09.11.1935
Efri deild: 65. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í C-deild Alþingistíðinda. (3675)

14. mál, jarðræktarlög

Frsm. minni hl. (Pétur Magnússon) [óyfirl.]:

Ég gerði í fyrradag allýtarlega grein fyrir skoðun minni á þessu frv., en það eru nokkur atriði í ræðu hv. frsm. meiri hl. n., sem ég vil drepa á, án þess að fara að gera miklar endurtekningar á því, sem ég hefi áður sagt. Það kom fram í ræðum þeirra beggja, hv. 1. þm. Eyf. og hv. frsm. meiri hl., sú aðalmótbára gegn frv., að það bakaði ríkissjóði útgjöld, ef samþ. yrði. Þessu verður ekki neitað, að þau útgjöld geta orðið nokkur. Hinsvegar hefi ég getið þess, að draga mætti úr þeim útgjöldum nokkuð, og ég mundi vera fús til samvinnu í því efni um ýms atriði frv. En með tilliti til þessara útgjalda vil ég benda á það, að á síðari árum hafa verið veittar í fjárl. stórar upphæðir til atvinnubóta í kaupstöðunum, og á það vil ég benda, sem áður hefir verið gert, að jarðræktarstyrkinn ber að skoða sem einskonar atvinnubótastyrk til sveitanna. Þær framkvæmdir myndu verða bændum algert ofurefli að ráðast í, ef þessi rekstur yrði ekki bættur. Ég hefi bent á, að aðstaða bænda til þess að ráðast í nýjar framkvæmdir sé slæm, og getuleysi þeirra stafar mikið af þeirri kauphækkun, sem núv. stjórnarflokkar beinlínis hafa knúð fram. Það hefir verið véfengt, að þessi kauphækkun hafi verið almenn hjá bændum. Vitanlega er það ekkert annað en hreinasta firra.

Það er auðskilið mál, að þeir, sem á annað borð selja vinnuafl sitt, vilja ekki vinna fyrir miklu lægra kaup heldur en borgað er í opinberri vinnu í sveitum. - Þegar hv. frsm. meiri hl. var að tala hér í gær, var hér merkur bóndi af þessum slóðum að hlusta á. Ég spurði hann þá um þetta, sem ég raunar hefi nú leitað mér upplýsinga um áður, hve miklu kauphækkunin næmi hjá bændum á Suðurlandi. Sagðist hann þora að fullyrða, að kauphækkunin í haust næmi a. m. k. þriðjungi, og hygg ég, að það láti nærri. Aftur á móti sagði hann, að um sláttinn væri kaupið tiltölulega lægra. Kauphækkun þessi er gersamlega óhjákvæmileg afleiðing af þeim opinberu ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið í þessu efni, og ég get ekki betur séð en að stjórnarflokkarnir verði að taka afleiðingunum af gerðum sínum, úr því þeir hafa orðið þess valdandi, að bændur verða að greiða hærra kaup heldur en þeir hefðu þurft, ef ekki hefði verið gripið til þessara opinberu ráðstafana. Þá hefðu bændur staðið betur að vígi með sínar framkvæmdir. Það er því skylda hins opinbera að kippa þessu í lag með öðrum ráðstöfunum, sem verka á móti þessum kauphækkunarráðstöfunum.

Þá hefir verið víkið að því að nýju, bæði af hv. 1. þm. Eyf. og hv. frsm. meiri hl., 4. landsk., að viðhorfið væri breytt frá þeim tíma, þegar jarðræktarl. voru sett. Einkanlega báru þeir við erfiðleikunum í afurðasölunni, og þess vegna orki tvímælis, hvort rétt sé að auka framleiðsluna og þá vitanlega jarðræktina. Þeir segja báðir - og hv. 1. þm. Eyf. lagði sérstaklega mikla áherzlu á það -, að aukin ræktun sé ekki mest aðkallandi fyrir sveitirnar. Ég hefi nú þá óbifanlegu sannfæringu, að gæti landbúnaðurinn ekki komið sínum málum í það horf, að hann geti haft tiltölulega mikla framleiðslu með litlu vinnuafli, þá eigi hann litla framtíð fyrir höndum. Eftir því, sem nú stefnir, virðast fyrir dyrum ófyrirsjáanlegar breyt., sem við myndum í sjálfu sér hreint frá óska eftir. Það myndi verða flestum bændum um megn að þurfa að kaupa vinnu í stórum stíl. Þetta vitum við báðir, hv. 1. þm. Eyf. og ég. Það myndi verða meiri hluti bænda, sem ekki gæti komið málum sínum í það horf sem skyldi. - Af þeim örðugleikum, sem bændur hafa átt við að stríða síðustu árin, hefir það leitt, að þeir hafa dregizt aftur úr á sviði umbótanna meir en aðrir atvinnuvegir. Það er sannfæring mín, að það sé bókstaflega lífsspursmál fyrir landbúnaðinn, að jarðræktin geti haldið áfram.

