07.11.1935
Efri deild: 63. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í C-deild Alþingistíðinda. (3669)

14. mál, jarðræktarlög

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Hv. frsm. meiri hl. vildi svo sem halda því fram, að það væri nokkuð annað en fella þetta frv. að vísa því til stj.; hún mundi taka það til velviljaðrar athugunar og sú athugun mundi bera mikinn og glæsilegan árangur. Já, ég efast svo sem ekki um, að það sé velvilja að mæta hjá hæstv. stj., þegar þessar till. eiga hlut að máli. - Hv. frsm. meiri hl. var að reyna að skjóta sér undan því, sem ég hafði sagt, að kaupgjaldið hefði hækkað í sveitum fyrir atbeina ríkisstj. og þeirra flokka, sem að henni standa. Náttúrlega hefir kaupið ekki hækkað eins mikið yfir hásláttinn eins og aðra tíma árs. En vor og haust hefir hækkunin yfirleitt numið 1/3, og það er einmitt sá tíminn, sem bændur verja til jarðabóta, svo ég ætla, að það sé ekki ofmælt, að allur sá styrkur, sem veittur er samkv. jarðræktarlögunum, hverfi í þessa kauphækkun, og miklu meira en það.

Hv. frsm. meiri hl. viðurkenndi að vísu þörf bænda fyrir votheystóftir. Þakka skyldi honum! En hann vildi láta í veðri vaka, að þær þyrftu svo sem ekkert að kosta. Það mun hafa vakað fyrir honum, að það mætti byggja þær úr ódýrara efni heldur en steini. Já, það má koma upp endingarlausum tóftum úr ódýrara efni, en bæði skemmist meira í þeim, og svo er það mesti misskilningur, að tóftir úr innlendu efni kosti svo sem ekkert. Hv. þm. hefir í sumum tilfellum gott auga fyrir kaupgjaldi, en hann virðist vilja sleppa því alveg aftur í sumum. Hann má vita það, að vinnulaun við að byggja tóftir úr innlendu efni verða eins mikil eins og við steyptar tóftir. Þar sem ekki er um að ræða minna en 9 kr. á dag, kosta tóftir byggðar úr allra einfaldasta efni jafnvel stórfé fyrir þann bónda, sem rekur bú sitt með tapi. Svo mig undrar það, að maður eins og hv. frsm. meiri hl. skuli slá slíku fram.

Þá vildi hann bera brigður á áætlun fyrrv. búnaðarmálastjóra. Hann hafði ekki gert neina ágizkun í þessu efni; hann reiknaði þetta nákvæmlega út eftir skýrslum síðustu ára, sem jarðabótaskýrslur ná yfir. Hygg ég, að það gefi allskýra bendingu um kostnaðinn, sem af þessu hlyti að leiða. Náttúrlega er ekki hægt að segja nákvæmlega fyrirfram, hvað greiða þarf á hverju ári, en þessi áætlun gefur svo skýra bendingu sem yfirleitt er hægt að fá fyrirfram.

Hv. frsm. meiri hl. sparaði ekki skætinginn til mín persónulega. Ég er slíku ekki óvanur úr þeim herbúðum og tek það ekki nærri mér. Hann vildi segja, að fyrst eftir að ég var kominn úr meirihlutaaðstöðu hér á þingi hefði ég farið að skipta mér af málefnum landbúnaðarins. Ég vil bara spyrja hann, hvort það hafi verið algert afskiptaleysi af málum landbúnaðarins á því eina þingi, er ég hafði aðstöðu til þess að koma málum fram. Ég vil spyrja hann, hvort ekki hafi falizt neitt annað en gamlar tölur í þeim ráðstöfunum, sem gerðar voru vegna kreppuskulda bænda. Ég vil spyrja hann, hvort frystihúsastyrkurinn t. d. hafi ekki numið meiru en 50 þús. kr. Það framlag eitt nam tífaldri þeirri upphæð, sem hér er um að ræða. Ég vil einnig spyrja hann, hvort ábúðarlögin, sem gengu fram á því ári, hafi aðeins verið í því fólgin að breyta gömlum tölum.

