12.11.1935
Efri deild: 67. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í C-deild Alþingistíðinda. (3677)

14. mál, jarðræktarlög

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Ég verð að harma það, að hv. 1. þm. Eyf. er ekki viðstaddur, en ég verð samt að koma nokkuð inn á þau atriði, sem hann vék að í ræðu sinni. Hann talaði mjög um það, hversu mikill kostnaðarauki væri að þessu frv. Ég hefi áður gert grein fyrir því, að kostnaðurinn væri ekki svo ógurlegur, þar sem hann yrði ekki meiri en 50 þús. kr., ef miðað er við framkvæmdir síðustu ára. Honum óx samt sem áður þessi upphæð í augum og sagði, að alltaf væri hægt að gera kröfur, og yfir höfuð skildist mér á hv. þm., að hann teldi þann flokk, sem ég tilheyri, ekkert gera nema kröfur. Ég vil þá taka það fram, að Bændafl. hefir farið mjög gætilega í að gera kröfur til útgjalda, og sízt um skör fram. Hv. þm. hefði frekar átt að beina þessum orðum til annara flokka, svo sem eins og samflokksmanna hans sumra, og þó sérstaklega til samliðsmanna sinna í stj., sem sé jafnaðarmanna, því að þeir hafa á undanförnum árum sérstaklega leikið sér að því að gera kröfur, háar kröfur, svo að segja má, að þegar við höfum gert kröfur um hundruð, þá hafi þeir gert kröfur um þúsund, og þegar við höfum gert kröfur um þúsund, hafa þeir gert kröfur um hundruð þúsunda, og ef við höfum þorað að fara svo hátt að gera kröfur um hundruð þúsunda, þá hafa þeir gert kröfur um milljónir. Veit ég ekki betur en fyrir þessu þingi liggi frv. frá jafnaðarmönnum, þar sem um milljónaútgjöld er að ræða, bæði með framlagi og lántöku, til framkvæmda og atvinnufyrirtækja. Það mætti því segja sem svo, að það hefði verið meiri þörf fyrir þennan hv. þm. að beina sínum geiri í aðra átt.

Hv. þm. sagði, að nú væri það ekki höfuðatriðið fyrir landbúnaðinn að auka ræktunina. Ég vil þá segja, að eitt fyrsta atriðið hjá landbúnaðinum er það, að við getum lækkað framleiðslukostnaðinn. Og þá held ég, að menn fái varla um það deilt, að eitt höfuðskilyrðið til þess er aukin ræktun. Það er augljóst mál, að það, sem landbúnaðinum ríður mest á, er að geta horfið sem mest frá hinni dýru rányrkju og í hennar stað stundað jarðræktarbúskap með þeim áhöldum og vélum, sem nútíminn getur látið í té. Ég ætla, að það sé auðvelt að bera saman afkomuskilyrði þeirra bænda, sem verða að stunda heyskap á þýfðum túnum og reytingsslægjum úti um úthagana, og afkomu þeirra bænda, sem hafa fengið aðstöðu til að geta aflað allra sinna heyja á véltæku og ræktuðu landi. Sá munur er svo mikill, að þess er alls ekki að vænta, að rányrkjubóndinn geti staðizt nokkurn samanburð við ræktunarbóndann, vélyrkjubóndann, nema alveg sérstakar ástæður aðrar séu fyrir hendi. Það borgar sig ekki að taka fólk til að vinna að heyskap á reytingsslægjum, eins og oft var áður gert. Fólkshaldið er allt of dýrt til þess að slík rányrkja fái borið sig. Má ganga út frá því sem vísu, að erfitt verði að útvega markað, sem getur samsvarað þeim kostnaði, sem slíkur búskapur hefir í för með sér. Hv. þm. talaði um það, að í þessu máli væru skuldamálin og afurðasölumálin þau mál, sem miklu meira ríði á í þessu efni. Það er vitanlegt, að það gamla súrdeig skuldamálanna er erfitt að leysa og mesta þörf er að vinna að því. Ég get í því sambandi þakkað honum fyrir, að hann hefir flutt frv., sem miðar að því að bæta úr lausn skuldamálanna, sem sé breyt. á l. um kreppulánasjóð. Hann vissi, að á leiðinni var frv. af minni hálfu í þessari deild, en gegnum annan mann fékk ég tilmæli um, að ég setti mig ekki á móti því, að hann flytti frv., og tók ég það til greina, ekki sízt vegna þess, að hann hafði aðstöðu til að fylgja málinu betur eftir, m. a. vegna þess, að hann á sæti í landbn. Og ég óska þess, að þessum hv. þm. takist svo vel að vinna að þessu máli, að það nái framgangi á þessu þingi. Hinsvegar verð ég að láta í ljós undrun mína og hryggð yfir því, að einn af hv. meðnm. hans í landbn., hv. 4. landsk., skuli hafa tekið því máli svo kuldalega sem hann hefir gert.

