07.11.1935
Efri deild: 63. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í C-deild Alþingistíðinda. (3667)

14. mál, jarðræktarlög

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

Hv. frsm. minni hl. n. hefir gert grein fyrir sinni skoðun á málinu. Hann kallaði það sérstakt form til þess að fella frv. að vísa því til hæstv. stj. Það má vera, að þeir, sem ekki bera traust til hæstv. stj., kalli það að fella mál, ef því er vísað til hennar, en frá sjónarmiði þeirra, sem treysta hæstv. stj., horfir þetta allt öðruvísi við, því að þeir efast ekkert um, að hæstv. stj. muni gera allt, sem unnt er, málinu til góðs. Það er því töluverður munur á því að vísa máli til stj. og að fella það. Hv. frsm. minni hl. sagði, að þetta mál væri ofur einfalt og að hægt væri að gera grein fyrir því í fljótu bragði. Það er nú svo. Það er einfalt og ekki einfalt. Það er einfalt frá höfundarins hendi, sem ekki virðist hafa gert annað í búnaðarmálum en að lesa í gömlum lögum viðvíkjandi landbúnaði og finna, hvar hægt væri að breyta tölum og segja: Þetta skal vera svona og þetta svona o. s. frv. En gallinn á þessu er bara sá, að það geta verið breytt viðhorf frá því, sem var, þegar lög þau, sem um er að ræða, voru sett, og það hefir breytzt viðhorfið.

Hv. frsm. minni hl. talaði um kauphækkun í sveitum og ráðstafanir hæstv. stj. sumarið 1933. Það varð kauphækkun; það er rétt. En ég fullyrði, og ég býst ekki við, að hv. frsm. minni hl. geti fært nokkur rök gegn því, að hún hefir ekki aukið útgjöldin hjá sveitafólkinu. Þó að útgjöldin hafi eitthvað aukizt, þá hefir runnið til sveitanna jafnmikið fé, sem komið hefir af kauphækkuninni. Mér hefir líka verið sagt víða af landinu, að þrátt fyrir kauphækkunina hafi kaupið fyrir kaupavinnuna hjá bændum ekki hækkað yfirleitt. Það er því ekkert annað en órökstudd staðhæfing að halda því fram, að kauphækkunin hafi yfirleitt haft í för með sér aukin útgjöld hjá bændum landsins. Það er fullyrðing, sem mér finnst ósamboðin jafnrökföstum manni og hv. 2. þm. Rang. er; hinsvegar tel ég hana ekki ósamboðna hv. 10. landsk. Hitt er annað mál, að bændur eiga við ýmsa örðugleika að etja, en það hafa allar stéttir við svipaða örðugleika að stríða.

Hv. frsm. minni hl. sagði, að verðið fyrir kjötið hefði verið verra 1934 en áður. Í þessu sambandi er það aðgætandi, að bændur eru í vafa um, hvort það hafi hækkað eða ekki, en í huga hv. þm. er þetta vafi á því, hvort þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til þess að skipuleggja sölu sláturafurðanna, hafi komið að notum. Ef menn athuguðu, hvernig komið var um sölu á kjöti, þá hygg ég, að þeir mundu sjá, að illa var komið, og jafnvel þótt engin hækkun hefði átt sér stað, þá voru þær ráðstafanir, sem gerðar voru, mjög þýðingarmiklar. Þetta ætti hv. þm. líka að athuga. Það, sem viðbúið var að skeði, kom einnig á daginn, því að eftir því, sem markaðshorfurnar fyrir kjötið versnuðu erlendis, fóru fleiri héruð landsins að keppa um bezta innanlandsmarkaðinn, sem var markaðurinn í kaupstöðunum, og þá sérstaklega í Reykjavík. Fjöldi kaupfélaga og sláturfélaga keppti um markaðinn hér, til þess að koma sínu kjöti út. Hvernig hefði þá farið, ef ekkert hefði verið gert til þess að koma í veg fyrir þessa yfirvofandi hættu? Það, sem þá var gert, var það, að verðinu var jafnað niður, og þau héruð, sem fjarst voru markaðinum hér og sent höfðu kjöt til útlanda og fengið lágt verð fyrir. voru keypt frá því að keppa á markaðinum, sérstaklega í Reykjavík. Þetta atriði ætti hv. 2. þm. Rang. vissulega að taka til athugunar, ekki sízt að því er snertir hans eigið kjördæmi. Það má vera, að einhverjir hugsi sem svo, að það hefði átt að fara eftir pólitík og flokksfylgi um kjötkaup, þannig að þeir, sem áttu sjálfstæðismenn á þingi, hefðu meiri möguleika til kjötsölu í Reykjavík, en það er nú harla ósennilegt, að sjálfstæðismenn hér í bæ hefðu t. d. farið að kaupa kjöt á eina krónu - jafnvel þótt það hefði verið framleitt af skoðanabræðrum þeirra -, ef kjöt hefði verið á boðstólum á 50 eða 75 aura t. d. frá Þingeyingum, svo að ég taki einhverjar tölur af handahófi. Það var rétt hjá hv. þm., þegar hann talaði um súrheystóftir, að það er nauðsynlegt að hlynna sem mest að því, að bændur séu sem bezt undir slæmt tíðarfar búnir, svo að þeir geti verkað heyið sem bezt. Ég er nú að vísu ekki búfróður, og hv. andmælendur mínir eru a. m. k. heldur ekki búfræðingar, en ég hefi samt aflað mér þeirra upplýsinga frá einum ráðunaut búnaðarfél., að unnt væri að hjálpa bændum til þess að verka heyið á viðunandi hátt með ekki mjög miklum kostnaði. Hv. þm. sagði, að það væri ekki nema 50 þús. kr. útgjaldahækkun, sem af þessu frv. leiðir. Þetta er ágizkun ein. (ÞBr: Þetta er útreikningur Sigurðar Sigurðssonar búnaðarmálastjóra). Það er að vísu ágætur maður, en samt hafa ekki allir hans útreikningar staðizt. Með þessum orðum er ég ekki að lasta Sigurð búnaðarmálastjóra. Ég met hann mikils fyrir áhuga á íslenzkum landbúnaði. En það gera margir fleiri góðir menn áætlanir, sem ekki standast.