Hv. frsm. meiri hl. reynir að leita sér sóma með því að tala óvirðulega um þær till., sem koma fram frá þeim mönnum, sem hér eru í minni hl., og er það náttúrlega í réttu samræmi við aðra framkomu stjórnarflokkanna, þar sem þeir geta ekki litið nokkurt mál réttu auga, ef það er ekki borið fram af manni úr þeirra herbúðum.

Þá kastaði hv. frsm. meiri hl. því fram, sem ég vænti ekki af honum, með því ég ætla, að slíkt sé óvenjulegt frá hans hendi. Hann var að gera skop að fyrrv. flokksforingja hér á Alþingi, sem nú er látinn, og þó einhver fyrrv. flokksbróðir hans hafi einhverntíma meðan hann lifði komið fram með skrif eða ræðu í líka átt, þá tel ég hv. frsm. meiri hl. algerlega ósæmandi að tala þannig eftir að hlutaðeigandi er dáinn.

Hv. frsm. vildi og halda því fram, að það hefði verið önnur aðstaða árið 1923, þegar jarðræktarlögin voru sett, heldur en á þessum árum til þess að styrkja bændur til jarðræktar. Þá hefði verið svo ágætur og ótakmarkaður markaður fyrir landbúnaðarafurðir. Hvernig var markaðurinn fyrir aðalútflutningsvöru landbúnaðarins 1923? Það var saltkjötsmarkaðurinn í Noregi. Fyrstu kjötfrystihúsin voru byggð 1925, að mig minnir. Þau voru a. m. k. ekki komin upp 1923, svo að landbúnaðurinn hafði þá ekki annan markað fyrir aðalframleiðsluvöruna heldur en saltkjötsmarkaðinn norska. Og hv. þm. ættu að muna, hvernig sá markaður var, hversu hann var rúmur. Það var ekki af því, að markaðshorfurnar væru svo glæsilegar, að jarðræktarlögin voru sett. Ef þær hefðu verið mjög glæsilegar, má vera, að bændur hefðu fremur treyst sér að ráðast í landbúnaðarframkvæmdir án þess að fá svo háan styrk sem þar var gert ráð fyrir. Það var meðfram af því, að markaðshorfurnar voru slæmar, að nauðsynlegt þótti að styrkja bændur til þess að auka ræktunina, til þess að þeir gætu framleitt sína vöru með minni tilkostnaði. Og það stendur einmitt nokkuð svipað á nú. Hagur búenda er þannig, að framleiðsla þeirra ber sig ekki. Til þess að framleiðslan beri sig þarf að vinna að því hvorutveggja, að reyna að hækka afurðaverðið, eftir því sem er mögulegt, og reyna að fá framleiðslukostnaðinn lækkaðan. Það kennir töluverðs misskilnings hjá hv. frsm. meiri hl., þegar hann heldur því fram, að aukinn styrkur til jarðræktar miði eingöngu til þess að auka framleiðsluna. Það má vera, að hann hafi einhver áhrif í þá átt, en fyrst og fremst verður það til þess, að framleiðslukostnaðurinn minnkar, ef bændur fá aðstöðu til þess að rækta jörð sína betur en áður. Þá hætta þeir að meira eða minna leyti hinum dýra heyskap á lélegum engjum, en afla heyjanna í þess stað á ræktuðu og véltæku landi. Það ætti öllum að vera ljóst, hvað stórmikill þáttur það er í því að lækka framleiðslukostnaðinn, ef hægt er að heina landbúnaðinum í þá átt, að menn þurfi ekki að afla heyja nema á ræktuðu landi, véltækum túnum eða flæðiengjum. Sérstaklega munar þetta miklu fyrir einyrkjann. Ef hann nær þeirri aðstöðu að geta aflað heyjanna heima við bæ, getur hann hefur notað vinnukraft barna sinna og annara liðléttinga, sem hann þarf að sjá fyrir, og þannig unnið tvennt í einu, sparað aðkeyptan vinnukraft og fengið meiri eftirtekju eftir vinnu heimafólks síns.