Annað atriði, sem þessi hv. þm. vildi leggja mesta áherzlu á, var afurðasölumálið. Ég er honum þar sammála, svo langt sem það nær. Það ætti vitanlega að vera sameiginlegt áhugamál allra hv. þm. að koma afurðasölumálunum í sem allra bezt horf og láta þar einskis ófreistað, hvorki utanlands né innanlands. En ég vil í því sambandi benda á það, að það hafa ekki verið notaðir allir hugsanlegir möguleikar til að auka markaðinn erlendis fyrir þessa vöru. Ég get ekki tekið undir þau orð hans, að eins og nú stendur séu allir möguleikar lokaðir; það getum við ekki sagt, á meðan allir möguleikar hafa ekki verið nýttir.

Hann spurði um það, hvaða gagn væri að rækta og slétta túnin og fjölga kúnum, þegar ekki væri hægt að selja mjólkina. Það hafa verið leidd rök að því af ýmsum búnaðarfrömuðum, að mjólkurneyzlan sé ekki nærri því eins mikil og verið gæti og vera ætti. Það er alveg víst, að það er hægt að auka mjólkurneyzluna mikið, bæði í kaupstöðum og sveitunum líka, og spara sér þar með aðkeyptar vörur. En það, sem fyrir mér var fyrst og fremst aðalatriðið með þessu frv., var það, að heyskaparkostnaðurinn og þar með framleiðslukostnaðurinn gæti lækkað.

Það hafa verið leidd rök að því, að jarðræktarstyrkurinn er nú raunverulega horfinn á móti þeirri kauphækkun, sem orðið hefir í sveitunum, og eru því þessar brtt. mínar aðeins lítilfjörleg úrlausn af hendi þess opinbera til að bæta úr því misræmi, sem orðið er milli jarðræktarstyrksins og kaupgjaldsins.

Hv. þm. talaði um þau orð, sem ég vitnaði í og hafði eftir núv. búnaðarmálastjóra, að það hefði orðið mikill fellir síðasta vor, hefði ekki verið svo gott tíðarfar sem var í maí. Ég ætla, að búnaðarmálastjóri sé maður fyrir sínum orðum og ég þurfi ekki að verja hans orð, enda játaði hv. þm., að illa mundi hafa farið a. m. k. í tveimur landsfjórðungum, ef vorið hefði ekki verið eins einmuna gott og það var. Þannig var ástatt af því, hversu sumarið 1934 var votviðrasamt. Þá höfðu bændur ekki getað verkað hey sín þannig, að þau væru í raun og veru hæf til fóðurs. En slíkt ástand hefði ekki þurft að skapast og bændur hefðu getað sparað sér að miklu leyti fóðurbætiskaup, sem hafa komið fjárhag þeirra mjög nálægt hruni, ef þeir hefðu haft nægilega miklar votheystóftir. Og því verð ég að halda fram, að slíkt árferði geti ávallt komið aftur og því sé það mesta nauðsyn til að tryggja búskap bænda, að votheystóftir séu til á hverju einasta sveitaheimili. Hv. þm. sagði, að votheysgerð hefði ýmsa ókosti í för með sér. Hefir hann kannske átt við það, hversu mikið erfiði fylgdi því að vetri til, þar sem tóftunum er illa fyrir komið, t. d. þar sem þær eru grafnar niður í hóla langt frá peningshúsunum, og má það satt vera. En með þessum l. á að koma í veg fyrir það erfiði, því að svo er vitanlega til ætlazt, að tóftunum verði sem haganlegast fyrir komið og Búnaðarfélagið hafi í gegnum sína trúnaðarmenn nákvæmt eftirlit með því.