Ég kem þá loks að því máli, sem hefir dregizt svo mjög inn í þessar umr. og jafnvel orðið aðalumræðuefnið - þ. e. afurðasala landbúnaðarins. Því hefir verið haldið hér fram, að til séu töluverðir markaðsmöguleikar, sérstaklega fyrir frosið kjöt. Ég hefi látið í ljós þá skoðun í fyrra, að markaðurinn gæti stóraukizt. Ég hafði í því sambandi hreyft því, að lítið hefði verið gert, af hálfu hins opinbera a. m. k., til að vinna nýja markaði fyrir íslenzkt lambakjöt. Það lítur út fyrir, að þeir hv. 1. þm. Eyf. og hv. 4. landsk. ætli að taka upp það hlutverk, sem hv. þm. S.-Þ. hefir venjulega á hendi. Þeir voru hér að kasta hnútum að mér fyrir það, að ég hefði gerzt svo djarfur að leyfa mér að minnast á Sambandið í sambandi við þessa gagnrýni. Sannleikurinn er sá, að ég hafði ekkert gagnrýnt Sambandið, a. m. k. ekki beinlínis. Þeir gerðu mér upp orð, sem ég hafði sagt í allt öðru sambandi, en ég beindi aldrei slíkum orðum til S. Í. S. Það, sem ég sagði um þetta atriði, var bókstaflega, að það hefði ekkert verið gert af hálfu hins opinbera til þess að vinna nýja markaði. En það vita bæði ég og aðrir, að markaður fyrir afurðirnar verður ekki unninn með því að gera lítilfjörlegar og fálmandi tilraunir, ekki sízt þegar þær tilraunir framkvæmir viðvaningur. En jafnvel þó að þessu hafi verið svona varið, þá munu tilraunirnar hafa borið ótrúlegan árangur. Þetta voru auðvitað ekki tilraunir, sem höfðu neina almenna þýðingu, en þessi sala var þó upp á nokkur hundruð tonn fyrir mjög gott verð. Ég fyrir mitt leyti hefi talsverða ástæðu til að halda, að salan hefði getað orðið meiri, ef það hefði verið gert af mönnum, sem hefðu haft betri skilyrði heldur en þessir menn. Ég verð að líta svo á, að það sé ástæða til þess fyrir okkur að selja kjötið eingöngu til Englands. Aðalmarkaðirnir eru annarsstaðar. Ég hefi bent á, að við stöndum vel að vígi með markað fyrir kjöt. Allur kjötútflutningur okkar nemur ekki yfir 2-3 þús. tonn. En hvað er það af öllu kjöti, sem neytt er í Norðurálfunni? Það er vitanlega eins og krækiber í ámu. Ég skal játa, að það er auðvitað spursmál, hvort við getum fengið viðunandi markaði. Um það er ekki unnt að segja, nema að undangenginni rannsókn og eftir að tilraunir hafa verið gerðar til þess að koma íslenzku kjöti á aðra markaði. Það er vitanlega ómögulegt að slá því föstu fyrirfram, hvort hægt sé að selja íslenzkt kjöt annarsstaðar en í Englandi, og það kostar náttúrlega mikla peninga að reyna fyrir sér um slíkt. Hv. þm. taldi staðhæfingar mínar um afurðasöluna hreinustu fjarstæður. Ég hefi auðvitað engin skilyrði til að vita um það, að hve miklu leyti þeir menn, sem fengizt hafa við þessar tilraunir, hafi verið á réttri braut með þær, en hitt veit ég, að árangurinn hefir verið ákaflega lítill. - Hv. 4. landsk. minntist á í þessu sambandi sölu á síld og sölu fiskjar til Póllands og talaði í því sambandi um mann, sem hann sagði, að ég hefði mikið álit á og hefði minnzt á í þingræðu. Það er alveg rétt hjá honum, að ég drap á þetta einmitt í þessu sambandi. - Árið 1933 ætla ég, að seldar hafi verið 180 þús. tunnur af síld. Mér er nær að halda, að ef vel hefði verið á haldið þá, hefði okkur getað tekizt að vinna góðan markað fyrir síldina, en mér er óhætt að segja, að okkur hefir hraparlega mistekizt í því máli. Annars er ekki ástæða til að fara að ræða það mál hér nú. - En nú er svo komið með kjötið, að jafnvel þó að við hefðum á að skipa manni, sem hefði skilyrði til að vinna fyrir aukinn kjötmarkað og vildi taka það að sér, þá myndu ekki vera möguleikar til að opna nýja markaði. Þeir, sem hafa komizt upp á að nota íslenzkt kindakjöt eru sammála um, að það sé gott, en þó mun það ekki notað nema í nokkrum löndum. En það stafar af því, að ekki er gert meira til að vinna markaði fyrir það. Það getur e. t. v. tekið mörg ár, en ég tel æskilegast, að við gætum tekið upp fleiri verkunaraðferðir heldur en gert hefir verið. Eitt