Í öðru lagi er það ekki vitað, nema unnt væri að rýmka markaðinn fyrir aðalframleiðsluvöru bænda, kjötið. Það er ekki fullreynt. Við vitum, að Norðmenn, sem sjálfir framleiða mikið kjöt, hafa þessi ár með góðum árangri selt kjöt til Frakklands og unnið þar nýjan markað, sem þeir telja sér mikinn ávinning að. Þessi leið hefir alls ekki verið reynd af hálfu okkar Ísl., og svo kann að vera um fleiri hugsanlegar leiðir, að þær hafa ekki ennþá verið fullkomlega prófaðar. Þó þunglega horfi nú um markaðsmöguleika fyrir framleiðslu landbúnaðarins, þá verður ekki annað sagt en illa hafi litið út fyrri, m. a. einmitt árið 1923, þegar jarðræktarlögin voru sett. Þessi rök hv. frsm. meiri hl. falla því um sjálf sig.

Hv. frsm. var að bera það í vænginn, að n. hefði haft of stuttan tíma til þess að athuga þetta mál. Ja - hún hefir nú haft þennan tíma frá því 23. febr., og auk þess hafði málið legið fyrir landbn. áður, svo hún hefði átt að hafa haft aðstöðu til að athuga það allvel. Frv. hafði verið sent Búnaðarfél., og það hafði gefið því meðmæli sín. Það hafði verið lagt fyrir búnaðarþing og fengið meðmæli þess. Þær fáu breyt., sem búnaðarþingið lagði til, að gerðar yrðu á því frv., sem áður hafði verið lagt fram, voru teknar til greina í því frv., sem hér liggur fyrir. Ég undrast það því, að hv. frsm. meiri hl. skuli jafnvel bera þetta í vænginn, að n. hafi ekki haft aðstöðu til að kynna sér frv.

Hv. frsm. meiri hl. sló enn á skoptóninn, sem honum er svo títt, þegar hann talaði um, að bændurnir í sveitunum væru að gefast upp. Ég veit ekki, hvort hv. frsm. tæki því eins vel, ef gert væri skop að atvinnuleysinu við sjávarsíðuna. Það er fjarri mér að svara honum í sama tón, en það er eins og það bregði ljósi yfir þann huga, sem hann ber til bændastéttarinnar, að geta ekki talað um það öðruvísi en í hálfgerðum skoptón, að bændur landsins séu að flosna upp, jafnvel margir í sama hreppi. Ég get gefið þær upplýsingar, að það er ekki minn hreppur, sem þar á hlut að máli.

Hv. frsm. meiri hl. vildi bera brigður á, að þetta frv. hefði áhrif í þá átt að halda bændum við býlin. Ég verð að líta svo á, að þegar bændur fá ekki önnur svör á Alþingi við þeirra réttmætu kröfum til löggjafarvaldsins heldur en hér virðist eiga að gefa, þá sé það a. m. k. enginn þáttur í því að halda þeim föstum við býlin.

Hv. frsm. meiri hl. reyndi að hafa í flimtingum orð núv. búnaðarmálastjóra. Vænti ég þess sízt af honum, því þau voru af fullum þunga töluð þessi orð búnaðarmálastjóra í útvarpið, þar sem hann benti á, að ef ekki hefði rætzt svo vel úr um tíðarfar síðastl. vor, þá hefði orðið kolfellir í sveitum landsins. Ég álít, að þetta ástand, sem stafaði af því, að ekki voru nægar votheystóftir til, hafi verið alvarlegra en það, að hafa beri slík orð í flimtingum.

Hv. frsm. meiri hl. vék að því, að ég hefði sagt, að nokkra upphæð mætti spara móti útgjöldum þessa frv. með því að samræma betur laun þeirra manna, sem taka laun utan launalaganna, og þeirra, sem taka laun eftir launalögunum. Ég hygg, að það sé almennt viðurkennt, að þarna megi koma að allmiklum umbótum. Ég veit ekki betur en að það sé þegjandi viðurkennt af mönnum úr öllum flokkum. Sé ég ekki, hvað það kemur málinu við, að ég ætlaði þeim mönnum, sem höfðu stjórn kreppulánasjóðs á hendi, þau laun, sem ég ætlaði þeim, því þau voru a. m. k. allmiklu neðan við þau laun, sem greidd hafa verið af núv. stjórn mönnum, sem ekki hafa nærri því eins mikið ábyrgðarstarf á hendi eins og stjórn kreppulánasjóðs.