Þá sagði hv. þm. þau orð, sem undruðu mig. Hann sagði, að ekki væri verkefni fyrir fleira fólk í sveitum Íslands. Þessi orð undruðu mig, ekki sízt vegna þess, að sá flokkur, sem hann tilheyrir, hefir mjög borið fyrir brjósti stofnun nýbýla og samvinnubyggða og önnur slík mál, sem eru einmitt reist á þeirri hugsun, að það sé sjálfsagt mál að stuðla að því að fjölga fólkinu í sveitunum og skapa því þar sem flest verkefni. Og jafnvel þó að fjárhagur ríkissjóðs leyfi ekki, að miklu sé varið nú til nýbýla og samvinnubyggða, þá má samt líta svo á, að það sé ekki einskis vert að geta haldið því fólki í sveitunum, sem nú er þar. Jafnvel þó að ekki sýnist glæsilegir möguleikar fyrir fólk í sveitunum eins og stendur, þá verða þó allir að játa, hversu mikil nauðsyn það er fyrir allt okkar þjóðfélag, að það fólk, sem nú hefir bjargræði sitt í sveitunum, haldi þeim bjargræðisvegi áfram. Einnig fyrir þá, sem við sjóinn búa, er það mesta nauðsynjamál, að straumurinn úr sveitunum stöðvist, svo að ekki aukist meira á það atvinnuleysi, sem nú er í þorpum og bæjum.

Hv. þm. benti á það, að þótt hann væri mótfallinn þessu frv., þá hefði hann eigi að síður vilja til að stuðla að jarðræktinni. Nefndi hann þar til frv. um garðyrkju og verzlun með kartöflur og garðávexti og styrk til garðyrkju, sem hann væri flm. að. Um þennan garðyrkjustyrk er það að segja, að ég sé ekki, að hans till. séu neitt betri eða álitlegri en mínar till. Fyrst og fremst er sá styrkur, sem þar um ræðir, aðeins bundinn við nokkur ár, en samkv. mínum till. á styrkurinn að vera áframhaldandi. Í öðru lagi felst breyt. fyrst og fremst í því, að það, sem í mínu frv. er nefnt styrkur, er í hans frv. og öðru líku nefnt verðlaun. Og þó að orðið „verðlaun“ sé áferðarfallegt, þá hefir það ýmsa ókosti í framkvæmdinni, sem ekki er um að ræða samkv. mínu frv.