Hv. frsm. sagði, að það væri engum vandkvæðum bundið að afla peninga í því skyni, sem hér um ræðir; hann taldi bezt að taka eina nefndina - fiskimálanefnd tók hann til - og skera hana niður. Hélt hv. þm. því fram, að hún hefði lítið verkefni, þegar sölusambandið væri komið upp. Það er rétt hjá hv. þm., að verkefni hennar minnkar við það, að hún hættir að sjá um saltfisksöluna, en verkefni hennar verður samt sem áður mjög mikið. Ég býst við því, að fiskimálanefnd hafi fullkomlega borgað sig með þeim framkvæmdum og uppástungum, sem hún hefir gert, og þætti mér mjög illa farið og óviðeigandi af þeim, sem telja sig styrktarmenn landbúnaðarins, ef þeir fara að krukka í hina atvinnuvegina til þess að ná einhverju handa landbúnaðinum. Sjálfstfl. hefir verið á móti stofnun fiskimálan., en ég sé ekki betur en að aðrar og stærri þjóðir, sem fiskveiðar stunda, hafi farið að dæmi okkar Íslendinga og komið upp hjá sér samskonar stofnun, t. d. Norðmenn og Newfoundlendingar, sem hafa einnig gert svipaðar ráðstafanir um sölu á sínum afurðum, og loks hafa Englendingar komið sér upp fiskimálanefnd í síldarmálum. Á þessum erfiðu tímum, þegar markaðsvörur okkar, kjöt og fiskur, seljast illa, þá þarf að leita að öllum hugsanlegum möguleikum til þess að koma einhverjum öðrum framleiðsluvörum okkar í verð, svo að við getum á þann hátt bætt okkur upp það tjón, sem minnkandi markaður aðalframleiðslu okkar hefir í för með sér. Ég vil taka það fram í þessu sambandi, að fiskimálanefnd átti mestan þátt í því, að hafizt var handa um karfaveiðar í haust, sem að mestu leyti bættu stórútgerðarmönnum og skipshöfnum þeirra þann stóra halla, sem margir þeirra urðu fyrir á síldveiðunum í sumar. Fiskimálan. hefir einnig haft með höndum tilraunir um fiskherzlu í því augnamiði, að framleiðsla okkar verði fjölbreyttari en verið hefir. Mér fyndist því afaróviðeigandi, ef leggja ætti niður þá stofnun, sem hefir sýnt, að hún hefir beitt sér fyrir ýmsum uppástungum og framkvæmdum, sem líklegt er, að muni skapa mikla aukningu á atvinnu manna. Mér finnst því uppástunga hv. 2. þm. Rang. í þessu efni alls ekki eiga rétt á sér, ef þessi sparnaður, sem hann talar um, ætti að koma niður á fiskimálanefnd.

