12.11.1935
Efri deild: 67. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í C-deild Alþingistíðinda. (3679)

14. mál, jarðræktarlög

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég flyt hér brtt. við frv. og vil gera nokkra grein fyrir þeim. - Eins og ég hefi sagt áður, tel ég sumar till. í þessu frv. hafa í för með sér aðkallandi umbætur, sérstaklega þær, sem snerta verndun á fóðri og miða að því að byggja og bæta votheysþrær og hlöður.

Mér hefir heyrzt það á undirtektum meiri hl. n., að fullvíst sé, að hv. deild afgr. ekki málið með samþykkt laga, heldur muni taka þann kost, að vísa því til stj. En af því að ég get búizt við, að það taki tíma að fá málið afgr. frá stj., vil ég fara miðlunarveg. Mér þótti bera nauðsyn til að bjarga því úr frv., sem sízt þolir bið, og eru það þá einkum ákvæði 4. og 5. gr., og auk þess það, sem lýtur að garðrækt, þótt ég hafi ekki tekið það með. Ég tel, að þótt þau breytingaratriði verði samþ., sé ekki stofnað til neins óbærilegs kostnaðar fyrir ríkissjóð.

Búnaðarsamband Dala- og Snæfellsnessýslu, þar sem ég á sæti í stjórn, lagði á aðalfundi sínum á síðasta vori mikla áherzlu á aukinn styrk til þess að byggja votheysgryfjur og hlöður, bæði steyptar og ósteyptar. Undanfarin sumur hafa heyin stórskemmzt vegna þess, að þau hafa ekki náðst nógu fljótt, og jafnvel eftir að þau hafa náðst í garða. Hlöður flýta mjög fyrir hirðingu í stopulli þurrkatíð, og í langvarandi óþurrkatíð verða votheysgryfjurnar til bjargar.

Ég vil með þessum brtt. ekki leggja meira ríkissjóð en ýtrasta nauðsyn krefur. Ég get því ekki skilið annað en allir þeir, sem nokkra umhyggju bera fyrir landbúnaðinum, geti fylgt frv., ef brtt. mínar eru teknar til greina. Ég álít enga þörf á að skjóta þessum atriðum frv. til stj., heldur geti Alþingi verið fullkomlega dómbært um þau sjálft. Það virðist ekki svo afskaplegt vandamál, hvort hækka eigi ofurlítið styrk til að gera súrheyrsþrær og hlöður, sem byggðar eru úr öðru en steypu og járni. Sem sagt, mér sýnist, að viljinn til þess að gera ekkert í þessu máli komi fram í því yfirskini að vilja þó ekki fella frv. alveg, heldur skjóta því til ríkisstj. Ég teldi því hreinna gengið að verki, ef ekkert má samþ. af frv., að drepa það skilmálalaust heldur en að vera að vísa því til ríkisstj.