Og ég get m. a. bent á, að það munu ekki liggja fyrir neinar alveg óbrigðular og öruggar skýrslur um það, þrátt fyrir okkar hreppstjóraskýrslur, hversu mikið af kartöflum hver einstakur framleiðandi hefir ræktað síðasta ár, svo að þegar ætti að fara að útbýta verðlaununum, þá hygg ég, að nokkrir erfiðleikar verði á því að sýna með alveg öruggum tölum þá kartöfluaukningu, sem verðlaunin eiga að miðast við. Við höfum reynslu fyrir því í sveitum, að það eru ekki nærri því allir framleiðendur, sem mæta á hreppaskilum, og þá verða hreppstjórar að setja einhverjar ágizkunartölur, þegar framteljendur mæta ekki sjálfir. Í öðru lagi ætla ég, að framtal undanfarinna ára hafi ekki verið sem ábyggilegast, svo að sem minnst sé sagt, og sé þar ónákvæmni í sveitum, þá er þó ennþá meiri ónákvæmni í þorpum og kaupstöðum, svo að ég hygg, að þeirri n., sem ætti að hafa á hendi útbýtingu verðlaunanna, mætti nokkur vandi, þegar hún færi að útbýta þeim. Svo er einnig þess að gæta, að á undanförnum árum hefir verið allmikið um sýki í kartöflum, og því er hætt við, að framleiðslan í sveitunum svari ekki nærri því til stærðar garðanna, þó að einhver framleiðandi fái kannske 10 tunnum meiri kartöflur en árið áður, þá er alls ekki þar með sagt, að hjá honum hafi kartöfluræktin aukizt, því að hjá þeim manni, sem ræktar kartöflur að nokkrum mun, getur tíðarfarið eitt valdið 10 tunna mismun á uppskerunni.

Þá má einnig benda á það, að þessi verðlaun koma að miklu meira gagni fyrir stórframleiðendur en smáframleiðendur, því að samkv. frv. hans verða menn að auka kartöfluræktina allverulega til að hljóta verðlaun fyrir, en samkv. mínu frv. geta menn fengið styrk, jafnvel þótt kartöflugarðurinn sé ekki stækkaður um meira en 200 ferm.

Þá er einnig gert ráð fyrir því í mínu frv., að styrkt verði sú grein jarðyrkjunnar, sem ég verð að telja mjög mikilsverða, en þessi grein er garðrækt, önnur en kartöflurækt. Þessi ákvæði í mínu frv. eru í því fólgin, að gert er ráð fyrir styrk til vermireita og gróðurhúsa, sem öllum er kunnugt, að er mikill þáttur í garðyrkjunni, ef á að rækta með nokkurnveginn öruggum árangri annað garðmeti en kartöflur. Og þetta hjálpar einnig til að tryggja það, að sem allra minnst þurfi að flytja inn af kartöflum á sumrin, en eins og allir vita, þá eru útlendar kartöflur langdýrastar á þeim tíma. Það er því svo, að jafnvel þótt ég vilji mjög viðurkenna þann áhuga, sem kemur fram í þessu frv. hv. þm., þá get ég ekki séð, að frv. hans hafi mikla yfirburði yfir mitt frv. Og um það getur þó enginn ágreiningur orðið, að til frambúðar er mitt frv. miklu betra.

Þá er á það að líta, að vegna gjaldeyrisvandræða þjóðarinnar er það afarmikilsvert fyrir okkur að geta sparað sem mest innkaup á þeim erlendu nauðsynjavörum, sem jarðræktin þarf með, en það er áburðurinn. Það er mikið fé, sem árlega fer út úr landinu fyrir útlendan áburð. En ef allur okkar búfjáráburður væri hirtur og nýttur, svo sem bezt mætti verða, þá gefur hann alla þá fosfórsýru og allt það kalí, sem ræktunin þarf eins og hún er nú. Má því augljóst vera, hversu mikið gjaldeyrisspursmál það er, að áburðargeymslan komist í sem bezt horf, en að því er stefnt með þessu frv.

Hv. þm. vildi draga það í efa, að ef Bændafl. kæmist til valda, þá myndi hann beita sér eins fyrir þeim umbótum, sem felast í frv., eins og hann gerir nú þegar hann er í stjórnarandstöðu. En ég get fullvissað þennan hv. þm. um það, að ef Bændafl. kæmist í stjórn, þá myndi hann láta það verða sitt fyrsta verk að endurskoða jarðræktarlöggjöfina og myndi þá ekki verða órífari í till. sínum heldur en hér er lagt til í frv.

Hv. 4. landsk. talaði um þá aðstöðubreyt., sem orðin væri nú frá því að jarðræktarlögin voru fyrst sett, sem var árið 1923, og átti hann þar við markaðsskilyrðin út á við. En sú aðstöðubreyt. er miklu minni en í fljótu bragði virðist.

