessu til hæstv. ríkisstjórnar.