Þá kem ég að hv. 10. landsk. Till. hans í búnaðarmálum tek ég alls ekki alvarlega. Fyrst þegar hann er orðinn áhrifalaus að mestu hér í þinginu, þá fer hann að bera fram till. um aukin framlög til landbúnaðarins, en þegar hann var ráðh., þá var lítið um slíkar till. og þá kom hv. þm. ekki auga á hina brýnu nauðsyn, sem hann telur nú vera á votheysgryfjum. Þá hafði hv. þm. áhuga fyrir ýmislegu öðru. Báðir hv. andmælendur gerðu það að umtalsefni, hve mikið gagn væri að jarðræktarlögunum. Ég get vel tekið undir þetta með hv. þm. Ég efast ekkert um, að þau hafi bjargað mörgum bóndanum og gert honum mögulegt að veita viðnám þeim miklu erfiðleikum, sem yfir hann hafa dunið upp á síðkastið. En þess ber að gæta, að aðstæður hafa breytzt mikið að ýmsu leyti síðan þessi lög voru sett. Um það leyti sem þau voru sett var nokkurn veginn auðvelt að selja allar íslenzkar landbúnaðarafurðir. En nú er því miður allt annað uppi á teningnum, svo sem kunnugt er. Það er t. d. gagnslítið að fjölga sauðfjárstofni bænda á meðan kjötið selst ekki allt. Nú er spurningin, hvort fara á sömu leið og hv. 10. landsk. vill fara, til þess að gera bændum kleift að lifa á viðunandi hátt, og um það hefi bæði ég og fleiri andstæðingar þessa frv. þegar talað. En ég verð að segja, að þótt frv. sé einfalt og ófrumlegt, þá tel ég þetta mál yfirleitt flóknara en svo, að unnt sé á stuttum tíma eða í þingn. að athuga, hvaða leið ætti að fara. Það liggja ekki fyrir nægilegar rannsóknir til þess að hægt sé að ákveða, hvaða nýbreytni í búnaði helzt beri að styrkja og hvernig, en meiri hl. landbn. treystir hæstv. ríkisstj. til þess að láta athuga það. Ég minntist á tvennt í fyrri ræðu minni, aukna kartöflurækt og kornrækt. Hvorttveggja er merkilegt, og um aðra þessa atvinnugrein, kartöfluræktina, er þegar komið frv. Það er engin mótsögn hjá mér, þó ég vilji vísa til stj. kornræktarmálinu, og að það verði athugað, hvort rétt sé að veita styrk til vélakaupa handa þeirri atvinnugrein. Þetta og annað á stj., sem kraftinn hefir til þess, að láta athuga af þekkingu, því að það er mjög áríðandi, að því styrktarfé sem ríkissjóður leggur fram til atvinnuveganna, sé varið til þeirra framleiðslugreina, sem bezt borgar sig að stunda.

Það er víst, að árið 1923 og lengi eftir það kom jarðræktarstyrkurinn að góðu gagni. Nú er meiri vafi á um það gagn. Nú er brýn þörf að rannsaka það gaumgæfilega, hverskonar búnaður er arðvænlegastur og líklegastur til hagsbóta fyrir bændurna.

Það er sjálfsagt rétt, að margir bændur eru nú að gefast upp við búskapinn, en það stendur í raun og veru í sambandi við hina almennu örðugleika, og mér er það ekki sýnt, að bændur hætti við að bregða búi, þó þetta frv. verði samþ. Ég veit, að hv. 10. landsk. dettur ekki í hug að halda því fram, að þessir sex bændur í Akraneshreppi haldi áfram búskap sínum, ef þeir vita, að frv. verði samþ.

Ég held, að ég hafi nú minnzt á flest andmæli hv. 10. landsk. gegn ræðu minni, og skal þá loks minnast á það, sem hann skaut fram, að það mætti spara á launalögum til þess að finna fé. Hér ber að sama brunni og áður. Þetta þykir honum hægt nú, þó hann hafi ekki séð það meðan hann var ráðh. Þá var hann ekki að klípa við neglur sér þau laun, sem hann réði yfir, t. d. til kreppulánasjóðsstjórnarinnar. Honum datt það ekki í hug. Þá bar ekki heldur á þeim eldlega áhuga hjá honum fyrir því að efla búnaðinn, sem nú logar uppi í honum, þegar hann er orðinn vanmáttugur og veit, að hann getur engu komið fram.

Þá var hv. þm. að fara hér með einhver vísdómsorð, að því er mér skildist eftir núv. búnaðarmálastjóra, um það, að ef síðastl. maímánuður hefði ekki verið eins góður og hann var, þá hefði orðið kolfellir í tveimur landsfjórðungum. Það er nú alltaf auðvelt að mála svartar myndir með því að setja ef fyrir framan. Við gætum sagt það, að ef hafís kæmi og lokaði landinu allan veturinn, þá yrði afkoman verri en í góðæri. Við komumst auðvitað ekki hjá því að vera háðir tíðarfarinu. Við erum þannig settir, að við megum alltaf til með að einhverju leyti að treysta á himnaföðurinn eins og Kristrún í Hamravík.

Hv. 10. landsk. sagði, að frv. þetta hefði farið til landbn. 23. febr. Ég hefi ekki athugað, hvort þetta er rétt, en ég býst við, að hann geti farið rétt með tölustafi. En ég ætla bara ekkert að fara að afsaka landbn., þó hún hafi ekki skilað frv. fyrr en þetta. Yfirleitt hefi ég ekki tekið þessar og aðrar slíkar till. þessa hv. þm. í mikilli alvöru. Mér hefir skilizt, að bak við þær væri ekki hinn sanni áhugi, og ræð ég það af því, að þær koma þá fyrst, er þessi hv. þm. hefir misst skilyrði til þess að koma þeim til framkvæmda.