Þegar jarðræktarlögin voru sett, voru mjög svipaðar aðstæður eins og nú, þá var nýafstaðið geysilegt verðfall á öllum innlendum afurðum, og ekki sízt á kjöti, og þá vissu menn, að yfir vofði hátollur á kjöti í því landinu, sem mest hafði keypt af þeirri vöru. Að menn þá gátu staðizt þetta mikla verðfall, sem varð á íslenzkum vörum á árunum 1920-1923, var eingöngu því að þakka, að bændur stóðu þá á gömlum merg og höfðu betri aðstöðu heldur en nú til að mæta því, af því að í stríðinu höfðu þeir fengið óvenjulega hátt verð fyrir vörur sínar, og á hinn bóginn höfðu þeir ekki lagt í neinn verulegan kostnað við byggingar eða annað þess háttar. En aðstöðuhorfurnar voru orðnar hinar alvarlegustu um sölumöguleika út á við, þegar jarðræktarlögin voru sett. En þá sáu menn réttu leiðina út úr vandræðunum, sem komið var í og vofðu yfir, og leiðin var einmitt þessi, að framleiðslukostnaðurinn yrði lækkaður með aukinni ræktun. Nú stendur mjög svipað á, og þess vegna verður að vinna í sömu átt, vinna að því að lækka framleiðslukostnaðinn með aukinni ræktun. Það er ekki fyrst og fremst með aukinni ræktun stefnt að því, að bændur fái betri aðstöðu til að auka búin, heldur að hinu, að lækka framleiðslukostnaðinn á þeim heyjum, sem þeir þurfa til þess að fæða búpening sinn. Það er nú sýnt, að bændur þola ekki að afla heyja sinna með þeirri þúsund ára gömlu heyskaparaðferð, sem hér hefir tíðkazt, að reyta saman hey sín með lélegum verkfærum á rýrum mýrum og bithögum. En lækkaður framleiðslukostnaður heyjanna hefir hvorttveggja það í för með sér, að bændur þola þá fremur verðfall á vörum sínum og geta líka fremur þolað að minnka bústofn sinn, og þurfa þar af leiðandi minna að kosta til í gerð peningshúsa. því meiri sem tilkostnaðurinn er við öflun heyjanna, því síður er hægt að ætlast til, að bændur geti lifað af litlum búum.

Hv. þm. talaði um, að smábændur og nýbýlamenn gætu aflað sér aukatekna með því að skjótast til sjávar og leita sér þar aukaatvinnu, einkum á vetrarvertíðinni. En ég vil nú spyrja þennan hv. þm.: Er ekki orðið þröngt fyrir dyrum fyrir sveitamanninn að komast að sjávarsíðunni, þegar í mörgum kaupstöðum er búið að setja bann við því, að aðkomumenn megi koma þangað í atvinnuleit, og leitað er allra ráða til að hafa áhrif á atvinnurekendur um það, að þeir veiti ekki aðkomumönnum vinnu? Mér finnst þess vegna, að þessi ávísun sé næsta lítilsverð eins og nú er komið málum.

Hv. þm. var að tala um, að sölumöguleikar væru mjög þröngir og þess vegna þyrfti, að mér skildist, að draga saman framleiðsluna, því ekki mætti ofhlaða á markaðinn. En stefnir hann þá að sama marki með sjávarútveginn? Stefnir hann að því, að sjávarútvegurinn verði dreginn saman eða öll aukning hans stöðvuð? Nei, ég veit ekki betur en að hann og hans flokksmenn flytji frv., þar sem stofnað er til kaupa á nýjum togurum fyrir milljónir króna.