er þó víst, að ef þessum málum væri fullkominn sómi sýndur og vel að þeim unnið, þá mætti takast að auka markaðinn að miklum mun. - Eftir kjötsölul. hafa nærsveitir Reykjavíkur rétt til þess að flytja kjöt á Reykjavíkurmarkað, en fjarsveitirnar mega því aðeins flytja þangað, að nærsveitirnar geti ekki fullnægt markaðinum. En nú kemur hér fram sú skoðun hjá hv. 1. þm. Eyf., að það sé eðlilegt, að allar sveitir hafi jafnan rétt til að selja kjöt á Reykjavíkurmarkaði. Hver er þá tilgangur laganna? Það er mér ekki fullljóst. Samkv. þessu ættu kjötsölul. ekki að vera sett til að tryggja nærsveitunum hér Reykjavíkurmarkaðinn, heldur til þess að lækka kjötverðið. Nei, sannleikurinn er sá, að kjötsölul. eru miðuð við það, að nærsveitir Reykjavíkur fái einar að búa að Reykjavíkurmarkaðinum svo lengi sem þær geta fullnægt honum. Og það er ákaflega eðlilegt, og margt, sem mælir með því, að svo sé. Þessar sveitir hafa frá fornu fari haft sína afurðasölu hér. Fjórar af þeim sýslum, sem hér eiga hlut að máli - Gullbr.- og Kjósar-, Árnes- og Rangárvallasýslur -, slátra öllu sínu sauðfé í Reykjavík, eða svo að segja öllu (Kjósar- og Gullbr.sýslur öllu). Í tveimur sýslum - Borgarfjarðar- og Vestur-Skaftafellssýslum - slátra menn nokkru af sínu fé í Reykjavik. En um hinar er það að segja, að Mýrasýsla og austurhluti Hnappadalssýslu hafa miklu betri aðstöðu til að flytja kjöt á markaðinn vegna tíðra samgangna milli Borgarness og Reykjavíkur. Hvaða vit er nú í því frá þjóðhagslegu sjónarmiði af Skaftfellingum að slátra hér í Reykjavík og frysta þar til útflutnings og flytja svo með ærnum kostnaði frosið kjöt til neyzlu í Reykjavík? Slíkt getur vitanlega ekki gengið til lengdar. Auk þess hafa nærsveitir Reykjavíkur verra kjöt til útflutnings heldur en þau héruð framleiða, sem öll hafa notað Reykjavíkurmarkaðinn í haust. (MJ: Mega ekki Reykvíkingar nota gott kjöt?). Jú, að vísu, en ef hv. þm. ætlar að hyggja kröfur sínar í þessu máli á því, að það sé óforsvaranlegt að bjóða Reykvíkingum kjöt úr Borgarfirði, þá hygg ég, að hann fái ekki marga bændur til fylgis við sig um það. Ég held, að við getum verið fullsæmdir af Borgarfjarðarkjötinu. Ég veit ekki betur en að við séum báðir uppaldir á borgfirzku sauðakjöti, og ég álít, að það þurfi enginn að kenna í brjósti um okkur Reykvíkinga fyrir að leggja okkur það til munns. Sannleikurinn er sá, að víða í sveitum hafa menn orðið að fara þær leiðir, að nota heima þá vöru, sem óútgengileg er til sölu, og selja hina frá sér, sem betri er. Og þetta er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt. Við verðum að flytja út þá vöru, sem útgengilegust er, jafnvel þótt við að öðru jöfnu myndum nota hana heima. Það hefir verið svo undanfarin ár, að sumarslátrun hefir verið alldrjúg tekjulind fyrir ýmsa bændur hér í nágrenni Reykjavíkur, en þetta hefir eðlilega breytzt, þegar sláturtíðin byrjaði síðastl. haust um miðjan ágúst, og þá koma vitanlega margir með fé og kjötið hrúgast upp á markaðinum. Helzt þetta svo alla sláturtíðina, að kjöti er dembt til Reykjavíkur og Sláturfél. Suðurl. hefir ekki séð sér annað fært en að frysta til útflutnings milli 7-8 þús. skrokka. Mér er óhætt að fullyrða, að Slf. Sl. er mjög óánægt með þetta fyrirkomulag á kjötsölunni. Þrátt fyrir það, að bændur á Suðurlandi hafa mjög lítið hagnazt af þessu fyrirkomulagi, þá verða þeir að borga hátt verðjöfnunargjald af kjöti sínu, sem rennur svo til annara, sem hafa góð og jafnvel betri skilyrði til kjötframleiðslu. Ef þessu fer svo fram ár eftir ár, þá er fyrirsjáanlegt, að engir möguleikar verða á því að halda kjötsölul. uppi. (Forseti: Hv. þm. er kominn út fyrir efnið). Ég get svarað hæstv. forseta því, að raunar er þetta mál ekki á dagskrá, en það hefir nú orðið svo, að umr. um jarðræktarl. hafa beinzt að afurðasölumálunum, og er það ekki fjarskyldara efni heldur en oft og tíðum hefir verið rætt á Alþ. undir vissum dagskrárliðum.