Það er um framleiðslu á landbúnaðarafurðum eins og um sjávarafurðir, að það verður að leita að nýjum markaðsmöguleikum fyrir þær, þegar þeir eldri lokast eða þverra, og það er ekki hægt um það að segja, meðan ekki hafa verið gerðar rækilegar tilraunir í þá átt, hvort ekki sé hægt að finna þar nýjar leiðir, eins og menn hafa góða trú á, að hægt sé að finna í sjávarafurðasölunni.

Hann talaði um, að ég væri djarfari nú í því að gera kröfur heldur en ég hefði verið þegar ég var í stjórnaraðstöðu. En vill hann bera saman þær tölur, sem stjórnin þá gerði kröfur um fyrir landbúnaðinn, og þær lágu tölur, sem við tölum nú um? Í staðinn fyrir hundruð þúsunda þá, er nú talað um tugi þúsunda, og í staðinn fyrir milljónir þá, leyfum við okkur nú ekki að tala nema um hundruð þúsunda, svo að okkar kröfur nú eru ekki nema 1/10 hluti af þeim kröfum, sem gerðar voru fyrir landbúnaðinn þegar ég var í meirihl.aðstöðu á þingi. Samt leyfir hann sér að halda því fram, að fyrst nú komi ég með till. um stóraukin útgjöld til landbúnaðarins. Ég veit ekki, hvaða meiri fjarstæðu er hægt að segja en þetta.

Hann talaði um, að ég færi troðnar slóðir. En hefir sú stjórn, sem nú situr, eða núv. þingmeirihluti farið inn á nýja vegi? Ég veit ekki betur en að það, sem þessi stjórn hefir gert, sé að troða slóðir fyrrv. stjórna.

Þá talaði hv. þm. réttilega um það, að vegna gjaldeyrisvandræðanna þyrftum við að spara sem mest kaup á erlendum mat. En alveg það sama má segja um aðra erlenda vöru, og á ég þar við erlendan áburð. Hygg ég, að sú krónan, sem fer fyrir áburð, sé jafnerfið til yfirfærslu og bönkunum jafnmikils virði eins og sú króna, sem fer fyrir erlendan mat.

Hv. þm. lét mikið af því, að hann hefði lært ýmislegt í lögjöfnunarnefndinni, t. d. það, hve auðvelt væri fyrir aðrar þjóðir að nota markað á meginlandi álfunnar. Talaði hann í því sambandi um útflutning Norðmanna á frystu kjöti til Frakklands; en ég vil benda honum á, að Norðmenn þurfa líka yfir á að fara til þess að koma kjötinu til Frakklands, og þegar um fryst kjöt er að ræða, hygg ég, að það skipti litlu máli, hvort það kemst vikunni fyrr eða síðar á markaðsstað, - ég tala nú ekki um, ef teknar væru upp aðrar frystiaðferðir á kjöti, aðferðir, sem reyndar hafa verið á fiski og þótt gefast vel. Það er eitt af því, sem óreynt er, hversu mikið mætti bæta markaðsmöguleika fyrir íslenzkt kjöt með því að nota allra nýjustu aðferðir við frystingu þess.

Annars kom afstaða þessa hv. þm. gagnvart landbúnaðinum allgreinilega í ljós í sambandi við annað frv., frumvarpið um kreppulánasjóð. Þar kom hann að því, að kreppulánabréfin væru tekin af bændum og gefin bæjarfélögunum. Það er m. ö. o. að taka það, sem upphaflega var ætlað bændum til hjálpar, og gefa það bæjarfélögunum til þess að skattgreiðendur þar, og þá fyrst og fremst hæstu skattgreiðendurnir, fengju lægri útsvör. Ég get ekki stillt mig um að benda á þessar undirtektir, því þær bera þess ljósan vott, að jafnaðarmenn eru komnir í þá aðstöðu, sem menn reyndar vita, að þeir - þ. e. a. s. foringjarnir - eru orðnir með tekjuhæstu mönnunum í kaupstöðunum, og þess vegna stefna þeir að því, að útsvarsgreiðendur fái sem bezta aðstöðu og meta það meira en að styðja nauðstaddan atvinnuveg, og það þann atvinnuveg, sem þjóðlíf vort byggist á og þrátt fyrir allar þrengingar verður að teljast undirstaða þjóðernis vors og afkomu vorrar í bráð og lengd.

Hv. þm. fylgir því væntanlega á þessu þingi, að veitt sé 1/2 millj. króna til atvinnubóta í kaupstöðunum, og það má vel vera, að þess sé full þörf, - en hann ætti þá ekki heldur að sjá eftir 1/10 af þeirri upphæð til að styrkja atvinnu og afkomumöguleika sveitanna.

Þá var eitt atriði í ræðu hv. 2. þm. Rang., sem ég get ekki stillt mig um að gera aths. við. Hann hafði þau orð um það, að ekki mætti flytja kjöt úr fjarlægum sveitum inn á fyrstu verðlagssvæði, að sú hugsun lægi bak við kjötsölulögin, og að verðuppbótin væri verðlaun, sem fyrstu verðlagssvæðin greiddu fyrir það, að þau slyppu við jafnharða samkeppni og áður hefði verið af öðrum verðlagssvæðum. En ég vil benda á, að þótt þessu væri þannig háttað, þá verður að gera undantekningu frá þessu um þau héruð, sem ekki hafa aðstöðu til þess að flytja freðkjöt á erlendan markað, en hafa hinsvegar góða aðstöðu til þess að koma kjöti sínu með bifreiðum inn á fyrstu verðlagssvæði. Það mælir öll sanngirni með því, að þessar sveitir njóti þeirra gæða, sem hægt er að fá á innlendum markaði, m. a. vegna þess, að þær hafa ekki notið styrks til frysthúsbygginga. (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að fara ekki langt út í óskyld mál). Hv. 2. þm. Rang. hafði gefið ástæðu til þessa.

Vegna þess að ég hefi ekki aðstöðu til hér á eftir að koma með nema stutta aths. vil ég biðja afsökunar á því, að ég kemst ekki hjá að ræða um brtt., sem liggur hér fyrir, þótt hv. flm. hafi ekki mælt fyrir henni, en ég hefi þá það mér til afsökunar, að ég bauð honum að fá orðið á undan mér, en hann þáði það ekki. Ég ætla því að taka til athugunar þessa brtt., sem flutt er við frv. mitt og felur í sér að nema í burt öll ákvæði, sem í því eru, önnur en þau, sem eru um vothey og þurrhey.

Ég get að vísu þakkað þá viðurkenningu, sem hann gaf á laugardaginn, að í frv. mínu fælist mesta bjargráð fyrir landbúnaðinn. En ég verð að segja það, að brtt. stefnir að svo miklum niðurskurði á frv. mínu, að ég hlýt að vera henni fullkomlega andstæður. Hitt verð ég þó að játa, að þótt brtt. hans næði fram að ganga, þá væri mikils um vert, ef það, sem eftir verður af frv. mínu, yrði samþ., því ákvæðin um votheysgerð eru svo þýðingarmikil, að þau skipta miklu máli fyrir íslenzkan landbúnað. En ég vil benda á það, að Búnaðarfél. og búnaðarþingið í fyrra lögðu engu minni áherzlu á hin önnur ákvæði, sem hv. þm. Dal. leggur nú til, að numin séu úr frv. T. d. ræðir 2. gr. frv. míns um styrk til framræslu og lokræsagerðar, og lagði búnaðarþingið jafnvel mesta áherzlu á að fá þeim atriðum framgengt. Ég get þess vegna alls ekki sætt mig við, að frv. verði svo skert og skaðskemmt sem ég tel, að það verði, ef brtt. hv. þm. Dal. verður samþ., þótt ég hinsvegar játi, að mér þætti mikið fengið með því að fá samþykkt það, sem þá væri eftir, ef ekki væri um annað að gera. Því lítið er betra en ekki neitt.